133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

ummæli þingmanns um samgönguráðherra og Vegagerðina.

[11:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég tel að hæstv. forseti eigi að grípa miklu ákveðnar inn í málið og málsmeðferðina, þ.e. samgöngumálin. Við hefðum átt að hafa vegáætlun til að ræða og þetta mál út frá henni. Ég spyr hæstv. forseta hvað forseti hyggist gera í því að kalla vegáætlun inn í þingið þannig að hægt sé að halda uppi vitrænni umræðu um forgangsröðun og verkefni í vegamálum.

Það eina sem við stöndum frammi fyrir eru niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar í vegamálum, það er búið að skera niður á 3–4 ára tímabili eina 6 milljarða kr., fresta vegaframkvæmdum í sumar og skera aftur niður vegaframkvæmdir á næsta ári samkvæmt fjárlögunum. Ég spyr forseta hvort forseti hyggist beita sér fyrir því að vegáætlun fyrir næstu þrjú ár komi inn í þingið fyrir jól. Það væri myndugleiki af forseta að kalla eftir henni og skikka hæstv. samgönguráðherra til að koma með vegáætlun inn í þingið þannig að við getum rætt hana hér, ekki síst í ljósi þessarar heitu og öflugu umræðu sem er um samgöngumál og kröfu alls staðar í samfélaginu um auknar aðgerðir í samgöngumálum.

Þá krefst ég þess að forseti beiti sér fyrir því að vegáætlun komi inn í þingið.