133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

tryggingagjald.

420. mál
[20:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vænti þess þá að hæstv. ráðherra sjái til þess að við fáum inn í efnahags- og viðskiptanefnd það sem ég kallaði eftir, eða hvaða áhrif þessar breytingar muni almennt hafa á stöðu og fjárhag lífeyrissjóðanna sem njóta þá þeirra framlaga sem hér er verið að gera tillögu um til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að þetta hefur kannski ekki áhrif á þær miklu skerðingar sem sjóðfélagar þurftu að ganga í gegnum og munu þurfa að gera að óbreyttu.

Það sem ég spurði hæstv. ráðherra um var hvort sú breyting sem hér er verið að gera tillögu um, muni hafa þau áhrif í framtíðinni að ekki þurfi að grípa til eins harkalegra aðgerða gagnvart sjóðfélögum og við höfum séð á undanförnum vikum, og hvort gerð hefði verið einhver skoðun á því hvort tryggt væri með slíkum aðgerðum að ekki þyrfti að koma til þess í náinni framtíð. Ég kallaði eftir þessu.

Hæstv. ráðherra fullvissar okkur um að þær breytingar sem verið er að gera á tryggingagjaldinu sem m.a. hefur fjármagnað Fæðingarorlofssjóð muni ekki hafa nein áhrif á stöðu þess sjóðs. Þá spyr ég: Erum við að tala um á næsta ári eða á næstu árum? Hefur það verið skoðað hvort þessi breyting geti haft einhver áhrif á fjárhagsstöðu Fæðingarorlofssjóðs á næstu árum?