133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:27]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í álit Samkeppniseftirlitsins um þetta frumvarp. Í álitinu kemur fram sú eindregna afstaða stofnunarinnar að Ríkisútvarpið muni geta nýtt ríkisaðstoðina til að framleiða eða kaupa vinsælt dagskrárefni og síðan segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Af þessu leiðir óhjákvæmilega að umrædd samkeppni starfsemi RÚV á sviði auglýsinga verður niðurgreidd með þeirri ríkisaðstoð sem félagið mun njóta.“ — Niðurstaða þessarar einnar merkustu eftirlitsstofnana íslenska ríkisins er sú að þetta muni hafa í för með sér samkeppnislega mismunun.

Nú ætla ég að spara hv. þingmanni að hæða hann og spotta með fyrri orðum hans um nauðsyn frjálsrar samkeppni en það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að orð Samkeppniseftirlits er ekki hægt að túlka með öðrum hætti en þeim að ef að frumvarpið verður samþykkt og gert að lögum hafi það í för með sér samkeppnislega mismunun. Þetta liggur fyrir af hálfu stofnunarinnar. Hún leggur jafnframt til tvær leiðir og segir síðan að hún muni bíða með aðgerðir þangað til ljóst verði hvor leiðin verði farin. En það á hvoruga leiðina að fara sem rætt er um í þessu áliti.

Þá blasir alveg við að það er ljóst að á grundvelli þessa álits hafa samkeppnisaðilar ráðrúm og fótfestu til að höfða mál og það verður örugglega gert. Það verður sömuleiðis málarekstur erlendis.

Hér er sköpuð mikil óvissa með afgreiðslu málsins á þessum grunni og ég spyr hv. þingmann: Er hann ekki hræddur við það að hann steypi hér málinu öllu í gríðarlega réttaróvissu sem mun draga slóða langt fram eftir (Forseti hringir.) árum?