133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

tryggingagjald.

420. mál
[20:25]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lögum. Í fyrsta lagi er lagt til að tryggingagjald verði lækkað um 0,45% frá 1. janúar 2007.

Í öðru lagi er lagt til að ríkissjóður veiti tiltekinn hluta af gjaldstofni tryggingagjalds til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.

Fyrri breytingin sem hér er lögð til á rætur að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 7. mars 2004 vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði en þar kom fram að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að almennt tryggingagjald lækkaði um 0,45% frá 1. janúar 2007 gegn því að Samtök atvinnulífsins samþykktu að iðgjald atvinnurekenda til sameignarlífeyrissjóða yrði frá þeim degi hækkað úr 7% í 8%.

Á undanförnum missirum hefur verið samið í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði um hækkun iðgjalds atvinnurekenda til sameignarsjóða. Nú er svo komið að langflestir atvinnurekendur munu frá og með næstu áramótum greiða að lágmarki 8% iðgjald til sameignarlífeyrissjóða. Rétt er að geta þess að fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingu á lögum um lífeyrissjóði um hækkun á lágmarksiðgjaldi í sameignarsjóði, þ.e. að það fari úr 10 í 12%.

Þessar hækkanir koma til vegna breyttra aðstæðna í lífeyrissjóðaumhverfinu, meðal annars vegna hækkandi lífaldurs þjóðarinnar og aukinnar örorkubyrði. Lækkun almenns tryggingagjalds um næstu áramót um 0,45% er, eins og áður segir, liður í þessum breytingum og forsenda þess að efla megi lífeyrissjóðakerfið enn frekar.

Seinni breytingin í þessu frumvarpi felst í því að lagt er til að tilteknum hluta af gjaldstofni tryggingagjalds verði varið til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða eða sem svarar til 0,15% árið 2007, 0,20% árið 2008 og 0,25% frá og með árinu 2009.

Örorkulífeyrisþegum hjá lífeyrissjóðum hefur fjölgað ört undanfarin ár eða um allt að 750–800 sjóðfélaga árlega undanfarin þrjú ár. Þessi fjölgun hefur haft í för með sér aukin heildarútgjöld lífeyriskerfisins. Örorkubyrðin leggst hins vegar misjafnlega þungt á lífeyrissjóði og getur numið allt frá 6% til 43% af lífeyrisgreiðslum sjóðanna. Í ljósi þess hve misþungt örorkulífeyrisgreiðslur falla á lífeyrissjóði þykir rétt að jafna þann aðstöðumun sem sjóðirnir búa við með einhverjum hætti.

Til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga, gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu hinn 15. nóvember 2005 þar sem fram kom að ríkisstjórnin væri reiðubúin að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrði milli lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með framlagi sem svarar til hluta af tryggingagjaldsstofni og kæmi til framkvæmda á árunum 2007–2009. Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi verið að færa efni fyrrgreindrar yfirlýsingar í lagabúning en í öðru lagi er lagt til að jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða eigi sér stað til frambúðar fyrir alla lífeyrissjóðina. Þótt fyrir liggi að örorkubyrði tiltekinna lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sé nú meiri en örorkubyrði annarra lífeyrissjóða þykir eðlilegt að fjárframlag úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða renni í framtíðinni til allra lífeyrissjóða með starfsleyfi fjármálaráðherra. Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir því að frá og með árinu 2010 taki jöfnunin til allra lífeyrissjóða með starfsleyfi samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í því sambandi má nefna að tryggingagjald er greitt af launum allra vinnandi manna og því eðlilegt að ráðstöfun þess til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða nái jafnt til allra lífeyrisþega óháð í hvaða lífeyrissjóð þeir hafa greitt á starfsævinni. Rétt er að geta þess að þær viðmiðanir sem lagt er til að lagðar verði til grundvallar skiptingu framlagsins milli lífeyrissjóða munu hins vegar gera það að verkum að þeir lífeyrissjóðir sem á hverjum tíma búa við mestu örorkubyrðina munu fá stærstan hluta framlagsins.

Í samræmi við fyrrgreinda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður það hlutfall af gjaldstofni tryggingagjalds, sem ráðstafað verður til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða, 0,15% árið 2007, 0,20% árið 2008 og 0,25% árið 2009. Miðað við áætlaðan gjaldstofn tryggingagjalds ársins 2006 verður framlagið um 940 millj. kr. í október 2007 og 1.336 millj. kr. í október 2008 miðað við áætlaðan gjaldstofn tryggingagjalds árið 2007. Áætlun gjaldstofns tryggingagjalds vegna ársins 2008 liggur ekki fyrir en miðað við áætlun fyrir árið 2007 yrði framlagið um 1.670 millj. kr. í október 2009.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.