133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ekki hátt risið á því að samgönguráðherra, ríkisstjórn og stjórnarþingmenn sem skorið hafa samgönguáætlun niður um hartnær 6 milljarða á þessu kjörtímabili kenni vegamálastjóra um, láti eins og að vegamálastjóri og Vegagerðin séu vandamálið við það að ekki sé búið að gera meira í vegamálum, hvort sem það er á Suðurlandsvegi eða annars staðar.

Vegagerðin og vegamálastjóri eru ekki blórabögglar hér. Það væri nær að samgönguráðherra verði undirmenn sína en að vega að þeim úr launsátri eins og hann hefur gert. (Gripið fram í.) Hefur Vegagerðin gert nokkuð annað en að vinna samkvæmt pólitískum ákvörðunum Alþingis og samþykktum samgönguáætlunum? Ég spyr. Nei.

Ef Alþingi tekur nýja ákvörðun um t.d. það að fara í tvöföldun Suðurlandsvegar mun Vegagerðin vinna vel og samviskusamlega að því að undirbúa það eins og hún hefur jafnan gert, að vinna samkvæmt samþykktum áætlunum, fjárveitingum sem til staðar eru og bestu faglegri vitneskju hverju sinni. Ég veit ekki annað en að Vegagerðin hafi með fullu samþykki samgönguráðherra og Alþingis unnið þá undirbúningsvinnu sem hún hefur gert einnig í þessu tilviki.

Menn segja að það sé þverpólitísk samstaða um að tvöfalda Suðurlandsveg um Hellisheiði. Gott og vel. Það stendur ekki á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í því. Ég spyr samt: Er ekki þverpólitísk samstaða um að tvöfalda Vesturlandsveg upp að Hvalfjarðargöngum? Er ekki þverpólitísk samstaða um að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum, stórhættulegum slysagildrum? Er ekki þverpólitísk samstaða um að taka úr sambandi stórhættulegan veg um Óshlíð og leggja þar jarðgöng o.s.frv.? Hvað snýst þetta þá um, hv. þingmenn? Um fjármuni og forgangsröðun, um að menn standi í lappirnar og ræði málefnalega og uppbyggilega um þessi mál en falli ekki í lágkúru og popúlisma. Allra síst á það við á viðkvæmum tímum eins og við höfum gengið í gegnum að undanförnu (Forseti hringir.) varðandi þetta slys. Við, góðir þingmenn, skulum ekki venja okkur á að fjalla svona um málið.