133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

rannsóknir á sandsíli.

201. mál
[15:30]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa ágætu, efnislegu umræðu um býsna flókið mál. Fyrir hálfum mánuði ræddum við svipað mál. Þá var sá sem hér stendur eini þingmaðurinn sem ekki var með líffræðipróf í salnum þann daginn og nú bættist einn líffræðingurinn í hópinn við þessa umræðu og er auðvitað heilmikið skjól að vita til þess að íslenskufræðingur var hér til þátttöku í umræðunni og sýnir það að stríð eru of mikilvæg til þess að láta hershöfðingjunum þau ein eftir og þannig er líka með líffræðina. Þau fræði eru of mikilvæg til þess að láta líffræðingunum þau ein eftir.

Hitt er það að í fyrsta lagi spurði hv. þm. Mörður Árnason hvort um væri að ræða samstarf milli Hafrannsóknastofnunar og annarra rannsóknastofnana í landinu um þennan þátt málsins. Án þess að geta svarað því til hlítar vil ég vekja athygli á að í því svari sem ég veitti fyrir hálfum mánuði um skylt mál kom fram í gögnum sem ég hafði þá undir höndum frá Hafrannsóknastofnun að vísað var einmitt í rannsóknir Arnþórs Garðarssonar á þessu samspili. Mér sýnist því að menn taki mark á og taki tillit til rannsókna sem fara fram í landinu og er sjálfsagður hlutur.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson talaði um áhrif veiða mannsins og að menn gerðu of mikið úr þeim þætti. Ég held að enginn haldi því fram að ekki þurfi að horfa til fleiri þátta en bara veiða mannsins og enginn, held ég, sem hefur verið að tjá sig um þessi mál sem er í sjálfu sér að gera lítið úr því.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hvort ég væri til í að auka veiðar á ýsu vegna þeirrar umræðu sem hérna fór fram og gera þær frjálsar. Ég vil vekja athygli á því að ég tók ákvörðun um að fara verulega fram úr ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi heildaraflamark í ýsu sem gefur færi til þess að auka veiðarnar í ýsu og varð til þess að um var að ræða meiri ýsuveiði, m.a. vegna þess að smábátarnir tóku hluta af kvóta stærri skipanna. Út af fyrir sig var heildaraflamarkið í ýsu ekki neinn flöskuháls í þessum efnum.

Ég tek undir það að lokum með hv. þm. Merði Árnasyni að auðvitað þarf að auka rannsóknir og halda þeim áfram þannig að við getum fengið (Forseti hringir.) þessa röð sem menn þurfa til samanburðar á einstökum árum.