133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:45]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Varðandi spurningar hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur er því til að svara að kostnaðurinn á næsta ári, þ.e. 2007, sem þau fjárlög gilda um sem við samþykktum í gær er um hálfur milljarður af þeim þáttum sem til umræðu voru á blaðamannafundinum í gær. Gert er ráð fyrir þessum kostnaði í fjárlögunum. Annars vegar var bætt við, sérstaklega vegna frítekjumarksins, og síðan er einfaldlega svigrúm fyrir aðra þá þætti í þeim fjárveitingum sem Tryggingastofnunin hefur.

Síðan má gera ráð fyrir því að á árinu 2008 muni kostnaðurinn vegna þessara þátta verða rúmur milljarður. Við eigum eftir að fara yfir hvernig það verður í tengslum við fjárlög ársins 2008 en ég held að í þeirri langtímaáætlun sem við höfum verið að vinna með muni það rúmast ágætlega líka.

Síðan aðeins örlítið varðandi Suðurlandsveginn og kostnaðinn við hann. Það hljóta að vera orð samgönguráðherrans sem við tökum gild hér á Alþingi og miðum við en ekki hvað einhverjir aðrir aðilar segja úti í bæ, jafnvel þótt það séu hinir mætustu embættismenn. Orð ráðherrans gilda. (Gripið fram í.)