133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

tryggingagjald.

420. mál
[20:39]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi auðvitað gjarnan geta sagt að þetta frumvarp leiði til þess að ekki verði úr þeim skerðingum sem boðaðar hafa verið hjá lífeyrissjóðunum. En um það get ég ekkert fullyrt því að ég hef ekki yfir sjóðunum að segja til að hafa áhrif á það sem þar fer fram í þeim efnum.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um í sambandi við Fæðingarorlofssjóð, þá get ég ekki séð að það sem um er að ræða í þessu frumvarpi hafi nein áhrif á fæðingarorlofið svo langt sem ég get séð. Ég held að hv. þingmaður geti verið alveg róleg yfir því að við skerðum ekki tryggingagjaldið og tryggingastofninn á þann hátt að það hafi einhver áhrif á Fæðingarorlofssjóð.