133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er satt að segja ekki mjög einfalt verk að kveða upp salómonsdóm um hver kostnaðurinn eigi að vera við gerð vega. Engu að síður þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu verkefni og þakka honum fyrir þau orð sem hann lét hér falla.

Gerð þessa vegar er mjög umfangsmikil og flókin, þ.e. að tvöfalda þessar meginleiðir af höfuðborgarsvæðinu til austurs og vesturs. Það er alveg ljóst að af þessu er mikill kostnaður. Ég hef ekki hér á þessari stundu upplýsingar um frá hverju er greint í þessu bréfi sem hér var nefnt en við höfum upplýsingar um það að kostnaðurinn getur leikið á mjög stóru bili eftir því hvernig að þessu er staðið. Stóri kostnaðarþátturinn þarna sem leiðir til þessara breytilegu upphæða liggur í því hvort við förum í hringtorg eða mislæg gatnamót. Það mun vera svo að yfir 70 gatnamót liggja á Suðurlandsvegi, ef við tökum hann sem dæmi, austur á Selfoss. Þá er spurningin hvort það eigi að vera mislæg gatnamót eða hringtorg við hverja einustu heimkeyrslu að bæjum og þéttbýlissvæðum. Eða á kannski að leggja hliðarvegi? Hv. þingmenn geta rétt ímyndað sér að þarna getur verið mjög breytilegur kostnaður miðað við þá útfærslu sem valin verður.

Nú verður farið í það af hálfu Vegagerðarinnar að greina færar leiðir og velja aðferð og þá mun kostnaðurinn koma í ljós. (Forseti hringir.) Ég held að menn ættu ekki að gera mjög mikið úr því að þarna kunni að vera misvísandi upplýsingar. Aðalatriðið er að við vitum hvert verkefnið á að verða.