133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

ummæli þingmanns um samgönguráðherra og Vegagerðina.

[11:03]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd við það að sem formaður samgöngunefndar hefði ég reiknað með því að virðulegi forseti tæki tillit til óska minna um að fá að taka til máls áðan meðan málið var heitt. Það er það að vísu enn. Aðeins þá að öðru.

Allar umferðarspár hafa farið forgörðum. Í fyrsta lagi Hvalfjarðargöngin, þar sprungu allar umferðarspár, Vesturlandsvegurinn vegna Hvalfjarðarganganna, Suðurlandsvegurinn vegna íbúafjölgunar og sumarbústaða Sunnlendinga.

Við skulum ekkert draga þetta á langinn. Það liggur ljóst fyrir að það verður að fara við fyrstu hentugleika, á næsta ári verður það að vera klárt, í tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Það er alveg ljóst, það vita allir að umferðaræðar út úr höfuðborginni eru löngu sprungnar. Því miður erum við nokkuð eftir á með að klára tvöföldun Reykjanesbrautar frá Breiðholti og að Hafnarfjarðarvegi, það hefði átt að vera löngu búið. Málið er svona skýrt, og ágætu þingmenn og þeir sem fylgjast með umræðum í þingsal: Það er alveg ljóst að þessir tveir vegir verða tvöfaldaðir og það innan ekki langs tíma.