133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:40]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að ræða annað mál undir liðnum um störf þingsins. Í gær var lokaafgreiðsla fjárlaga, og þar felldi hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarmeirihlutinn allar tillögur okkar í stjórnarandstöðunni til úrbóta fyrir lífeyrisþega. Þá virðist hafa gripið ríkisstjórnina einhver örvænting eða fát og blásið var til blaðamannafundar þar sem hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra lýsa yfir að þeir séu tilbúnir að bæta að einhverju leyti kjör lífeyrisþega.

Fram kemur á vef heilbrigðisráðuneytisins að lögð séu til þrjú atriði. Eitt er að menn geti dreift séreignarlífeyrissparnaði þannig að hann skerðist ekki allur í einu en ég minni á að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti því yfir að þann lífeyrissparnað ætti alls ekki að skerða. Tillaga kæmi um það. Síðan er lögð til öryrkjareglan, líka fyrir aldraða virðist mér vera, skerðingarreglan, og síðan er enn verið að kynna 25 þús. kr. frítekjumarkið.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hér: Hvað er falið í þessu? Hér segir að þetta kosti 275 millj. Við afgreiddum fjárlögin aðeins fyrr um morguninn. Ég fagna öllum hænuskrefum sem ríkisstjórnin tekur til að bæta kjör lífeyrisþega en ég vil gjarnan fá skýringu frá þessum hæstv. ráðherrum: Í hverju felast þessi bættu kjör til lífeyrisþega sem þeir kynntu eftir hádegið í gær? Og hvað eiga þessi hænuskref að kosta? Það er mjög óljóst í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu í hverju breytingarnar felist og hvað þær muni allar kosta.