133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnrétti til tónlistarnáms.

289. mál
[15:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um jafnrétti til tónlistarnáms: Hyggst ráðherra tryggja kennslu og kostnað við tónlistarnám á grunn- og framhaldsstigi og með því jafnrétti til tónlistarnáms óháð búsetu og efnahag til jafns við annað nám samkvæmt opinberum námskrám?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er það að samkvæmt lögum um framhaldsskóla ber menntamálaráðherra ábyrgð á öllu skólastarfi á framhaldsskólastigi og samkvæmt sömu lögum ber ríkissjóði að greiða kostnað vegna framhaldsskóla, bæði launakostnað vegna kennslu, stjórnunar og annarra starfa og einnig rekstrarkostnað skólans samkvæmt nánari reglum þar um. Tónlistarnám er hluti af hinu skilgreinda framhaldsskólanámi og samkvæmt lögum eru námsbrautir á framhaldsskólastigi skilgreindar sem starfsnámsbrautir, bóknámsbrautir, listnámsbrautir og almennar brautir, en innan listnámsbrautar er einmitt tónlistarnám. Ég er hér t.d. með námskrá frá Menntaskólanum á Akureyri fyrir tónlistarbraut sem sýnir að 45 einingar eru sérhæfðar á tónlistarsviði. Nemendur sem stunda þetta nám og skrá sig í tónlistarnám á framhaldsskólastigi þurfa að greiða stóran hluta þess kostnaðar sem er við námið. Þetta er mikið óréttlæti og stríðir gegn lögunum um framhaldsskóla.

Rétt er að halda því til haga að í október 2004 var gert samkomulag, bráðabirgðasamkomulag sem gilti fyrir skólaárið 2004–2005, milli menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem mátti framlengja áfram fyrir skólaárið 2005–2006, þar sem ríkissjóður skuldbatt sig til að koma að greiðslu kostnaðar við tónlistarnám á framhaldsskólastigi.

Þessi samningur var ekki endurnýjaður þannig að árið 2006 hefur það farið svo að nemendur hafa þurft að greiða stóran hluta af námskostnaði við tónlistarnám m.a. í framhaldsskólum. Þetta er í fyrsta lagi lítilsvirðing gagnvart þessu námi og að mínu mati ekki farið að lögum. Í öðru lagi er þetta gríðarlega mikið misrétti gagnvart því fólki sem verður að senda börn sín úr heimahéraði í fjarlæga skóla, eins og á Akureyri eða í Reykjavík, og ef þau vilja stunda tónlistarnám þar, þarf það greiða þann kostnað. Því beini ég fyrrgreindri fyrirspurn til hæstv. ráðherra.