133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

tryggingagjald.

420. mál
[20:30]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni eitt af mörgum frumvörpum sem ríkisstjórnin leggur fram til 1. umr. á lokadögum þingsins. Það er auðvitað til vansa hve seint þingið fær þessi mál til meðferðar sem gefur þá nefndum þingsins stuttan tíma til að fjalla um málin. Mörg þeirra mála sem við eigum eftir að fjalla um eru stór að vöxtum og það er ekki til fyrirmyndar að ríkisstjórnin sýni þinginu slíka lítilsvirðingu að koma svo seint fram með þau.

Í því frumvarpi sem við ræðum nú er í fyrsta lagi verið að lækka tryggingagjald og í öðru lagi að greiða sem svarar 0,25% af gjaldstofni tryggingagjalds til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Ég hygg að hvort tveggja séu ákvarðanir sem teknar voru í tengslum við kjarasamninga. Það er vísað til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 7. mars 2004 varðandi lækkun á tryggingagjaldinu og ég hygg að ákvæðið um 0,25% af gjaldstofni tryggingagjalds sem fara á til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða megi rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá því í sumar, ef ég man rétt. Þess vegna vekur það enn meiri furðu hve seint þetta frumvarp er á ferðinni þegar hæstv. fjármálaráðherra hefur fengið svo langan tíma, og fólk hans í ráðuneytinu, til að ganga frá þessu máli.

Ég fæ þetta mál til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd og ætla því ekki að dvelja lengi við það í ræðustólnum. Ég hef þó tvær eða þrjár spurningar til hæstv. ráðherra sem ég held að gott væri að fá svör við til að greiða fyrir málinu í nefndinni.

Hér kemur fram að staða sjóðanna sé mjög misjöfn og vísað er til fjölgunar á öryrkjum og að meðalaldur öryrkja fari lækkandi. Talað er um að örorkubyrðin leggist mjög misjafnlega þungt á lífeyrissjóði og geti numið allt frá 6% til 43% af lífeyrisgreiðslum sjóðanna. Það hefði verið æskilegt að fá yfirlit yfir þessa sjóði og hvernig örorkubyrðin leggst með mismunandi hætti á hina ýmsu sjóði, enda er verið að vísa í að markmiðið með þessari breytingu sé að jafna þann aðstöðumun sem sjóðirnir búa við með einhverjum hætti. Ég sé ekki við fljótan yfirlestur að gerð sé grein fyrir því hvaða áhrif þessi breyting, þar sem verið er að tryggja auknar tekjur til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna, muni hafa á stöðu og fjárhag lífeyrissjóðanna sem njóta þessa framlags.

Það er ekki langt síðan að við gengum í gegnum það að almennu lífeyrissjóðirnir þurftu að skerða réttindi lífeyrisþega verulega og ætla ég ekki að rifja upp þá umræðu. Það er þekkt í þingsölum, innan og utan þingsala, að það var farið skelfilega með marga lífeyrisþega og öryrkja sem í því lentu að lífeyrisréttindi þeirra í lífeyrissjóðunum voru skert. Maður veltir fyrir sér áhrifum þessara breytinga og hvort þær muni rétta við stöðu og fjárhag lífeyrissjóðanna, hvort gerð hafi verið úttekt á því miðað við þá breytingu sem hér er gerð, hvort þetta hafi þau áhrif að ekki þurfi að draga til þeirra tíðinda í náinni framtíð að grípa þurfi til slíkrar skerðingar á réttindum sjóðfélaga. Ég hefði viljað fá nánari upplýsingar um þetta en ég get lesið mér til um í frumvarpinu.

Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar kemur fram að lækkun á tryggingagjaldi lækki tekjur um 2,8 milljarða kr. miðað við áætlaðan gjaldstofn tryggingagjalds en framlög til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóðanna verða 940 millj. árið 2007, 1.300 millj. kr. árið 2008 og 1.700 millj. kr. árið 2009. Hér er um verulegar fjárhæðir að ræða. Ég hef ekki skoðað þær en þetta er eitt af því sem við munum leita svara við í efnahags- og viðskiptanefnd. Kannski hefur hæstv. ráðherrann svar við þessu. Tryggingagjaldið hefur runnið til þess að fjármagna ýmis störf og brýn verkefni, það sem ég man eftir í bili er t.d. Fæðingarorlofssjóður en hann hefur átt í vök að verjast fjárhagslega á undanförnum árum. Ég velti þá fyrir mér hvaða áhrif það hafi að lækka tryggingagjaldið með þeim hætti sem hér er lagt til, sem þýðir væntanlega að tekjur af því sem fara til þeirra verkefna sem hér er lýst, muni lækka verulega, ásamt því að verið er að lækka almennt tryggingagjald af atvinnurekstri um 0,45%.

Þetta eru þær þrjár spurningar sem ég hef við 1. umr. þessa máls og vænti þess að hæstv. ráðherra hafi svör við þeim.