133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[21:05]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður kemur í ræðustól, þar sem við erum að ræða um réttindamál fyrir foreldra sem fá umönnunarbætur, og skuli eyða tíma sínum, ekki í að ræða umræðuefnið heldur til að ræða RÚV, sem hann er ásakar okkur í stjórnarandstöðunni um að ræða allt of mikið, eins og mér fannst á hv. þingmanni.

Auðvitað ræðum við það mál eins og önnur þar til við teljum að við höfum fengið þau svör við spurningum okkar sem við þurfum að fá. Það eru alltaf að koma upp nýjar og nýjar hliðar á því máli.

Ég hefði heldur kosið, virðulegi forseti, að hv. þingmaður nýtti tíma sinn til að ræða þetta brýna réttlætismál sem við sjáum loksins ná höfn, sem ríkisstjórnin hefur drattast með í mörg ár án þess að leiðrétta það. Þetta er mikið sanngirnismál.

Ég vænti þess líka, af því hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að málin komist ekki öll í gegnum þingið, að hann sé sammála mér um að við ættum að velta því fyrir okkur að setja ráðherrum ákveðin tímamörk, þegar þeir vanvirða löggjafarþingið ítrekað með því að leggja stóra og mikla lagabálka fram hér rétt fyrir þingfrestun.

Það getur vel verið að hv. þingmanni finnist allt í lagi að vera á hraðferð með þau mál sem koma til efnahags- og viðskiptanefndar og við höfum ekki einu sinni tíma til að senda þau til umsagnaraðila. En ég hef þann metnað fyrir hönd þingsins að fjallað sé vel og faglega um málin í nefndum og mun fylgja því áfram. Ég mun halda áfram að kvarta, bæði við stjórnarliða og hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, ef málum er hagað með þeim hætti að við höfum ekki tíma til að fjalla vel og vandlega um þá löggjöf sem sett er á Alþingi og leyft umsagnaraðilum, sem eiga að hafa sitt að segja um málin, að fá að fjalla um þau einnig.