133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:45]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka upp málefni Suðurlandsvegar á hv. Alþingi. Það er mikil samstaða í Suðurkjördæmi, á Suðurlandi öllu, ekki bara meðal íbúanna, heldur er líka þverpólitísk samstaða þingmanna um að það verði hætt við undirbúning á 2+1 vegi á Suðurlandi og þegar í stað hafinn undirbúningur á tvöföldun á Suðurlandsvegi.

Það er, eins og ég sagði, krafa Sunnlendinga. Það er krafa okkur þingmanna Suðurkjördæmis að öryggi verði haft í öndvegi. Við þekkjum hvernig það breyttist við tvöföldun á Reykjanesbrautinni. Við viljum fara þá sömu leið og þar var farin og ég brýni hæstv. samgönguráðherra til að fara þessa leið.