133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnræði fiskvinnslu í landi og á sjó.

257. mál
[15:43]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Gallinn við hv. þingmann, eins ágætur og hann er nú, (SigurjÞ: … við mig?) er einfaldlega sá að hann flytur alltaf sömu ræðuna. Það er alveg sama hvað hann er að tala um, hann flytur alltaf sömu ræðuna og þess vegna (Gripið fram í: Það er kostur.) þegar hann fylgir úr hlaði fyrirspurn sem lýtur að úrskurði samkeppnisráðs gerir hann það á þann hátt að hann fer ekki sjálfur yfir úrskurð samkeppnisráðs og reynir þess vegna alls ekki að leggja það upp fyrir þingheim út á hvað spurning hans gekk.

Ég rakti það áðan að ég hefði farið yfir þetta álit samkeppnisráðs mjög ítarlega. Ég greindi það að — (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Má ég fá orðið fyrir hv. þingmanni? Það getur þá kannski komið að því að úr þingsalnum flytji hann allt í einu nýja ræðu en þegar hann kemur í ræðustól þá bullar hann alltaf þetta sama, (Gripið fram í.) alltaf sömu gömlu ræðuna aftur og aftur (Gripið fram í.) og óttast það síðan óskaplega þegar hann heyrir önnur sjónarmið. Ég get ráðlagt hv. þingmanni að ef honum er illa við að heyra önnur sjónarmið getur hann fengið sér heyrnarhlífar og reynt að koma í veg fyrir að hann þurfi að hlusta því að hann vill ekki hlusta, enda tekur hann aldrei eftir neinu og talar bara eins og hann hafi ekki heyrt neitt af því sem fram fer.

Ég var að rekja það hérna áðan að ég fór mjög rækilega yfir þetta álit samkeppnisráðs. (Gripið fram í.) Ég gerði síðan grein fyrir því (Gripið fram í.) — kemur nú hv. þingmaður, frammíkallari Björgvin G. Sigurðsson (Gripið fram í: … málefnalegur í málefnaþurrðinni.)

(Forseti (RG): Gefa ræðumanni hljóð.)

Ég hef nú bara ekki komist áfram í að reyna að útskýra, (Gripið fram í: … þingmanninum.) virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég er að reyna að segja að ég fór yfir þetta álit samkeppnisráðs, ég fór yfir það efnislega lið fyrir lið. Ég svaraði því, bæði þessum tveimur efnisatriðum sem að mér sneru, ég setti fram skoðun mína á báðum þeim atriðum. Ég sagði að verið væri að fylgjast með því hvernig hægt væri að bregðast við fyrra atriðinu því að fyrra atriði samkeppnisráðs hljóðaði upp á að ef til væru tæknilegar lausnir, hvort hægt væri að fara í tiltekin mál. Niðurstaðan var sú að þessar tæknilegu lausnir voru ekki til.

Hitt sneri að miklu stærra máli. Ég fór yfir ýmis álitamál varðandi það og það getur vel verið að hv. þingmaður sé ósammála mér um niðurstöðuna, þá er það bara þannig, en það þýðir ekki það að ég hafi ekki svarað málinu. Ég svaraði málinu.