133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[20:46]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því ákvæði sem er að finna í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, um að loksins sé viðurkennt að greiðslur í fæðingarorlofi og réttur til umönnunargreiðslna geti farið saman og séu samrýmanlegar. Tekist hefur verið á um það í sölum Alþingis á umliðnum árum og raunar allt frá því að fæðingarorlofslögin voru sett.

Við höfum margsinnis lagt fram rök fyrir því af hverju svo ætti að vera. Ætli það séu ekki þrír ráðherrar í stóli félagsmálaráðherra sem við höfum brýnt til að breyta þessu og viðurkenna að umönnunargreiðslur séu sérstakar greiðslur vegna umönnunarþarfa fatlaðra barna. Það er aukakostnaður vegna þeirra. Það er loksins nú að við erum að sjá árangur af því. Þetta er komið í frumvarpsbúning frá hæstv. félagsmálaráðherra. Því ber að fagna að hæstv. félagsmálaráðherra, Magnús Stefánsson, hafi fljótlega eftir að hann kom í stól ráðherra viðurkennt þetta, sem aðrir félagsmálaráðherrar höfðu ekki gert á undan honum. Þeir ræddu um að þetta mál yrði skoðað og kannað fram og til baka án þess að við sæjum nokkra niðurstöðu af slíkum athugunum.

Þetta hefur orðið til þess, virðulegi forseti, að fjöldi barna og foreldrar þeirra sem hefðu með réttu, ef þau rök sem nú eru viðurkennd hefðu verið viðurkennd fyrr, hafa misst umönnunargreiðslur. Það munar um þessar greiðslur fyrir foreldra fatlaðra barna. Greiðslurnar eru misháar, það fer eftir umönnunarþörf barnanna. En í svari við fyrirspurn minni um þetta efni fyrir nokkrum árum kom fram að á einu ári væri öruggt að að minnsta kosti einhverjir tugir barna hefðu átt rétt á þessum umönnunarbótum ef þær hefðu verið viðurkenndar sem samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslum. Við erum að tala um að tugir foreldra fatlaðra barna hafi verið án umönnunargreiðslna sem þeir sannanlega áttu rétt á.

Rökin í dag, sem viðurkennd er í því frumvarpi sem við fjöllum um hérna, voru vissulega þau sömu þegar við fjölluðum um málið fyrir nokkrum árum síðan. Manni finnst næstum því að koma hefði átt til skoðunar hvort þetta hefði ekki átt að greiðast afturvirkt til foreldra sem ekki fengu þessar umönnunargreiðslur meðan menn viðurkenndu ekki réttlætið í því að þær væru samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslunum.

Það væri út af fyrir sig, virðulegi forseti, mjög freistandi að ræða ýmsa ágalla á fæðingarorlofslögunum við þetta tækifæri. Ég harma það hve seint hæstv. ráðherra kemur með þetta mál, nokkrum dögum áður en þingið fer í jólaleyfi. Það hefði verið æskilegt að við fengjum málið fyrr inn í þingið og til félagsmálanefndar til þess að við hefðum tíma og tækifæri til að fjalla um ýmsa ágalla sem hafa komið í ljós á fæðingarorlofslögunum, og ekki síst vegna breytinga sem gerðar voru á þeim, að mig minnir, á 130. löggjafarþingi. Það hefur alltaf komið betur og betur í ljós að þær hafa orðið til að skemma mikið þessa annars ágætu löggjöf.

Þeir eru orðnir ófáir póstarnir sem ég hef fengið frá fólki sem lent hefur í miklum skerðingum, m.a. vegna breytinga á viðmiðunartímabilinu. Fólk er farið að sjá að það sem við héldum fram á 130. löggjafarþingi, þegar þáverandi félagsmálaráðherra kom fram með þessar skerðingar, að þetta mundi leiða til þess að fæðingarorlof yrði ekki 80% af launum heldur, af því að tímabilið var lengt og miðað við allt að þriggja ára gamlar tekjur, mundu greiðslurnar fara niður í undir 70% af launum. Þetta hefur orðið staðreynd. Við nefndum tölurnar á 130. löggjafarþingi sem ASÍ setti fram, BSRB setti fram og fleiri aðilar sem sáu fyrir sér afleiðingarnar af þeim lagabreytingum sem þá voru gerðar.

Ég hefði sannarlega viljað hafa tíma til að fara rækilega ofan í málið í félagsmálanefnd svo við getum öll gert okkur grein fyrir afleiðingunum af þessum breytingum. En ég ætla mér ekki að tefja þetta mál. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að greiða leið þessa máls í gegnum þingið.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra um aðrar tegundir greiðslna í Tryggingastofnun sem við höfum vakið athygli á að þyrfti að skoða líka. Það eru greiðslur sem ekki eru taldar samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslum og snúa að öryrkjum. Við bentum t.d. á að réttur öryrkja til lífeyrisgreiðslna fellur niður í fæðingarorlofi. Við bentum á það á 130. löggjafarþingi að þannig gætu t.d. öryrkjar í mörgum tilvikum skerst svo, þegar þeir fara í fæðingarorlof, að hlutfall fæðingarorlofsgreiðslna af lífeyrisgreiðslum sem falla niður gæti farið niður í 60–65%. Meira en hjá öðrum sem missa greiðslurnar niður í 70%.

Þegar við vöktum athygli á þessu, m.a. varðandi umönnunargreiðslur sem verið er að leiðrétta núna, að þá vöktum við líka athygli á þessum annmörkum á lögunum. Því var lofað af þáverandi félagsmálaráðherra að taka á því vegna þess að starfsfólk hans í ráðuneytinu og ráðherrann reyndar sjálfur viðurkenndi að þetta væru ágallar á löggjöfinni sem þyrfti að skoða. En við höfum ekki séð neina leiðréttingu á því þótt þrjú ár séu liðin frá því að við bentum á þetta.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Geta öryrkjarnir átt von á leiðréttingu þannig að tekjur þeirra skerðist ekki eins og ég hef hér lýst? Hefur félagsmálaráðuneytið gefist upp við að leiðrétta þessa ágalla eða telur ráðherra bara allt í lagi að þessir ágallar séu á löggjöfinni?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um hvað hann segir um áhrifin af breyttu viðmiðunartímabili. Hvaða augum lítur hæstv. ráðherra áhrif þessara viðmiðunartímabila á löggjöfina, að tekjur fólks í fæðingarorlofi verði ekki 80% af launum heldur fari þau niður í 70%? Er það eitthvað sem hæstv. ráðherrann væri tilbúinn að skoða þótt það sé ekki nákvæmlega í tengslum við þetta frumvarp? Væri hann t.d. tilbúinn að skoða það að loknu jólaleyfi þingmanna, að við gætum þá farið ofan í þetta? (Gripið fram í: Hvaða jólaleyfi?) Já, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, en ég skal þá bara nefna janúarmánuð. Væri hann tilbúinn að skoða það í janúarmánuði og fara yfir það í rólegheitum hvort sé ekki ástæða til að skoða þær miklu skerðingar sem hafa orðið á fæðingarorlofsgreiðslunum?

Ég held að það sé farið að sýna sig, og væri fróðlegt að koma með fyrirspurn til ráðherrans um það efni, að þegar fæðingarorlofsgreiðslurnar eru skertar þá birtist það fyrst og fremst í því að karlmenn munu síður taka fæðingarorlof, þegar búið er að skerða þær með þessum hætti. Ég býst við að þetta hafi þau áhrif. Mér finnst mikil synd ef búið er að eyðileggja fæðingarorlofslögin með þeim hætti sem ég hef lýst. Ég býst við að þau séu ein af fáum rósum í hnappagat þessarar ríkisstjórnar frá því hún settist að völdum 1995, þ.e. fæðingarorlofslögin. Maður hefði haldið að þeir hefðu ákveðinn metnað til að kroppa ekki í þá löggjöf með þeim hætti að skerða réttindin svo mikið sem raun ber vitni.

Félag einstæðra foreldra hefur líka vakið athygli á því að þeir eiga bara rétt á sex mánaða fæðingarorlofi og margir hafa álitið rétt að skoða aukin réttindi einstæðra foreldra.

Síðan er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort við megum eiga von á framþróun að því er varðar fæðingarorlofslöggjöfina. Þá er ég ekki að tala um leiðréttingu á þeim annmörkum sem hafa komið fram heldur hvort það sé á borði hæstv. ráðherra að skoða leiðir sem við í Samfylkingunni höfum lagt til í þinginu með tillögu þar að lútandi, þ.e. að skoða í samráði við sveitarfélögin hvernig hægt sé að lengja fæðingarorlofið í áföngum, t.d. í 15 mánuði. Á móti mundu sveitarfélögin skoða það að börn gætu fyrr komist á leikskóla. Nú er yfirleitt miðað við 18 mánaða aldur en þá verði miðað við 15 mánaða aldur.

Þetta væri það besta sem hægt væri að gera fyrir ungbarnafjölskyldur í landinu í dag í stað þess að vera að festa í sessi heimagreiðslur sem ýmis sveitarfélög hafa verið að taka upp, sem gætu orðið til þess að seinka framþróun á fæðingarorlofslöggjöfinni og því að sveitarfélögin komi til móts við ungbarnafjölskyldur með því að gefa fyrr rétt á leikskólaplássi.

Ég fer aðeins út fyrir efni þessa frumvarps en þetta snertir jú allt rétt ungbarnafjölskyldna sem hér er um að ræða. Ég held að það sé allt í lagi að taka smátíma á þessu kvöldi til að ræða þetta brýna mál sem snertir stöðu ungbarnafjölskyldna. Ég ítreka hins vegar að ég ætla ekki, við meðferð þessa máls í þinginu, að tefja framgang þess með einum eða öðrum hætti, enda hef ég lagt mig fram um það á umliðnum árum að fá í gegn þá breytingu sem er í frumvarpinu, breytingu sem mun bæta verulega stöðu foreldra fatlaðra barna sem hafa fengið umönnunargreiðslur.

Ég vildi spyrja um eitt í frumvarpinu í lokin, þ.e. varðandi það að flytja framkvæmd fæðingarorlofs til Vinnumálastofnunar. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að sífellt skuli hlaðið auknum verkefnum á Vinnumálastofnun án þess að hún fái tilsvarandi fjármagn til að standa undir þeim verkefnum. Við sjáum að verkefnin hlaðast á hana, t.d. vegna innflytjenda. Nú á að fara að setja á hana verkefni samkvæmt fæðingarorlofslögunum. Ég spyr: Hver er skoðun Tryggingastofnunar ríkisins á þessum flutningi verkefna? Var þetta gert í sátt og samlyndi við Vinnumálastofnun og taldi hún sig fá eðlilegt fjármagn til að standa undir þessu verkefni? Var samhliða þessu tilfærsla á fjármagni frá Tryggingastofnun til Vinnumálastofnunar til að Vinnumálastofnun gæti sinnt verkefninu með eðlilegum hætti?

Þar fyrir utan er ég ekki sannfærð um það og hef ekki séð nein sérstök rök fyrir því að Vinnumálastofnun hafi verkefnið með höndum fremur en Tryggingastofnun ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu lengur en ég hef lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra og vænti þess að fá svör þeim í þessari umræðu.