133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:38]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var býsna sérkennilegt svar hjá hæstv. ráðherra. Þann 9. mars árið 2005, fyrir ári síðan, svaraði hæstv. samgönguráðherra nákvæmlega þessari spurningu í svari til mín á hinu háa Alþingi. Þá sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Samtals má því áætla að kostnaður við Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi gæti orðið á bilinu 6–7 milljarðar kr.“

Þessu svaraði hæstv. samgönguráðherra ákaflega skýrt hér fyrir rétt rúmu ári. Þess vegna er svarleysa hans eða útúrsnúningar hér áðan ákaflega sérkennileg. Enn þá sérkennilegri er þó aðkoman hjá vegamálastjóra að málinu og hún kallar á skýringar. Hann er undirmaður hæstv. samgönguráðherra. 5 milljörðum kr. skeikar frá svari hæstv. samgönguráðherra að þeim 12 milljörðum sem vegamálastjóri segir að framkvæmdin kosti nú. Hér segir einnig að 2+1 vegur kosti 2 milljarða. Vegamálastjóri fullyrðir nú að sú framkvæmd kosti margfalt meira en það, 5–6 milljarða. Auðvitað verður hæstv. samgönguráðherra að svara því hér og taka af öll tvímæli um það hvort er rétt. Auðvitað skiptir öllu máli hvort framkvæmdin, tvöföldun Suðurlandsvegar frá Reykjavík til Selfoss, kosti 7 milljarða eða 12 milljarða.

Það skiptir öllu máli og þess vegna verður ráðherra í síðara svari sínu í dag að taka af öll tvímæli. Annars lítur hitt út eins og rangfærslur í besta falli eða blekkingar í versta falli, að afvegaleiða umræðuna með þeim hætti að framkvæmd sem kosti 7 milljarða, segir í þingskjali frá hæstv. samgönguráðherra í svari fyrir ári, yfir það að í fréttum fjölmiðla er það margítrekað af hálfu vegamálastjóra að framkvæmdin kosti 12 milljarða. Þetta kallar á að hæstv. samgönguráðherra taki af öll tvímæli um það af því að það á að ráðast í tafarlausa tvöföldun á Suðurlandsvegi. Um það er þverpólitísk samstaða á svæðinu.