133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

rannsóknir á sandsíli.

201. mál
[15:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Svo vill til að í svari umhverfisráðherra í síðustu ræðu kom eiginlega fram inngangur að fyrirspurninni sem ég ber nú upp. Hæstv. umhverfisráðherra sagði að engar sandsílismælingar væru til sem hægt væri að nota til að bera saman milli ára og gefa grunn undir vísindalegar tilgátur um samhengið milli ástands sandsílis og sjófugla eða þeirra nytjastofna í sjó sem á sandsílinu lifa.

Í fréttum í sumar kom fram að Hafrannsóknastofnun gerði í fyrsta sinn út leiðangur til að kanna vöxt og viðgang sandsílis, sem ég spái að verði tíðræddara í þessum sölum en verið hefur hingað til. Þess vegna lagði ég í haust fram fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra um hverjar væru helstu niðurstöður sandsílisrannsókna þeirra sem Hafrannsóknastofnun hóf í sumar.

Mig langar að bæta við spurningu mína: Hver er þáttur Hafrannsóknastofnunar, ef ráðherra er kunnugt um það, í samstarfi Náttúrufræðistofnunar og Háskóla Íslands um sjófuglarannsóknir? Þær hljóta að nýtast Hafrannsóknastofnun til að kanna sandsíli og aðra fiska þótt það sé þvert á þann sið Hafrannsóknastofnunar, sem er athyglisverður og kannski ámælisverður líka, að einbeita sér að könnun á nytjastofnum einum saman án þess að vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar sé gert kleift að gera sér og okkur grein fyrir samhenginu í lífkeðju hafsins. Þó hafa ýmsir haft miklar fullyrðingar um þetta samhengi, þar á meðal sjávarútvegsráðherra sjálfur, vegna áforma sem hann hefur um veiðar á nytjastofnum, þegar honum hentar og honum þykir þörf á.