133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[21:33]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Nú rignir yfir okkur góðum málum af ýmsum toga. Ég vona fyrir hönd þeirra sem vilja að þau nái fram að ganga að málþóf í kringum RÚV-málið tefji ekki framgang þeirra. Hins vegar verð ég að benda á að þó að til sé nógur peningur alls staðar í dag og ríkissjóður yfirfullur af peningum og afgangur á hverju ári, sem væntanlega er að einhverju leyti að þakka ríkisstjórninni og hennar starfi í tólf ár sem hefur borið ríkulegan ávöxt fyrir land og þjóð og launþega, þá er ekki náttúrulögmál að svo verði um alla framtíð, að það verði eilífur vöxtur á tekjum ríkissjóðs og endalaust hægt að auka útgjöldin.

Ef vinstri stjórn kæmist til valda, frú forseti, sem mundi sólunda öllum þessum sjóðum á stuttum tíma, eins og oft tekst til, kæmi að því að skera þyrfti niður. Það er oft mjög sársaukafullt. Það mál sem við ræðum er eitt af þeim dæmum sem ég tel og hef fært fyrir rök áður að engin rök séu fyrir, þ.e. að veita þessa styrki. Það fólk sem ættleiðir er eðli málsins samkvæmt búið að bíða eftir því að eignast barn nokkurn tíma, þrjú eða fjögur ár. Ég þekki þetta af vissum ástæðum mjög vel. Það hefur kannski beðið í þrjú, fjögur, fimm ár, jafnvel í tíu ár, og á þeim tíma hefur það fólk búið eitt sér og væntanlega safnað eignum. Það er a.m.k. mín reynsla af þeim sem ég þekki. Það fólk er yfirleitt mjög vel sett fjárhagslega eftir fjögurra, fimm ára eða tíu ára hjúskap, barnlaust. Hafi þau ekki safnað hálfri milljón, sem svarar þessum styrk, eða einni milljón til að ættleiða barn þá setur maður spurningarmerki við hvort þau geti alið barnið upp, hafandi verið barnlaus í fimm til tíu ár. Þar fyrir utan er gleðin af því að ættleiða barn margfalt meiri og hjal um hálfrar milljónar króna styrk er hjákátlegt, frú forseti.

Ég bendi á að hér á að taka upp styrki án tillits til tekna eða eigna. Þar er borið við einföldun, frú forseti. Það mætti aldeilis gera það víðar, t.d. hjá Tryggingastofnun til samræmis, til einföldunar, að vera ekkert að kafa ofan í tekjur og eignir fólks. Það mætti gera það nánast alls staðar í skattkerfinu ef mönnum er svo umhugað um að einfalda stjórnsýsluna og vesenið. Mér finnst undarlegt að veita hálfrar milljónar krónu styrk án þess að vita hvort fólkið á 100 milljónir í eignum eða er með milljón á mánuði í tekjur.

Einu rökin sem ég sé fyrir styrknum eru þau að ættleiðing sparar íslenska ríkinu fæðingar- og meðgöngukostnað. Mæðraeftirlit og fæðingarkostnaður er nokkur og það má færa rök fyrir því að þetta spari þann kostnað. Hann er kannski 300 þús. kr. samanlagt, ég þekki það ekki nákvæmlega. Það væru kannski rök en þau eru dálítið ankannaleg. Það mætti þá líka segja að þeir útlendingar sem flytja til landsins og sækja um íslenskan ríkisborgararétt ættu líka að fá styrk af því að þeir spöruðu ríkinu fæðingarkostnað.

Ég er á móti þessu máli. Ég tel ekki þörf á því, þetta sé ekki fólk sem hafi þörf fyrir styrk og bætur. Gleðin yfir því að eignast barn er miklu meira virði en styrkur frá ríkinu. Þar fyrir utan, frú forseti, gerist það að um leið og svona styrkur er settur upp þá koma kvaðirnar, t.d. að menn þurfi að ættleiða í gengum Íslenska ættleiðingu, sem hefur gert samning við örfá ríki en ekki öll. Ef einhverjum byðist, t.d. í Rússlandi, Póllandi eða annars staðar, að ættleiða barn af einhverjum ástæðum þá gæti hann ekki ættleitt það í gegnum Íslenska ættleiðingu og fengi þar af leiðandi ekki styrk. Ég býst við að það hafi ekki nein áhrif. Ég reikna ekki með að það hafi áhrif á viðkomandi aðila. Hann mun að sjálfsögðu ættleiða barnið hvort sem hann fær styrk eða ekki. Ég get ekki ímyndað mér að þetta skipti neinu máli. Ég skil ekki þessa baráttu hjá fólki, að leita stöðugt til ríkisins um alla mögulega og ómögulega hluti, jafnvel þótt engin þörf sé fyrir það.

Ég er á móti þessu máli og vara við því hve reiðubúnir menn eru til að leita alltaf til ríkisins, þ.e. í vasa samborgara sinna, til þess að borga alls konar hluti sem þeir vilja ná fram sjálfir í einkalífi sínu. Ég vil að menn horfi frekar á sjálfa sig í því sambandi. Ég fullyrði að þá sem ættleiða börn munar yfirleitt ekki um kostnaðinn við ættleiðinguna. Kostnaðurinn er ekki nema hálft bílverð, frú forseti.