133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

heilsugæsla í Grafarholti.

322. mál
[14:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og svör hæstv. heilbrigðisráðherra. Eins og fram kom í máli hæstv. heilbrigðisráðherra sækjum við sem búum í Grafarholti nú heilbrigðisþjónustu eða heilsugæsluþjónustu í Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ. Þetta er auðvitað algerlega ófullnægjandi og það þarf að vinna í þessu máli hratt og örugglega.

Ég gat ekki skilið hæstv. heilbrigðisráðherra öðruvísi en að það kæmi að því að sérstök heilsugæslustöð yrði opnuð í Grafarholti. Að sögn ráðherra er verið að auglýsa eftir nýju húsnæði. Ég tel að stíga eigi skrefið til fulls og auglýsa eftir húsnæði fyrir nýja heilsugæslustöð í Grafarholti. Við eigum að mæta kröfum samtímans, við eigum ekki alltaf að vera skrefinu á eftir í uppbyggingu heilsugæsluþjónustunnar. Það býr margt ungt fólk með mörg börn í Grafarholti. Þetta er fólkið sem þarf að nota heilsugæsluna hvað mest og þess vegna er mikilvægt og á að vera auðvelt án mikils tilkostnaðar að opna heilsugæslustöð í Grafarholti.

Ég get í sjálfu sér ekki haft nein orð um samsæriskenningar hv. þm. Marðar Árnasonar. En það liggur hins vegar fyrir að sá ágæti maður sem hv. þingmaður vísaði til, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er nú í minni hluta þannig að hann mun væntanlega ekki valda okkur Grafarhyltingum frekari vandræðum að sinni.