133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:39]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér var því miður ekki boðið á þennan merka blaðamannafund Samfylkingarinnar sem haldinn var í morgun þar sem kynntar voru nýjar leiðir varðandi fjármögnun Ríkisútvarpsins og þekki þar af leiðandi ekki þær leiðir sem hv. þingmaður talaði hér fyrir. En ég geri ráð fyrir að þær verði kynntar nánar í umræðum um málið í dag.

Hv. þingmaður spyr um takmörkun á umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég verð að benda hv. þingmanni á það, þegar hann segir að hér sé einungis verið að halda í horfinu en ekki verið að leggja neinar takmarkanir til, að ef hv. þingmaður les frumvarpið eins og það er þegar það er lagt fram þá er beinlínis gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið ohf., hið nýja félag, hafi ótakmarkaðar heimildir til að afla sér kostunartekna vegna einstakra dagskrárliða. Það eru ekki lagðar neinar hömlur á Ríkisútvarpið ohf. hvað það varðar.

Að sama skapi gerir frumvarpið beinlínis ráð fyrir framsókn Ríkisútvarpsins ohf. á veraldarvefnum. Með því að leggja til þessar breytingar er meiri hlutinn að koma í veg fyrir frekari útrás Ríkisútvarpsins á kostunarmarkaði og á veraldarvefnum. Það má vel vera að hv. þingmaður telji að þetta skipti engu máli. En ég tel að þetta skipti verulegu máli fyrir einkaaðila.

En það hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru skiptar skoðanir um hversu langt eigi í að ganga í að takmarka auglýsingar Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég hef sjálfur sagt það, bæði opinberlega og hér í ræðustól, að ég væri fyrir mína parta alveg tilbúinn til þess að ganga lengra. En þetta er niðurstaðan. Hún liggur fyrir. Hún er lögð til.