133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:37]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tillögu sem kynnt var á blaðamannafundi í morgun leggur Samfylkingin til að fjármögnun Ríkisútvarpsins verði blönduð. Annars vegar með ríkisframlagi og hins vegar með auglýsingatekjum sem lækki og verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum, sem er veruleg lækkum frá því sem nú er. Þetta er hin pólitíska nálgun á málinu.

Varðandi frumvarpið í núverandi mynd, án nokkurra eiginlegra takmarkana á umfangi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, með banni við sölu á vefnum, ekki frekari kostunar o.s.frv., þá skiptir þetta engu máli í þeirri stöðu sem er í dag af því að þeir sem reka frjálsa ljósvakafjölmiðla í landinu túlka þetta frumvarp sem aðför að rekstri frjálsrar ljósvakafjölmiðlunar í landinu.

Hér er um að ræða ríkisvæðingu á ljósvakamiðlun á Íslandi. Það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en að þetta komi verulega niður á einkareknu ljósvakamiðlunum sem berjast í bökkum, og hafa alltaf gert á Íslandi af því þetta er örlítill markaður. Þess vegna er yfirburðastaða ríkisins á fjölmiðlamarkaðnum alveg sérstaklega viðkvæmt mál. Mikið viðkvæmara mál en í Bretlandi þar sem BBC er vissulega fjölmiðlarisi en á risastórum markaði.

Hér er verið að auka verulega samkeppnisforskot ríkisins á fjölmiðlamarkaði og á ljósvakamarkaði. Það sem ég skil ekki er hvernig hv. formaður menntamálanefndar finnur pólitíska réttlætingu fyrir þessu máli. Tekur hann ekki undir það, eins og hann hefur gert áður, að það þurfi að takmarka verulega umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, mikið meira en þetta frumvarp leggur til? Því hér er ekki verið að takmarka umfangið. Það er verið að halda í horfinu.

Í andsvörum við mig fyrr í haust, við 1. umr. um málið, hefur hv. þingmaður sagt að það eigi að takmarka umsvif útvarpsins til að gæta sanngirni gagnvart frjálsri fjölmiðlun í landinu. Tekur þingmaðurinn ekki undir það nú?