133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

sjófuglarannsóknir og breytingar á náttúrufari.

200. mál
[15:14]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Ég vil, frú forseti, byrja á því að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þessa ágætu fyrirspurn og síðan svona árétta að það er ekki pólitísk yfirlýsing þegar ég segi að talið sé að tengsl séu á milli loftslagsbreytinga eða hlýnun jarðar og sjávar við stofnstærðirnar heldur eru það kenningar og tilgátur fræðimanna sem að þessum rannsóknum standa.

En útbreiðsla fæðudýra getur auðvitað breyst verulega með hitastigi og einstakar tegundir geta horfið svæðisbundið á meðan aðrar koma í staðinn. Það hefur t.d. með rannsóknum verið sýnt fram á fylgni í magni rauðátu við langtímasveiflu við veðurfarsvísitölu sem er sögð byggja á loftþrýstingsmun milli Íslands og Azoreyja.

En raunveruleikinn er sá að gögn um fjölda breytinga og afkomu flestra íslenskra sjófuglastofna eru takmörkuð og þau eru slitrótt. Oftast eru engar upplýsingar til um breytingar á framboði helstu fæðuflokka þeirra sem gerir auðvitað alla túlkun mjög erfiða.

Það eru t.d., af því sandsílin komust hér til tals áðan, engar mælingar til um ástand sandsílastofna við Ísland á milli ára. Sandsíli er ekki bara lykilfæða fyrir margar tegundir sjófugla sunnan og vestan lands á varptíma heldur einnig undirstöðufæða margra nytjafiska. Ég vil taka undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði, og lagði áherslu á auknar rannsóknir og víðtæka vöktun vegna þess að án þess er erfitt að fullyrða um hvort bein tengsl séu á milli hækkandi hitastigs vegna gróðurhúsaáhrifa og versnandi afkomu margra sjófuglastofna. En slík tengsl eru vissulega líkleg og því er nauðsynlegt, eins og hv. fyrirspyrjandi lagði áherslu á, að auka vöktun sjófugla og lykilfæðudýra í hafinu.

Mig langar að bæta við þetta svar, frú forseti, að á fundum umhverfisráðherra Norðurlandanna hefur ítrekað verið rætt um hnignun sjófuglastofna við Norður-Atlantshaf. Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið unnið að samræmingu gagnagrunna yfir sjófuglabyggðir í norrænum löndum. Norrænn hópur vísindamanna sem hefur unnið að því frá því í árslok 2002 hefur skilað ítarlegum tillögum um vöktun sjófuglabyggða og samræmda skráningu upplýsinga og í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum vikum ályktuðu umhverfisráðherrarnir um hnignun stofna vestnorrænna sjófugla og þar var heitið innbyrðis frekari samvinnu og aðgerðum til að komast að orsökum þessa.