133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

ummæli þingmanns um samgönguráðherra og Vegagerðina.

[11:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég veit að ráðherrar njóta stundum forréttinda og fríðinda í þessum sal en mér finnst ekki rétt af hæstv. forseta að hleypa átölulaust hæstv. samgönguráðherra upp í stólinn undir því yfirskini að hann sé að verja sig og svo eys hann úr sér skömmum og fúkyrðum yfir aðra hv. þingmenn eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Hann nefndi það ekki að það var hv. þm. Hjálmar Árnason sem kom hingað upp og bar brigður á tölur þess embættismanns sem hæstv. ráðherra þóttist vera að verja.

Málið er auðvitað það að hv. þm. Hjálmar Árnason kom hingað til að lýsa vantrausti sínu á framferði og háttsemi hæstv. samgönguráðherra. Auðvitað hlýtur það að svíða á holdi hæstv. ráðherra þegar formaður þingflokks hins stjórnarflokksins lætur ólarnar ríða á hrygglengju hæstv. ráðherra. Það er allt í lagi að hann kveinki sér undan því opinberlega en hæstv. forseti getur ekki leyft honum að koma hingað undir því yfirskini að hann beri af sér sakir þegar hann eys sökum og fúkyrðum yfir aðra þingmenn. Það finnst mér ekki hægt, frú forseti.

(Forseti (SP): Forseti tekur ekki undir þessar ásakanir og ávirðingar hv. þingmanns og telur að þær megi þá nota um ræður fleiri hv. þingmanna undir þessum lið um fundarstjórn forseta. Forseti telur að nú sé nóg talað í þessu máli.)