133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

heilsugæsla í Grafarholti.

322. mál
[14:51]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þetta er auðvitað mikilvægt fyrir Grafhyltinga, sem svo ber að kalla, sem búa í þessu nýja eða nýjasta hverfi Reykjavíkur verður að segja, a.m.k. af þeim sem nokkurn veginn er lokið.

Það er fróðlegt að heyra að hv. fyrirspyrjandi telji að hér sé um samsæri að ræða sem fram hafi farið í borgarstjórn Reykjavíkur og þar sé borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem vissulega kemur úr Árbænum, Dagur B. Eggertsson, sem mun vera átt við, fyrrverandi leikmaður með knattspyrnufélaginu Fylki, að draga önnur hverfi undir Árbæ. Það er auðvitað alveg hörmulegt að verða var við það að sjálfur heilbrigðisráðherrann hæstv. tekur þátt í þessu samsæri og nú stendur upp á Guðjón Ólaf Jónsson að grafast (Forseti hringir.) frekar fyrir um þetta.