133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:46]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég er hér kominn til að mæla fyrir áliti minni hluta menntamálanefndar á frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið ohf. Það er með svolítið sérkennilegum tilfinningum að maður gerir það því að þessi 2. umr. um málið er svona í lausu lofti. Búið er að ákveða það, held ég allir viti nema formaður Framsóknarflokksins, með samkomulagi sem hér var gert í gær að þetta mál á ekki að afgreiða á þessu ári og þar með ekki á þessu haustþingi. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar um annað varð þetta niðurstaðan og þegar er ljóst að menntamálanefnd þarf að koma saman aftur milli 2. og 3. umr., ef ekki í 2. umr., til að breyta málinu af þeim sökum. Það þarf að breyta í því dagsetningum og kannski einhverju fleiru um gildistíma og röð atburða. Það svona dregur þungann úr þessari 2. umr. sem oft er nú meginumræða um mál og eykur líkur á að meginumræðan um þetta mál verði ekki 2. umr. heldur 3. umr. ef að henni kemur, sem vekur upp minningar um vormánuðina þegar við stóðum hér líka og tókum þátt í 2. umr. um frumvarp sem þá lá fyrir svipaðs eðlis og hét því sama nema þá var ekki o í skammstöfuninni. Þá reyndar lauk 2. umr. og málið fór aftur til menntamálanefndar, sem er óvenjulegt, en var fullkomlega þarft á þeim tíma. Þriðja umræða var hafin en þingi var slitið í miðri þeirri umræðu og málið sem sé dó út af í þeim þingslitum.

Reyndar var það líka svona á næstsíðasta þingi, að það mál sem menntamálaráðherra flutti þá og hét Ríkisútvarpið sf. — því að það er sífelldur menúett í kringum skammstöfun á þessu fyrirbæri — hlaut sömu örlög, ég held þó að það frumvarp hafi aldrei komist í 3. umr. Það var kannski af öðrum ástæðum en í fyrra, sennilega af þeim ástæðum að í miðju kafi uppgötvaðist að frumvarpið var ekki í samræmi við réttarreglur sem við höfum undirgengist í Evrópusamstarfi okkar og raunar er það svo a.m.k. fyrir þá menn sem einkum skilja hlutina andlegum skilningi, að það er eins og einhver skuggi hvíli yfir þessu máli öllu, einhver hálfgerð ógæfa. Það er borið fram plagg og síðan er sífellt verið að sauma á það bætur en það nær aldrei utan um það sem það átti að hæfa og fer einhvern veginn alltaf sömu leiðina. Og nú hefur það gerst sem sé enn einu sinni að ekki er hægt að ljúka málinu.

Í vor þegar þingi var slitið í miðri 3. umr. um frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið hf. gafst til þess heilt sumarhlé að fara yfir málið, fjórir mánuði, júní, júlí, ágúst og september. Þann tíma hefði verið hægt að nota til að setjast niður með fulltrúum allra flokka og fulltrúum þeirra hagsmuna- og áhugaaðila manna, hópa og fyrirtækja sem láta sig málið varða sérstaklega og reyna að ná, eigum við að kalla það lendingu í þessu, ná einhvers konar málamiðlun eða sáttum um málið. Það var ekki reynt, því miður, og þegar málið kom fram í haust var strax augljóst að það væri að því leytinu engu skárra en hið fyrra frumvarp, um það næðust ekki þær sættir sem dygðu og frumvarpið mundi lenda í mótbyr á þinginu — nú sé ég að hæstv. menntamálaráðherra er komin á eintal með hæstv. formanni Framsóknarflokksins, sem ég minntist hér á áðan. Kannski er það um þetta nákvæmlega sem ég er að tala. — Þess vegna fagna ég í raun þeim málalyktum í gærkvöldi, þeim samningi eða því samkomulagi sem gert var, ekki vegna þess að ég treysti mér ekki til að standa hér í umræðum um málið, 2. og 3. umr. fram eftir desembermánuði og allt til jóla þess vegna eða vinna mína vinnu hér á þinginu alveg eins í desember og í janúar, ég treysti öllum þingmönnum til þess, heldur vegna þess að okkur gefst með þessu enn eitt hléið, enn eitt ráðrúmið til að setjast yfir málið og ná saman um mál sem er einstakt að því leyti að á ferðinni er áhugaefni og raunar sameign, tilfinningaleg og raunveruleg sameign allrar þjóðarinnar.

Þess vegna gegnir öðru, forseti, um þetta efni en önnur, þau venjulegu pólitísku átakaefni sem að lokum verða ekki afgreidd, það skilja allir í stjórn og stjórnarandstöðu, nema með afli atkvæða á þinginu og síðan afli atkvæða í kosningunum. Það gegnir öðru um þetta vegna þess að það er skylda okkar að reyna sem við framast megum að ná um þetta samkomulagi, eins víðtækri sátt og hægt er innan þingsins og í samfélaginu, á fjölmiðlavettvanginum, meðal áhugamanna með ráðum fræðimanna og styrk starfsmanna á þeim fjölmiðli sem hér um ræðir og öðrum einnig, ná um málið eins góðu samkomulagi og hægt er vegna þess að það er mikilvægt fyrir ekki bara fjölmiðlana, ekki bara þjónustuna við almenning, heldur fyrir þjóðina sjálfa, fyrir okkur sem búum á landinu að við höfum sameiginlega viðmiðun í því sem við erum að gera í menningu okkar á 21. öld.

Því er rétt að vekja athygli á að í morgun á blaðamannafundi sem Samfylkingin hélt í þingflokksherberginu kom m.a. og ekki síst það tilboð frá formanni flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hér ber að ræða um sem hv. þingmann, að þetta hlé yrði notað, það sem nú gefst eftir að 2. umr. lýkur eða þessu haustþingi verður frestað og fram á nýja árið, til þess að settur verði niður hópur fulltrúa úr öllum flokkum sem setjist yfir málið, þess vegna bara núna í byrjun næstu viku, og freisti þess fram á nýtt ár að finna samkomulagsflöt í málinu. Ég skal ekkert segja um hverjir möguleikar eru á að hann náist, en ég held að ef hægt er að losa úr málinu kergju sem í það er hlaupin og einhvern ofmetnað af hálfu ákveðinna stjórnarliða eða ákveðinna liðsmanna í stjórnarmeirihlutanum sé það mögulegt. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst skoðunum sínum á því hvernig ríkisútvarp þeir vilja og ef eitthvað er að marka yfirlýsingar stjórnarliða um almannaútvarp og lýsingu þeirra, a.m.k. að hluta til, hvernig það á að vera, þá á að vera hægt að ná saman um einhverja málamiðlun, einhverja sáttaleið. Ég verð hins vegar að segja strax að mestu erfiðleikarnir í því máli eru auðvitað annars vegar það form sem menntamálaráðherra hefur valið í þriðja sinn þessu fyrirtæki sem verða á annars vegar og hins vegar þeir stjórnarhættir sem byggðir hafa verið inn í frumvarpið allt frá byrjun og ég tel raunar sennilegustu skýringuna á. Það er sennilegasta skýringin á tilurð þessa frumvarps, eða ein af skýringunum á tilurð þess sé að þetta tvennt tengist.

Þetta tel ég að við eigum að reyna og ítreka því þessa tillögu Samfylkingarinnar, þetta tilboð formanns Samfylkingarinnar frá í morgun hér úr stólnum.

Forseti. Ég er kominn hér til að mæla fyrir áliti minni hluta menntamálanefndar sem við fjögur skrifum undir, ég og síðan hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson, báðir úr Samfylkingu, og Kolbrún Halldórsdóttir úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, en Magnús Þór Hafsteinsson, sem er áheyrnarfulltrúi Frjálslynda flokksins, sat fundi nefndarinnar og á samleið með okkur í þessu efni. Stjórnarandstaðan öll stendur því á bak við þetta álit. Ég ætla að hefja ræðu mína á því að lesa það í gegn, svo sem venja er.

Fyrst er fjallað um meginatriði máls á eftirfarandi hátt:

Með frumvarpi því sem hér um ræðir er ekki skapaður sá starfsrammi sem Ríkisútvarpinu hæfir til frambúðar og þar með ekki sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu er nauðsynlegur. Líklegt er að samþykkt frumvarpsins leiði til enn ákafari deilna en áður um stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlavettvangi og jafnvel til málaferla heima og erlendis. Með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag væri stigið varhugavert skref sem í sambærilegum tilvikum hefur langoftast leitt til sölu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Stjórnarhættir þeir sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu opna leið til áframhaldandi pólitískra ítaka og inngripa. Réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins eru samkvæmt frumvarpinu í uppnámi. Ekki er sennilegt að nefskatturinn sem ætlunin er að taka upp í stað útvarpsgjaldsins efli samstöðu meðal almennings um málefni Ríkisútvarpsins, einkum ef dagskrárframboð þess dregur áfram dám af kröfum auglýsenda og kostenda á svipaðan hátt og hjá markaðsstöðvunum.

Hér er kannski rétt að skjóta því inn — ég ætla að fjalla betur um auglýsingar og kostun á eftir — að auðvitað er munur á markaðsstöðvunum að því leyti að sumar þeirra eru hreinar auglýsingastöðvar sem byggja tekjur sínar eingöngu eða nánast eingöngu á auglýsingum og kostun en aðrar eru áskriftarstöðvar sem vissulega eru byggðar upp öðruvísi að þessu leyti, en áskriftarstöðvarnar hafa yfirleitt vænan hluta af sínum tekjum af auglýsingum og kostun. Má nefna Skjá einn sem dæmi um auglýsingastöð og Stöð 2 sem dæmi um áskriftarstöð en fyrirtækið sem rekur Stöð 2 er hins vegar bæði með áskriftarstöðvar og auglýsingastöðvar, samanber t.d. stöðina Sirkus sem er að ég held eingöngu auglýsingastöð.

Næsti kafli í nefndarálitinu heitir Vinnubrögð:

Frá því stjórnarflokkarnir settu sér að breyta einhliða lögunum um Ríkisútvarpið hafa vinnubrögð þeirra verið á eina lund. Frumvarpstextar hafa verið undirbúnir með leynd hjá sérstökum trúnaðarmönnum flokkanna og upplýsingum haldið markvisst frá almenningi, fjölmiðlum, starfsmönnum Ríkisútvarpsins og þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Í stað þess að efna til samstarfs allra flokka á þingi um endurnýjað Ríkisútvarp og reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um framtíðarskipan þess hafa forustumenn stjórnarflokkanna sammælst um tillögur sem einkennast annars vegar af kreddu og hins vegar hrossakaupum, án þess að vart verði sameiginlegrar grundvallarstefnu um hlutverk Ríkisútvarpsins og stöðu þess á fjölmiðlavettvangi.

Minni hluti menntamálanefndar telur málið enn vanreifað og greiddi atkvæði gegn því að það yrði afgreitt frá nefndinni. Fjölmörg álitamál eru enn óafgreidd. Þar skal í fyrsta lagi nefnt að svo mikið lá á að afgreiða málið að formaður nefndarinnar féllst ekki á að bíða eftir umbeðnum gögnum frá svokallaðri matsnefnd vegna stofnefnahagsreiknings, en þau gögn eru m.a. nauðsynleg til að meta rekstraráætlun sem fyrir liggur og gera sér grein fyrir gildi þjónustusamningsdraga sem frumvarpinu fylgja. Þessi gögn bárust ekki fyrr en mánudaginn 4. desember þegar þetta nefndarálit var í smíðum. Í öðru lagi var hafnað beiðni um að fá álit fjölmiðladeildar Evrópuráðsins á frumvarpinu með tilliti til tilmæla ráðsins um málefni almannaútvarps frá 1994 og 1996. Þetta er í þriðja sinn á þremur þingum sem formaður menntamálanefndar hafnar slíkri beiðni, þótt vafi leiki á um að stjórnskipan RÚV ohf., áður hf. og þar áður sf. í fyrri frumvörpum, standist kröfur í tilmælunum um sjálfstæði almannaþjónustu á þessu sviði. Í þriðja lagi er vert að nefna að nefndin fékk ekki tækifæri til að kanna álitamál sem ítrekað hafa komið upp um það hvort rekstur Ríkisútvarpsins í hlutafélagsformi stenst samkeppnislög, jafnvel stjórnarskrá, þar sem ríkisstyrkur er nýttur til samkeppnisrekstrar, m.a. á auglýsinga- og kostunarmarkaði, en skilgreiningar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins eru óljósar. Á þetta er bent í ýmsum umsögnum nú og á fyrri þingum, en hér ber að benda sérstaklega á umsögn Samkeppniseftirlitsins þar sem frumvarpið óbreytt er talið valda samkeppnislegri mismunun.

Breytingar á frumvarpinu er næsta fyrirsögn í nefndarálitinu:

Það stjórnarfrumvarp um Ríkisútvarpið sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er í flestum greinum hið sama og menntamálaráðherra lagði fram á síðasta þingi og hinu næstsíðasta. Frumvarpið nú er að einu atriði undanteknu óbreytt frá sköpulagi frumvarpsins í fyrra, að meðtöldum breytingartillögum meiri hluta menntamálanefndar fyrir 3. umr. þá, og vísast því í megindráttum til nefndarálita minni hluta menntamálanefndar á síðasta þingi um þetta mál.

Sú breyting sem áður var rædd felst í því að nú hyggjast stjórnarflokkarnir gera Ríkisútvarpið að „opinberu hlutafélagi“ (ohf.) en á fyrra þingi að hlutafélagi (hf.) og á þinginu þar áður að sameignarfélagi (sf.).

Þá hefur meiri hluti menntamálanefndar nú lagt til að ekki verði auglýsingar á vefsetri Ríkisútvarpsins frekar en verið hefur að undanförnu og vill binda í lög að hlutfall kostunartekna af auglýsingatekjum aukist ekki frá því sem nú er — eða réttara sagt frá því sem verður niðurstaðan á árinu 2006 þannig að rétt sé og nákvæmlega farið með.

Enn fremur hafa verið birt drög að þjónustusamningi sem menntamálaráðherra hyggst gera við útvarpsstjóra. Einnig hafa verið áætluð útgjöld vegna slíks samnings fyrir næstu tíu ár og samdar tölur um hagræðingu í rekstri á þessum tíma. Er þetta hvort tveggja hluti rekstraráætlunar sem fylgir Skýrslu matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings, eins og hún heitir, frá 28. nóvember 2006. Það er stutt síðan hún varð til og var þá lögð fyrir okkur mjög á síðasta sprettinum í umfjöllun menntamálanefndar um frumvarpið og eins og ég lýsti áðan reyndist ekki tími til fyrir einurð, skulum við kalla það, formanns menntamálanefndar til að fara almennilega yfir þá skýrslu og fá þau gögn afhent sem þyrfti til að meta hana eins og hæfilegt hefði verið.

Breytingin úr „hf.“ í „ohf.“ skiptir sáralitlu máli fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins þar sem áður hafði verið fallist á að upplýsingalög giltu um nýja fyrirtækið. Hvað Ríkisútvarpið varðar felst breytingin einkum í því — frá áætluninni um hf-formið — að þingmönnum og blaðamönnum er eða verður heimilt að sitja aðalfund þann sem menntamálaráðherra heldur ár hvert, samkvæmt frumvarpinu, með útvarpsstjóra og útvarpsstjórn eða hinu nýja útvarpsráði, og er hinum fyrrnefndu, þ.e. þingmönnum, heimilt að leggja þar fram skriflegar fyrirspurnir. Þetta gildir þó ekki um hluthafafundi.

Breytingartillögur meiri hlutans um auglýsingar og kostun eru nýmæli í sögu Ríkisútvarpsfrumvarpa á þessu kjörtímabili, þótt allt frá upphafi hafi verið rætt mjög um þessa tekjuþætti. Þessum tillögum mun ætlað að koma til móts við þá gagnrýni að Ríkisútvarpið kunni sem ríkisstyrkt hlutafélag á samkeppnismarkaði að verða skeinuhætt starfsemi markaðsstöðvanna. Til þess eru tillögurnar þó nánast gagnslausar þar sem heildartekjum Ríkisútvarpsins eru ekki sett takmörk á nokkurn veg heldur einungis kveðið á um að kostunartekjur séu ákveðið hlutfall af auglýsingatekjum eins og áður sagði. Kostun af ákveðnu tagi hefur oft sætt gagnrýni sem tekjuöflunarleið fyrir Ríkisútvarpið, og raunar hjá fleiri miðlum, og vera má að tillögunum sé ætlað að koma í veg fyrir of mikla kostun í Ríkisútvarpinu. Sé svo eru tillögurnar klaufalegar þar sem allar gerðir kostunar eru þar settar undir sama hatt. Draga verður í efa að hér sé betur af stað farið en heima setið.

Áðurnefnd drög að þjónustusamningi voru kynnt í september á hátíðlegum blaðamannafundi í útvarpshúsinu við Efstaleiti og var það þá sögð forsenda samningsgerðarinnar að Alþingi samþykkti væntanlegt frumvarp ráðherrans, það sem við fjöllum nú um. Þetta er misskilningur. Þjónustusamning af þessu tagi er hægt að gera við Ríkisútvarpið í núverandi lagaramma, og meginbreytingar í frumvarpinu, háeffunin og stjórnarkerfið, skipta efnisatriði þjónustusamningsdraganna engu máli. Drögin eru því fyrst og fremst samin til að sýna hvernig útvarpsstjóri og menntamálaráðherra hugsa sér framhaldið næstu árin. Í drögunum er kveðið á um skyldur Ríkisútvarpsins en ekkert getið um framlag menntamálaráðherra og skrifstofu hans, ráðuneytisins. Það sem hæst hefur borið af innihaldi draganna eru ákvæði þeirra um aukið innlent efni á kjörtíma, nefnilega frá kl. 19 til 23, og meiri kaup efnis af sjálfstæðum framleiðendum. Hvort tveggja telur minni hlutinn jákvæð markmið, en bendir á að ekki fylgja samningsdrögunum skýringar á þessum hugtökum, sem hafa verið nokkuð á reiki undanfarin ár af hálfu Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytis. Ríkisútvarpið hefur hins vegar lagt fram tölur um „kostnað við þjónustusamning“, eins og það er kallað, í samráði einhvers konar við menntamálaráðuneytið. Þar kemur í ljós að „aukið dagskrárefni“ nemur 400 millj. kr. árið 2011 þegar hámarki er náð frá næsta ári. Útvarpsstjóri útskýrði á fundi nefndarinnar að reiknað væri með því að hér væri á ferðinni um það bil klukkutímaaukningu innlends sjónvarpsefnis á dag innan kjörtímamarkanna, og því merkti talan fyrir „aukið dagskrárefni“ að í grófum dráttum mundi hver klukkutími kosta rúma milljón króna í framleiðslu. Fyrir þá upphæð fæst ekki sérlega metnaðarmikið sýningarefni, ef ekki á meira fé að koma til. Það eykur áhyggjur af þessari stefnumörkun í þjónustusamningsdrögunum að samkvæmt töflu um „kostnað við þjónustusamning“ er gert ráð fyrir „hagræðingu“ sem frá árinu 2007–2011 vex úr 15 millj. kr. í 200 millj. kr. á ári.

Útvarpsstjóri hafði ekki á takteinum skýringar á þessum lið þegar um hann var spurt á fundinum. — Beinast liggur því við að álykta að kostnaði við að uppfylla afar hófsöm markmið þjónustusamningsdraganna um aukið innlent dagskrárefni eigi að mæta með niðurskurði og uppsögnum — eða með því að afla meiri tekna af auglýsingum og kostun. Rekst hér hvað á annars horn, enda virðist tölunum fyrst og fremst ætlað að líta vel út sem forsendur rekstraráætlunar matsnefndarinnar. Raunar er óljóst hvert gildi þjónustusamningur af þessi tagi hefur fyrir rekstur Ríkisútvarpsins, segir í nefndaráliti okkar og ég kem betur að þessum þjónustusamningsdrögum síðar í ræðunni.

Um réttindi starfsmanna er það að segja í nefndarálitinu að í öll skiptin sem mál þetta hefur verið til meðferðar á Alþingi hafa stéttarfélög starfsmanna ásamt heildarsamtökunum BSRB og BHM gert alvarlegar athugasemdir við meðhöndlun réttinda starfsmanna. Þær athugasemdir hafa engu breytt nema hvað meiri hluti nefndarinnar tekur nú góða og gilda yfirlýsingu útvarpsstjóra um að þeir starfsmenn sem nú eiga réttindi í A-deild Lífeyrissjóðs ríkisins muni halda þeim rétti. Fulltrúar stéttarfélaganna segja hins vegar að slík yfirlýsing sé marklaus nema þau réttindi verði tilgreind í bráðabirgðaákvæði II. Að öðru leyti eru sniðgengin réttindi sem starfsmenn eiga samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, samkvæmt aðilaskiptalögum, nr. 72/2002, og samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997. Er þar átt við inntak ákvæðis til bráðabirgða II, þar sem takmarkaður er réttur starfsmanna til töku lífeyris úr B-deild Lífeyrissjóðs ríkisins. Þá er ekki ljóst af ákvæðinu hver ætlunin er með lífeyrisskuldbindingar sem falla til í framtíðinni, hvort þær muni einungis ná til þeirra sem taka störf hjá hinu nýja félagi, eða hvort þær eiga líka við þegar í hlut eiga starfsmenn sem gegnt hafa störfum sem lögð verða niður en nýta sér engu að síður rétt til áframhaldandi aðildar að B-deild LSR.

Ég þakka áheyrendum gott hljóð og vona að þeir skilji vel hvað hér fer fram. Þeir eru nokkuð margir, að vísu ekki í þingsalnum en uppi á pöllunum, og ég býð þá velkomna og vona að þeir læri margt af þessari heimsókn sinni til þingsins.

Ég held áfram með nefndarálit mitt, forseti:

Helstu atriði sem nú heyra til réttinda starfsmanna Ríkisútvarpsins en falla niður við breytingarnar eru: andmælaréttur, áminningarskylda, skriflegur rökstuðningur fyrir uppsögn, auglýsingaskylda um laus störf, aðgangur almennings að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda, uppsagnarfrestur, þagnarskylda, skylda um að hlíta breytingum á störfum og verksviði auk biðlaunaréttar þeirra sem ráðnir eru fyrir 1. júlí 1996. Þá munu ákvæði stjórnsýslulaga um jafnræðisreglu, andmælarétt, rannsóknarreglu eða meðalhófsreglu ekki gilda um starfsmenn hins nýja félags. Þá er óvissa um ávinnslu réttinda hjá Ríkisútvarpinu ohf. og óvíst hvernig tekst að semja um sambærileg réttindi þegar nýr kjarasamningur verður gerður við hinn nýja vinnuveitanda, sem mun vera að tveimur árum liðnum. Biðlaunaréttur, sem heyrir undir eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar, verður skertur þar sem hann verður einungis látinn ná til ársins 2009. Loks má geta þess að réttur til upplýsinga og samráðs, sem starfsmenn Ríkisútvarpsins eiga samkvæmt lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, og getið var hér áðan, hefur ekki verið virtur.

Þetta er allt með mestu ólíkindum í ljósi þess að við fyrirhugaðar breytingar hætta starfsmenn Ríkisútvarpsins að vera starfsmenn ríkisins og verða starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf., þrátt fyrir að ríkið eigi það félag og beri alla ábyrgð á rekstri þess.

Þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri kom á fund nefndarinnar, sem gerðist að vísu þrisvar sinnum, var hann m.a. spurður út í réttindamálin. Hann staðfesti þann skilning minni hlutans að réttindi samkvæmt núgildandi kjarasamningum falli úr gildi þegar þeir samningar renna út sem verður eftir tvö ár. Hann gat ekki upplýst neitt um þá samninga sem tækju við annað en að þegar þar að kæmi tækju við svokallaðir „frjálsir samningar“. Þeir yrðu einstaklingsbundnir svo að hverjum og einum starfsmanni yrði þá frjálst „að selja kauphækkanir fyrir réttindi“, eins og hann orðaði það. Aðspurður taldi útvarpsstjóri líklegt að launabil ykist með slíkum samningum. Þá taldi hann líklegt að einhverjum hluta áætlaðrar hagræðingar yrði náð með því að fækka starfsmönnum, ekki væri gert ráð fyrir að ráðið yrði í allar þær stöður sem losnuðu þegar breytingarnar gengju í garð, og líklegt væri að u.þ.b. 30 starfsmenn nýttu sér biðlaunaréttinn strax.

Af þessu má ljóst vera að réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins eru í uppnámi verði frumvarp þetta að lögum. Slíkt er óásættanlegt að mati minni hlutans enda er ósamræmi í því hvernig málefni starfsmanna þeirra ríkisstofnana sem undirgangast breytt rekstrarform eru meðhöndluð. Nærtæk dæmi eru réttindamál flugumferðarstjóra, sem enn hafa ekki verið leidd til lykta. Í umsögn BSRB og BHM er tekin afdráttarlaus afstaða gegn frumvarpinu og sett fram sú krafa að það nái ekki fram að ganga. Þá eru í umsögn Félags fréttamanna gerðar ótal tillögur um breytingar á atriðum sem varða starfsmenn.

Næsti kafli ber fyrirsögnina „Tengslin við fjölmiðlafrumvarpið“ og hljóðar svo:

Svo bar við á þessu þingi að auk Ríkisútvarpsfrumvarpsins lagði menntamálaráðherra fram frumvarp um almenna fjölmiðla, þ.e. 58. mál á þskj. 58. Það frumvarp er í megindráttum byggt á tillögum nefndar sem í sátu fulltrúar allra þingflokka og skilaði skýrslu 7. apríl 2005. Þvert á fyrirheit ráðherra hefur ekki verið reynt í nefndinni að fjalla í samhengi um þessi tvö mál, og það eina sem gert hefur verið í meðferð fjölmiðlafrumvarpsins er að senda það til umsagnar.

Af þessu tilefni er rétt að minna á bókun sem fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins lögðu fram þegar áðurnefnd fjölmiðlanefnd skilaði af sér. „Við erum þeirrar skoðunar,“ sögðu fulltrúarnir m.a., „að mikilvægt sé að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem taki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Slíkt er einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fer fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf.“ Það var enn fremur mat þeirra að slík sátt næðist aðeins með því að „tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og varðveita það traust sem ríkir á milli stofnunarinnar og eigenda hennar, þ.e. þjóðarinnar“. Fulltrúar flokkanna þriggja lýstu því yfir að lokum að þeir skrifuðu undir hina sameiginlegu skýrslu fjölmiðlanefndarinnar í því trausti „að ásættanleg niðurstaða [næðist]“ — náist hygg ég standi í textanum — „um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins“.

Þótt stjórnarmeirihlutinn hafi nú breytt upphaflegu frumvarpi sex sinnum, þ.e. við lok þingstarfa vorið 2005, sumarið 2005 þegar sameignarformið vék fyrir háeffun, við lok 2. umr. á síðasta þingi með breytingartillögum meiri hluta menntamálanefndar, með nýjum breytingartillögum meiri hlutans við 3. umr. málsins í vor, með smávægilegum lagfæringum í sumar og með breytingartillögum meiri hluta menntamálanefndar nú fyrir 2. umr., þá er þrátt fyrir þessar sex breytingahrinur reyndar enn langt frá því að slík „ásættanleg niðurstaða“ hafi náðst, hvorki milli stjórnmálaflokkanna, meðal almennings né við aðrar útvarpsstöðvar.

Næstsíðasti kafli nefndarálitsins heitir „Sáttaboð“ og hljóðar svo:

Þingmenn stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd hafa unnið að frumvörpunum um Ríkisútvarpið með sömu markmið að leiðarljósi og fulltrúar flokkanna í fjölmiðlanefndinni lýsa í bókun sinni. Eftir að samkomulag tókst um að ljúka 2. umr. um frumvarpið í fyrra sendu fulltrúar stjórnarandstöðunnar formanni menntamálanefndar bréf, dags. 24. apríl 2006, þar sem, að höfðu samráði við forustumenn flokkanna tveggja, — því að aðeins tveir af þeim úr stjórnarandstöðuflokkunum eiga fulltrúa í menntamálanefnd — var sett fram tilboð um verklag til að ná sáttum í málinu. Í því fólst að frumvarpið yrði ekki afgreitt á því þingi en strax að því loknu sett niður nefnd með fulltrúum allra flokka með það að markmiði að lagasetningu yrði lokið fyrir áramót, þau sem nú blasa við. Lagt var til að þessi nefnd kannaði sérstaklega þann möguleika að Ríkisútvarpið yrði gert að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Í frumvarpsdrögum nefndarinnar yrði þess gætt að halda sem allra flestum kostum hlutafélagsformsins fyrir Ríkisútvarpið sem almannaútvarp en sniðnir af helstu ókostir þess. Þá voru í bréfinu settar fram í átta liðum efnislegar ábendingar um úrbætur að öðru leyti frá frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf., eins og menn geta m.a. séð í framsöguræðu þess sem nú talar fyrir framhaldsnefndaráliti minni hluta menntamálanefndar við 3. umr. hér í vor en þar var þetta bréf lesið í heild sinni.

Rétt er að taka fram í þessu sambandi, stendur enn fremur í nefndarálitinu, að enginn heildstæður samanburður hefur enn verið gerður á rekstri Ríkisútvarpsins með breytingum innan núverandi lagaramma og hlutafélagsforminu eða öðru eignarformi. Horft hefur verið fram hjá því að Ríkisútvarpið er nú B-hlutastofnun sem getur haft bæði fullt sjálfstæði og mikinn sveigjanleika, ef menn reyna sig við lagabreytingar innan núverandi ramma. Á fyrsta fundi menntamálanefndar eftir 2. umr. á síðasta þingi hafnaði formaður menntamálanefndar þessu boði fyrir hönd stjórnarflokkanna. Svo fór þó að frumvarpið var ekki afgreitt á vorþinginu.

Í 1. umr. um það frumvarp sem nú liggur fyrir var svipað sáttaboð ítrekað. Bæði Steingrímur J. Sigfússon og Mörður Árnason, sá sem hér talar, lýstu því yfir fyrir hönd flokka sinna að ef ráðherrann og stjórnarmeirihlutinn væru til viðræðu um annað eignarform en hlutafélagsformið stæði ekki á flokkunum að taka málið gjörvallt til skoðunar á ný með það fyrir augum að reyna til þrautar sættir um framtíð Ríkisútvarpsins. Hvorki menntamálaráðherra, formaður menntamálanefndar né varaformaður hennar úr Framsóknarflokki virtu þetta sáttaboð svars.

Hér er því auðvitað við að bæta, forseti, að í morgun var enn reynt og ég vona að það skili einhverjum árangri. Nú var sú tilraun höfð alveg opin, hún er ekki skilyrt með neinum hætti heldur er ósköp einfaldlega þannig úr munni formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem er jafnframt er leiðtogi stjórnarandstöðunnar að eðli til vegna starfa flokksins, að á þinginu verði skipaður hópur manna úr öllum flokkum, eins og ég sagði áðan, til þess ósköp einfaldlega að setjast yfir þetta mál að nýju með það frumvarp sem hér liggur fyrir og auðvitað með aðrar tillögur sem fram hafa komið, algjörlega ganga að því borði opnum huga og reyna sem verða má að ná samkomulagi um mál sem best er fyrir þjóðina að sættir ríki um eins og ég hef áður lýst.

Í lok þessa nefndarálits er frávísunartillaga sem nú verður lesin:

Í ljósi þess sem að framan greinir eiga fulltrúar minni hlutans ekki annars úrkosti en að flytja eftirfarandi tillögu þar sem:

a. fram hafa komið veigamiklar athugasemdir um að sams konar frumvarp um Ríkisútvarpið og fjölmiðlafrumvarpið kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá, hér er átt við frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. í fyrra og athugasemdir í þinglok þessa efnis.

b. vafi leikur á um hvort ákvæði frumvarpsins stenst reglur Evrópuréttar,

c. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

d. með ákvæðum um tekjur af auglýsingum og kostun er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsinga- og kostunarmarkaði án þess að ljóst sé um sérstakt hlutverk þess umfram aðrar stöðvar,

e. tillögur frumvarpsins um kjör stjórnar og ráðningu útvarpsstjóra eru ekki til þess fallnar að hefja fagleg sjónarmið til vegs og virðingar og losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum,

f. ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir eftirlitsráði, t.d. í formi „akademíu“ með tilnefningum frá almannasamtökum, samanber m.a. leiðbeiningar Evrópuráðsins um verkaskiptingu stjórnar annars vegar og eftirlitsráðs hins vegar, — hér skal þess getið utan þessa nefndarálits að orðið „eftirlitsráð“ sem hljómar nú kannski ekki mjög þokkafullt orð er notað hér vegna þess að það er íslensk þýðing á samsvarandi erlendu orði í leiðbeiningum Evrópuráðsins sem áður var getið,

g. alls óljóst er hvernig háttað verður um innlent efni í dagskrá Ríkisútvarpsins til frambúðar,

h. ákvæði í frumvarpinu um „a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá“ virðist ætlað að auðvelda afnám Rásar tvö,

i. ekki hefur í frumvarpinu eða í tengslum við það verið gengið með fullnægjandi hætti frá réttindamálum núverandi starfsmanna og óljóst er um starfskjör og samningamál í framtíðinni,

j. nefskattur, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, er ekki heppileg leið til fjármögnunar, byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda,

k. við blasir að frumvarpið ylli, ef það verður að lögum, málaferlum bæði hérlendis og á EES-vettvangi,

l. og hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti menntamálanefndar hafa reynt að ná samstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins sem er einhver helsta lýðræðis- og menningarstofnun í íslensku samfélagi.

Því leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Magnús Þór Hafsteinsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur nefndaráliti þessu.

Undir álitið rita Mörður Árnason, framsögumaður, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson og Kolbrún Halldórsdóttir.

Forseti. Ég hef nú lesið nefndarálit minni hluta menntamálanefndar og ætla næst að snúa mér að því að leggja út af því og tala um nokkur önnur atriði sem koma þessu máli við.

(Forseti (JónK): Það var ætlunin að gera klukkutíma hlé núna og ég verð að biðja hv. ræðumann að taka upp ræðu sína klukkan hálftvö.)

Hann fellst fúslega á það.