133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:32]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (frh.):

Forseti. Þar var komið máli mínu að ég hafði lokið við að lesa nefndarálit minni hluta menntamálanefndar um það frumvarp sem hér liggur fyrir í 2. umr., frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. Ég ætlaði að nota tímann til að fara yfir það nýtt sem er í málinu og kannski rifja upp nokkur atriði frá fyrri umræðu um frumvarpið ef ástæða er til. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að fleiri ætla að tala hér í dag og að þessi umræða er samkomulagsbundin að því leyti að menn í þinginu hafa tekið sig saman um að ljúka henni á tilteknum tíma. Það er líka nægur tími til að fara yfir málið í 3. umr. sem fyrirhuguð er eftir jól einhvern tíma, ef hún þá fer fram, og eins og ég sagði í byrjun má gera ráð fyrir því að þunginn í umræðunni um þetta máli verði í 3. umr. og ekki í þeirri 2. sem hér fer fram þar sem menn láta sér kannski nægja að fara lauslega yfir helstu atriði.

Ég vil taka fram að það er ákveðin verkaskipting milli okkar stjórnarandstæðinga í menntamálanefnd í þessari umræðu. Aðrir taka það hlutverk að sér að fjalla hér einkum um réttindamál starfsmanna, nefskattinn og fjármögnunarleiðir aðrar sem ég ætla að láta mér nægja að hafa, a.m.k. að mestu, þau ein orð um sem fram komu í nefndarálitinu áðan.

Í nefndarálitinu voru talin þrjú atriði sem væru með einhverjum hætti ný í þessu frumvarpi og í þeirri umræðu sem um það hefur staðið. Það er sjálfsagt að fara yfir þau. Ég ætla ekki að fara yfir þau í þeirri röð sem voru talin í nefndarálitinu heldur annarri, og þá byrja hér á þjónustusamningsdrögum þeim sem menntamálaráðherra og útvarpsstjóri komu sér saman um með einhverjum hætti og kynntu á frægum blaðamannafundi í útvarpshúsinu við Efstaleiti þar sem þau sátu tvö í settinu, sem svo er kallað í fagslangri fréttamanna — ég man ekki hvort það var nýja settið eða gamalt sett — nefnilega borðin sem setið er við þegar fluttar eru fréttir. Þau tóku sig þar vel út og voru sæt saman.

Þjónustusamningsdrögin eru merkilegt plagg að sínu leyti, og sjálfsagt að geta þess í upphafi sem vel er gert þar því að þar er ýmislegt ágætlega gert. Helstu atriði þessa þjónustusamnings, þau sem helst hafa verið uppi, eru þau að samkvæmt þessum drögum skuldbindur útvarpið sig til að auka hlut innlendrar dagskrár á kjörtíma eins og áður er tekið fram og þar er talað um að það verði talsverð aukning sem Páll Magnússon nefnir svo, að sú aukning nemi klukkutíma á hverju kvöldi, og síðan er líka talað um að talsverður hluti af þessari aukningu verði frá sjálfstæðum framleiðendum.

Skilgreiningar á þessum hlutum sem flestir láta nægja að skilja beinum skilningi, „sjálfstæður framleiðandi og innlend dagskrá“, eru nokkuð á reiki og hafa verið á reiki hjá menntamálaráðuneytinu og hjá Ríkisútvarpinu. Það er að vísu að komast aðeins gleggri skilningur á það en áður var sem breytir t.d. þeim tölum sem Ríkisútvarpið hefur áður haft í frammi um innlenda dagskrá. Ríkisútvarpið er hætt að telja það innlenda dagskrá að sýna t.d. knattspyrnuleik að utan, láta lýsa honum og hafa síðan fimm mínútur á undan og fimm mínútur á eftir og telja þetta allt saman innlenda dagskrá. Það mun vera aflagt núna en enn er auðvitað innlend dagskrá reiknuð að fullu þegar talað er um þætti eins og Nýjustu tækni og vísindi eða fréttir og fréttatengt efni sem byggist bæði á innlendu og erlendu efni. Þegar þetta er komið í þátt sem kallaður er einhverju nafni og með einhverjum hætti framleiddur telst það allt saman vera innlend dagskrá. Þegar því er við bætt að samkvæmt upplýsingum sem fram komu í nefndarálitinu frá Páli Magnússyni og úr þeim tölum sem gefnar eru upp sem aukinn kostnaður, sem er kostnaður við þjónustusamning, má draga ályktun af þeim um það hvers konar innlend dagskrá hér verði á ferðinni. Um er að ræða, eins og áðan kom fram, 400 millj. kr. aukningu í dagskrárgerð á þeim lið sem heitir „Aukið dagskrárefni, kostnaður við þjónustusamning“ og á að skilja sem innlenda dagskrá eins og hún er hér skilgreind, þar af að einhverju leyti efni frá svokölluðum sjálfstæðum framleiðendum. Þetta eru 400 millj. og það jafnast á við það að u.þ.b. milljón af þessu fé fari í klukkutíma.

Það er rétt að gera sér grein fyrir því um hvað er að ræða af því að við erum að tala hér um þennan þjónustusamning og af því að af honum er nokkuð gumað. Miðað við núverandi verð þarf u.þ.b. 15 millj. kr. fyrir klukkutíma af heimildarmynd og er þá miðað við núverandi verðlag og núverandi kjör á þeim markaði. Réttur fyrir bíómynd sem áður hefur verið sýnd og má kannski segja að sé „notuð“ að því leyti að hún hefur farið í kvikmyndahús og verið jafnvel á myndbandamarkaði kostar fyrir eitt skipti líka u.þ.b. 15 millj. kr. Þetta þykir vera mjög lágt verð þannig að menn geta ímyndað sér hvað fæst fyrir 1 millj. kr., og er ég þó ekki að lasta það efni. Þar er um að ræða á fagmáli þeirra sem hér um véla svokallað magasínefni og það tiltölulega ódýrt magasínefni, sófaþætti sem ekki þurfa að vera slæmir en eru kannski ekki mjög metnaðarfullir, án þess að farið sé út fyrir hús eða innslög tekin inn í það sem kosta annað en vélamenn og þáttastjórnendur í stúdíói. Áðan lýsti ég þáttum eins og Nýjustu tækni og vísindum og fleiri slíkum þáttum sem eru alveg prýðilegir en geta ekki kallast metnaðarfull innlend dagskrá.

Að þessu er auðvitað fundið víðar. Samtök kvikmyndaframleiðenda, kvikmyndaleikstjóra og kvikmyndafólks sem einnig framleiðir sjónvarpsefni hafa kvartað undan skilgreiningunum og talið ekki nægilegt hald í þessum þjónustusamningi. Fyrir utan þá ágætu umsögn barst okkur sérstök umsögn frá Önnu Th. Rögnvaldsdóttur kvikmyndaleikstjóra, handritshöfundi og fróðleiksmanni miklum um kvikmyndagerð þar sem þjónustusamningsdrögunum er fagnað að sínu leyti en þau líka gagnrýnd og gerð sú tillaga sem ég vona að menntamálaráðherra og útvarpsstjóri taki mark á ef þau klára einhvern tíma þennan þjónustusamning sem ég vona líka að verði — þó að hann verði kannski ekki um RÚV ohf. — að í samningnum verði sett fram skýrt skilgreint markmið um magn efnis en ekki það losaralega orðalag sem nú er raunin, t.d. að menn skilgreini hvað hér er átt við marga klukkutíma af leiknu sjónvarpsefni á ári. Það hefur helst skort á undanfarin ár í sjónvarpinu að það hafi haft dug í sér til að vera með leikið efni, sem er auðvitað dýrt. Hún mælist líka til skilgreiningar á því hvernig eigi að skipta þessu upp þannig að menn sjái svart á hvítu hver metnaður er á bak við þau samningsdrög sem um er að ræða.

Hvernig eiga þessar 400 millj. að verða til? Það er ekki mjög ljóst, hvorki í þjónustusamningsdrögunum né í þeim tölum sem koma fram frá Ríkisútvarpinu og menntamálaráðuneytinu og eru birtar í skýrslu matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings sem ég er hér með og er opinbert plagg frá 28. nóvember 2006. Þess verður að geta hvað varðar tölurnar um annan kostnað að formaður matsnefndarinnar segir að þær séu teknar beint úr plöggum og bréfum frá Ríkisútvarpinu og menntamálaráðuneytinu og vísar frá sér allri ábyrgð á þeim tölum í sjálfu sér. Þeir hafa ekki lagt neitt sjálfstætt mat á þessar tölur, t.d. um þessar 400 millj. og þær aðrar tölur sem þarna eru sem vissulega er aukning um 10 millj. á ári í neti og textavarpi, hvort sem það stenst eftir breytingarnar á auglýsingunum, eftir þá breytingu sem verður gerð að útiloka auglýsingar á netinu, og síðan 30 millj. sem menn hljóta að gleðjast yfir um yfirfærslu á safnaefni og starfskynningu. Þetta á allt saman að kosta þegar fullur gangur er á u.þ.b. 420–450 millj. á ári.

Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Ja, þeim á að mæta að töluverðu leyti með einu orði sem hér er skráð í þessa töflu um kostnað við þjónustusamning, nefnilega „hagræðingu“. Hagræðing á að afla verulegs hluta þessa fjár og árið 2011, eftir 4 ár, þegar aukið dagskrárefni er komið í það hámark sem á að vera samkvæmt þessum þjónustusamningsdrögum, nemur hagræðingin 200 millj. Aukið dagskrárefni á að kosta 400 millj., og 200 af þeim milljónum á að fá með hagræðingu.

Hvernig á annar kostnaður að koma þarna? Ja, það er eins og matsnefndin, fulltrúar Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytisins, reikni með að það gerist einhvern veginn og komi honum þannig inn í svokallaða rekstraráætlun sem verður fjallað um betur síðar í dag, hygg ég. Rekstraráætlun Ríkisútvarpsins 2007–2016 fær ósköp einfaldlega að koma inn með auknum tekjum sem þeir reikna með að aukist um 1% á ári, bæði vegna ætlaðrar fjölgunar — þeir ætla sem sé að fjölga Íslendingum þannig að tekjurnar af nefskattinum aukist um 1% á ári — og að tekjur af auglýsingum og kostun muni líka aukast um 1% á ári. Allar tekjur aukast um 1%. Launaútgjöld eiga hins vegar ekki að aukast nema um 0,8% svo að með einhverjum hætti verða þessar 220–250 millj. til af holdi Ýmis, því holdi sem lýst er í rekstraráætluninni. Þar kvikna þessar 220 millj.

Við í menntamálanefnd rákum okkur sérstaklega á þetta orð, hagræðingu, og þær tölur sem þar eru nefndar. Fyrsta árið, 2007, á að hagræða fyrir 15 millj., næsta ár, 2008, 66 millj., 2009 121 millj. í hagræðingu, 2010 164 millj. og síðan 200 millj. upp frá því. Þetta er mjög nákvæmlega tiltekið, upp á milljón, og má þakka fyrir að væri ekki upp á hundruð þúsunda eða jafnvel krónur. Eins og áður er getið spurðum við fulltrúa matsnefndarinnar sem er ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, hvort hann vissi eitthvað um þessa hagræðingu. Hann taldi að hann vissi það ekki og hafði ekki lagt neitt mat á það og taldi það ekki þurfa, þetta væru fyrirheit Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytisins. Við spurðum síðan bæði fulltrúa menntamálaráðuneytisins og ekki síst Pál Magnússon útvarpsstjóra. Svörin voru frekar þunn um þá hagræðingu, þetta væri svo og svo mikil prósenta af heildarútgjöldum Ríkisútvarpsins á ákveðnu árabili og hægur leikur að ná því. Við spurðum með hverjum hætti því yrði náð. Engin svör voru við því gefin. Páll rakti að vísu að reiknað væri með að starfsmönnum fækkaði af sjálfsdáðum og yrði þá ekki ráðið í stöður þeirra en gat ekki svarað frekar til um það með hvaða hætti starfsmannaþróunin yrði hjá Ríkisútvarpinu.

Hann nefndi líka að hugsanlegt væri að Ríkisútvarpið stofnaði sameiginlegt fyrirtæki um ýmsa hluti sem sjálfsagt er að gera, um leikmyndir, búninga og því um líkt. Ég tel, með venjulegum fyrirvara, sjálfsagt að beita sér fyrir slíku, reyna það í samstarfi við aðra framleiðendur á markaði, aðra framleiðendur sjónvarpsefnis og jafnvel leikhúsin að einhverju leyti ef það er hægt, en það þarf ekki þjónustusamningsdrög til þess, ekki hlutafélag eða lagabreytingar yfir höfuð, hygg ég. Það er hægt að gera það með einföldum hætti.

Ekkert var annað ljóst um þessar fyrirtækishugmyndir en að þær væru fram komnar. Þær geta í sjálfu sér ekki valdið 200 millj. kr. hagræðingu á ári eftir árið 2011 þannig að sú hagræðing sem hér er talað um er í raun og veru aðeins fyrirheit, orðin tóm að því leyti að ekkert fylgir þeim á borði, engin áætlun, áform, engar hugleiðingar eða útreikningar aðrir en þeir að þetta passar furðu vel í kostnaði við þjónustusamning sem síðan framleiðir tölur sem passa ágætlega inn í rekstraráætlun þá sem matsnefndin stofnaði um efnahagsreikning og birtir að lokum í skýrslu sinni. Þær tölur sem liggja fyrir um kostnað við þjónustusamning eru í raun og veru reiknings… — nú vil ég ekki nota of vond orð — eru í raun og veru útreikningur miðað við tilteknar forsendur, og þessum útreikningi er ætlað að passa við dæmi sem upp er sett um það að Ríkisútvarpið verði rekið með hinum ágætasta brag næsta áratuginn. Ég vona að svo verði en þetta vekur spurningar og satt að segja grunsemdir um það að menn viti ekki enn þá og hafi ekki gert sér grein fyrir því í fyrsta lagi hvers konar efni hér er um að ræða sem loforð eru um í þjónustusamningnum og í öðru lagi með hvaða hætti eigi að afla fjár til þess. Það er ljóst af þessu að helmingurinn af þeim 400 millj. sem aukið dagskrárefni, sem er væntanlega annað orð um hina innlendu dagskrá, þar á meðal innlenda dagskrá sem framleidd er af sjálfstæðum framleiðendum, á að kvikna með einhverjum hætti í 1% fjölgun landsmanna, og hinn helminginn á að fá með hagræðingu sem enginn veit hvernig verður.

Auðvitað dettur manni í hug, eins og áður er sagt, að annars vegar sé um að ræða hagræðingu sem beinlínis fellur til með hörðum niðurskurðaraðferðum á næstu missirum og uppsögnum þar sem hægt væri auðvitað að spara með einhverjum hætti með því að leggja niður deildir, fækka verulega störfum í mikilvægum deildum Ríkisútvarpsins, sjónvarpi eða jafnvel hljóðvarpi, og þá dettur manni strax í hug Rás 1 vegna þess að samkvæmt markaðshugsun er Rás 1 eiginlega óþörf. Hún aflar ekki mikilla auglýsinga ein og sér og þar eru ýmsar deildir, tónlistardeild, leiklistardeild o.s.frv., sem menn geta ímyndað sér að hagræða verulega. Hins vegar kemur manni til hugar að ætlun útvarpsstjóra og manna hans, að því leyti sem þeir hafa eitthvað horft fram á veginn, sé sú að þeir geti aflað aukinna tekna á móti til að þurfa ekki að fara í þessa hagræðingu sem þeir vita ekkert hver er og gert það með meiri auglýsingum og meiri kostun.

Ef til stendur að afla meiri tekna með auglýsingum og kostun sem er þá í andstöðu við þær yfirlýsingar sem hv. formaður menntamálanefndar hefur verið með, að það eigi ekki að gera og vilji hans og fleiri af hans liði standi til þess að heldur dragi úr þessu, þarf auðvitað meiri samkeppni, þá þarf Ríkisútvarpið að vera í meiri samkeppni við hinar stöðvarnar, við markaðsstöðvarnar. Það er því miður ekki sennilegt miðað við ástandið og þróunina undanfarið að undir samkeppninni á auglýsinga- og kostunarmarkaði standi það innlenda efni sem gert er ráð fyrir að aukist í sjónvarpinu. Hér rekst hvað á annars horn. Þetta passar ekki vel saman, enda engin áætlun til um hvernig eigi að gera þetta nema nokkrir stafir á blaði, tölustafir aðallega. Við skulum vona hið besta en þetta er augljós galli á þjónustusamningsdrögunum.

Að þjónustusamningnum má líka finna margt. Menn eru svo glaðir að sjá í honum jákvæða hluti sem lengi hefur skort í stefnumótun Ríkisútvarpsins að menn gleyma hinu. Það er ekki mikill metnaður í því að t.d. efni fyrir börn og ungmenni skuli vera tiltekið í nokkrum línum og stefnt að því að það sé á tíma þjónustusamningsins, allt fram til ársins 2010, það sama og við upphaf samningstímabilsins, hið sama og nú. Það er ekki gert ráð fyrir að börn fái meiri þjónustu sem ætla mætti ef um raunverulegt almannaútvarp væri að ræða, heldur á það að vera það sama. Ég held að það sé ekki mjög mikið, mér hefur ekki heyrst það á barnafjölskyldum sem ég þekki og börnum sem ég hef haft kynni af að það sé mjög mikið. Fyrir utan ágæta þætti eins og Stundina okkar hefur þetta barnaefni fyrst og fremst falist í teiknimyndunum sem sjónvarpið er með á morgnana. Með fyrst og fremst á ég við að mestur tíminn fáist þannig. Ég verð að segja að það sem ég hef séð af því efni er ekki mjög merkilegt, og stundum satt að segja hörmulegt. Það hefur vissulega mjög aukist að það efni sé talsett fyrir börnin og ætti í raun og veru að gera það að skyldu að talsetja það nánast allt nema það sem ætlað er beinlínis mjög stálpuðum börnum eða unglingum. Gæði þess eru ákaflega misjöfn, satt að segja, og stundum þannig að það efni er eiginlega ekki bjóðandi börnum sem við reynum að ala upp í menningarheimi sem vissulega er alþjóðlegur en á líka að taka mið af íslenskri hefð og íslenskri menningu.

Annað í þessum þjónustusamningi sem lýsir a.m.k. ekki miklum metnaði eru línurnar um menningarumfjöllunina. Hér stendur að RÚV skuli fjalla um útvarp og sýna frá menningarviðburðum bæði innan lands og erlendis og, með leyfi forseta, skal „menningarumfjöllun vera að lágmarki hin sama í mínútum talið og við upphaf samningstímabilsins í hljóðvarpi og sjónvarpi“. — Nú er að vísu menningarumfjöllun í hljóðvarpi og þyrfti kannski betri skilgreiningu á því, en menningarumfjöllun í hljóðvarpi á Rás 1 er vissulega alveg prýðileg. — Það eru draugar í húsinu, forseti, það ýlir í einhverjum tækjum.

(Forseti (JónK): Það verða gerðar ráðstafanir til að hrekja þá út.)

Já, ég skal bara tala í kappi við þá uppvakninga. Frá sjónarhóli sjónvarpsins verður að segja að hér er ekki mikill metnaður á ferðinni því að menningarumfjöllun í sjónvarpinu hefur satt að segja alltaf verið frekar fátækleg og hefur heldur dalað á síðustu árum frá því sem áður var. Við vonuðum að þetta væri bráðabirgðaástand frá því að nokkrir þættir voru felldir saman í það sem nú heitir Kastljós og Kastljósinu látið nægja að ná yfir nokkur svið, t.d. er menningarumfjöllun af því tagi sem áður var í þættinum Mósaík ákaflega dauf í hinu nýja Kastljósi, að því gjörsamlega ólöstuðu að öðru leyti.

Hér er ekki mikill metnaður á ferðinni og það er heldur ekki mikill metnaður í því ákvæði sem fjallar um táknmál. Vissulega er gott að textun á sjónvarpsefni verði aukin um 100% fyrir þann hóp sem þarfnast textunar sem eru auðvitað heyrnardaufir en líka t.d. útlendingar, gestir okkar hér, og nýbúar, nýir Íslendingar, sem hafa mikið gagn af texta. Við getum sannreynt það sjálf þegar við horfum á kvikmyndir utan lands hver hjálp er að því að hafa texta og jafnvel á sama málinu og við erum að horfa á. Þótt textunin sé aukin um 100% sem er ekki mjög mikið í klukkutímum, það eru 167 klukkutímar, á ekki að eyða neinum peningum í fólk sem hefur að móðurmáli táknmál heyrnarlausra því að „hlutfall útsendinga á táknmáli [á að] vera a.m.k. hið sama og við upphaf samningstímabilsins“. Þetta er metnaðurinn í þessu efni. Það tekur á mann að þetta skuli vera niðurstaða hæstv. menntamálaráðherra í lok þessa kjörtímabils sem er að því leyti sögulegt að á því var haldin fyrsta ræðan úr þessum stóli á táknmáli heyrnarlausra, og réttindi þeirra hafa verið til umræðu meira en áður.

Þetta eru engar meginathugasemdir við þjónustusamningsdrögin en þau lýsa ekki miklum metnaði gagnvart því sem á að vera hlutverk almenningsútvarps. Hins vegar er þjónustusamningurinn jákvæður, sem slíkur er hann vissulega jákvæður og sjálfsagður sem stjórntæki fyrir útvarpið. Hann er gerður að erlendri fyrirmynd og er rétt að minnast þess að þjónustusamningur hefur áður verið til, menntamálaráðherra og útvarpsstjóri gerðu hann árið 2000 eða 2001. Ég man ekki hvort hann er enn í gildi, hann var ekki mjög merkilegur en hann var ágætt fyrsta skref í þessu og getur verið mjög þarft stjórntæki.

Það er merkileg saga sem þessi þjónustusamningsdrög eða þjónustusamningur á, ef af verður, vegna þess að fyrsta veturinn þegar við ræddum um Ríkisútvarpið þá var rætt um þjónustusamning milli menntamálaráðherra og útvarpsins og hvernig hann ætti að vera og og hvernig ætti að gera hann. Þá var hann ekki í frumvarpinu og ekki næsta vetur heldur. Á fyrra vetri var upphaflega fullyrt að það yrði enginn þjónustusamningur af þessu tagi heldur yrði einhvers konar samkomulagi fyrirkomið með einhverjum öðrum hætti sem ekki var tiltekinn. Það var ekki fyrr en við stjórnarandstæðingar fundum spurningu um þjónustusamning í bréfaskiptum ESA og ráðuneytanna hér á landi, þeim bréfaskiptum sem upphaflega átti að halda leyndum, sællar minningar, að við drógum hann fram og hann kom síðan inn í frumvarpið í fyrravor milli 2. og 3 umr. og sem betur fer kom menntamálanefnd saman á þeim tíma að kröfu okkar stjórnarandstæðinga. Síðan komu þessi drög í sumar, þjónustusamningsdrögin, og þau voru kynnt með lúðrablæstri í Efstaleitinu sem óneitanlega er nokkuð kyndugur í ljósi þessarar sögu.

Það er sjálfsagt að gera slíkan þjónustusamning, að menntamálaráðherra eða ríkisvaldið með einhverjum hætti geri hann. Hins vegar er spurning hver staða hans er í þjóðskipulaginu, þessa stjórntækis sem hann á að vera. Það er líka óljóst í þessu frumvarpi hver staða hans er því það eina sem þar segir er að menntamálaráðherra geri þennan þjónustusamning og eigi að gera hann. Við hvern hann á að gerast er í raun og veru ekki ljóst. Útvarpsstjóri skrifar undir drögin og það er heldur ekki ljóst hver er samþykkjandi þeirra í útvarpinu, hvort það er útvarpsstjórinn einn eða hvort það er stjórnin. Auðvitað væri sjálfsagt að þessi þjónustusamningur færi víðar, því að hann markar stefnuna til skemmri tíma, til nokkurra ára, þeirra ára sem um er samið í Ríkisútvarpinu, og getur verið mjög þarfur sem slíkur. Það væri auðvitað æskilegt að starfsmönnum gæfist færi á að koma að þessum þjónustusamningi og einhvers konar akademíu eða hlustendaþingi, sem vel mætti ímynda sér að hefði m.a. það hlutverk að samþykkja þjónustusamning af þessu tagi.

Það væri líka umhugsunarvirði, og hugsanlegt að við ræðum um það þegar þessari umræðu líkur, að menntamálaráðherra kynnti þjónustusamning af þessu tagi á þinginu, hugsanlega sem þingsályktunartillögu þannig að hann hlyti samþykki beggja aðila og væri þá einhvers konar samningur milli Ríkisútvarpsins í hvaða formi sem það er og fulltrúa eigenda þess, þ.e. Alþingis sem fulltrúa þjóðarinnar, um tiltekinn tíma og síðan kæmu auðvitað á móti fyrirheit og loforð frá þinginu um fjárveitingar, ríkisframlag með einhverjum hætti gegn honum. Nú hefur þjónustusamningurinn hins vegar þá stöðu að vera aðeins fyrirheit. Það er óljóst um efndirnar, eins og ég rakti áðan, og í þjónustusamningnum eru hvergi nein loforð um stuðning frá menntamálaráðherra. Hann hefst á orðunum „Ríkisútvarpið skal“ og „Ríkisútvarpið á að“ og „Ríkisútvarpið verður“ o.s.frv. en það er hvergi getið um það sem menntamálaráðherra á að gera á móti.

Ég ætla aðeins, forseti, að fjalla um annan þátt, sem nýr er, og rifja e.t.v. aðeins upp umræður um þann þátt frá fyrri þingum og það er að nú erum við að fjalla um Ríkisútvarpið ohf. en ekki Ríkisútvarpið hf. Úr þessu hefur töluvert verið gert og meira að segja hefur því verið lýst að þar með sé rétt einhvers konar sáttarhönd til stjórnarandstöðunnar og annarra andmælenda eða gagnrýnenda þessa frumvarps, en í rauninni skiptir það ákaflega litlu máli. Það kemur líka fram í umsögnum, menn hafa fjallað um það, að hér sé í raun og veru um andlitslyftingu að ræða án þess að líkaminn hafi á nokkurn annan hátt breyst.

Við vitum forsögu málsins. Hér var bent á, vegna þrýstings reyndar, eða við vöktum a.m.k. málið í stjórnarandstöðunni, að það gæti verið þörf á að hafa ákvæði um opinber hlutafélög í hlutafélagalögum og við lögðum fram tillögu um það, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var 1. flutningsmaður tillögu um það í fyrra. Hæstv. viðskiptaráðherra lagði síðan fram útvatnaða tillögu, sína eigin og stjórnarinnar, um þetta og lokin urðu þau að samþykkt voru nokkur ákvæði um opinber hlutafélög í hlutafélagalögum og það er rétt að nota tækifærið og fara yfir þau.

Í 1. gr. hlutafélagalaganna er getið um það að opinber hlutafélög séu til og hver séu skilyrði þess að félag geti kallað sig opinbert hlutafélag, nefnilega það að hið opinbera eigi það að öllu leyti, einn eða fleiri hluthafar á þess vegum.

Í 63. gr. er ákvæði um að í stjórn opinbers hlutafélags skuli tryggja kynjahlutfall. Það verður reyndar fróðlegt að sjá og við þurfum öll að leggjast yfir það, annaðhvort í tengslum við þetta frumvarp eða síðar, hvernig á að gera það í kosningum á Alþingi. Það verður væntanlega að gera með samningum á milli flokkanna því að ekki er hægt að setja kvótareglur beinlínis um þá sem kosnir eru eins og venjulega á þinginu.

Í 67. gr. er ákvæði um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar eigi að gefa stjórninni skýrslu um eign sína í félögum. Skiptir það máli varðandi starf þeirra. Þessi ákvæði um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hafa verið í öllum þeim frumvörpum þremur sem hér hafa verið flutt og er nokkuð vel frá því gengið. Síðan er talað um að starfsreglur stjórnar skuli birta á vefnum.

Í 80. gr. er sagt að fulltrúar fjölmiðla geti sótt aðalfund opinbers hlutafélags og að kjörnir fulltrúar eigenda, þingmenn í þessu tilviki ef ríkið er eigandi, geti líka sótt þennan aðalfund og þeir hafi rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir. Það er að vísu ekkert um það að þeim þurfi að svara en þeir hafa rétt til þess. Þeir mega hins vegar ekki koma á hluthafafund, þeir hafa ekkert á hluthafafund að gera. Ef menntamálaráðherra vill halda fund með stjórninni og útvarpsstjóranum og taka þar ákvarðanir án þess að blaðamenn eða þingmenn séu að skipta sér af getur hún notfært sér hluthafafundinn þótt þingmenn komi á aðalfundinn með skriflegar fyrirspurnir.

Loks segir í 149. gr.: „Opinber hlutafélög skulu birta samþykktir félagsins á vef sínum ef til er en ella annars staðar á netinu.“ Þetta er allt um opinberu hlutafélögin sem meiri hlutinn samþykkti í fyrra og er ekki ýkja merkilegt. Í raun og veru breytir það nánast engu hvort um hf. eða ohf. er að ræða, vegna þess, eins og fram kom í nefndarálitinu, að þegar hefur verið fallist á að upplýsingalög gildi um þetta fyrirtæki. Ef þau giltu ekki gætu sum af þessum ákvæðum um opinber hlutafélög komið að gagni.

Þá erum við sennilega komin að hlutafélagsforminu sjálfu og þá er rétt að geta þess að í raun og veru hefur aldrei í þessari löngu umræðu verið svarað spurningum um það af hverju þessi áhersla er lögð á hlutafélagsformið.

Það er rétt að rifja það upp að í fyrra kröfðumst við þess að fá að sjá þá vinnu sem hlyti að hafa verið lögð í það hjá frumvarpshöfundum og flytjendum þess að gera sér grein fyrir breytingunni úr sameignarfélagi yfir í hlutafélag. Við fengum þá afhent minnisblað sem tveir frumhöfundar, Jón Sveinsson og Sigurbjörn Magnússon, voru skráðir fyrir og hafa útbúið, hinir mætustu menn. Ég fór í gegnum það minnisblað í ræðu í vor en í því var í raun og veru ekkert um það af hverju hlutafélagsformið hefði orðið fyrir valinu, nema það að allir þekki hlutafélagið svo vel, það sé svo þægilegt og hentugt form og menn kunni svo vel að vinna innan þess. Önnur form, þar á meðal sjálfseignarstofnunarformið, séu svo erfið. Það sé svo erfitt að semja slík lög, það sé svo snúið að skilgreina hvernig sjálfseignarstofnunin eigi að starfa, hver réttindi og skyldur stjórnar séu og hver hafi eftirlit með gerðum stjórnarinnar og hvernig staðið sé að félaginu að öðru leyti. Það er eins og þeir hafi gefist upp, þessir tveir höfundar og jafnframt þeir sem þáðu ráð þeirra, á að reyna sig nokkuð við þá erfiðleika. Í staðinn hafa þeir samið frumvarp, sem nú er búið að breyta sex sinnum, um einhvers konar hlutafélag, a.m.k. í síðari áföngum af þeim ferli. Aldrei hefur verið reynt að gera sér grein fyrir hvers konar sjálfseignarstofnun það gæti verið sem RÚV yrði færð til og hvaða kostir af þeim sem menn sjá við hlutafélagið gætu rúmast í sjálfseignarstofnuninni og hvaða galla hægt væri að sníða af.

Rökin um það að hlutafélag sé svo ágætt form — það sé svo vel þekkt og þar þurfi ekkert að skilgreina eða skýra út fyrir mönnum sem að því koma — eru ágæt ef menn væru þá með almennilegt hlutafélag í höndunum. Það er ekki. Það er ekki bara það að menn séu með opinber hlutafélög, sem eru auðvitað aðeins öðruvísi, heldur er búið að breyta þessu hreina hlutafélagi, sem var draumur einhverra manna að færa Ríkisútvarpið í, í hlutafélag sem ég segi ekki að sé nafnið tómt, vegna þess að það hefur auðvitað mikla möguleika, en það er ekki hlutafélag eins og menn þekkja af hlutafélagalögunum. Það er ekki þannig að hver maður gangi inn í hlutafélagið Ríkisútvarpið, sem hér er verið að reyna að mynda, og þekki vegna reynslu sinnar af öðrum hlutafélögum hvernig málum sé þar háttað sem eru helstu rökin á bak við hlutafélagsformið. Það er þannig að stjórnin er ekki kosin á eiginlegum aðalfundi heldur er það gervikosning. Hún er kosin á Alþingi einu sinni á ári. Eini hluthafinn í þessu hlutafélagi er ríkið og menntamálaráðherra fer með þann hlut þannig að þeir lýðræðiskostir sem fyrir hendi eru í löggjöfinni um hlutafélög nýtast ekki þarna, þó að þarna geti verið þingmenn, vissulega, og þeir lagt fram skriflegar fyrirspurnir, og blaðaljósmyndarar.

Það er ljóst að menntamálaráðherra gerir þjónustusamning við þetta fyrirtæki samkvæmt lögum, en ekki er vaninn að hlutafélög lúti slíkri skyldu. Hlutafélagið má ekki eiga í öðrum hlutafélögum, sem er einn aðalfídusinn, svo maður noti gott mál, með hlutafélögum. Það er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir að hægt sé að selja hlutafé eða auka það með öðru en ríkisframlagi. Síðan á að vera fjárhagslegur aðskilnaður í hlutafélaginu, annars vegar miðaður við almannaþjónustu og hins vegar við samkeppnisrekstur, hvernig sem þeirri skiptingu er háttað. Það eru komin upplýsingalög um þetta hlutafélag, þetta heppilega form sem allir vita hvernig er. Og nú síðast er ætlunin að þingið setji hlutafélaginu sérstakar reglur um auglýsingar og kostun þannig að með því á líka að hefta athafnarými og svigrúm þessa frábæra hlutafélags.

Maður spyr sig: Hvers konar hlutafélag er hér eftir, setji maður sig í stellingar hreinlífismanna í Sjálfstæðisflokknum og víðar? Svarið er: Það er ekki mikið eftir af hinu venjulega hlutafélagi. Hins vegar getur hlutafélagið þanið sig út á markaðnum eins og margoft hefur verið bent á, sérstaklega af öðrum aðilum sem telja ákveðna hættu í því. Síðan eru aðrir kostir við hlutafélagið fyrir þá sem hér um véla sem ég nefni síðar.

Eftir því sem sérákvæðunum um hlutafélagið fjölgar kemur betur og betur í ljós að alveg eins og Ríkisútvarpið er ekki venjuleg ríkisstofnun — við höfum sagt það, ýmsir stjórnarandstæðingar, að ef það ætti að halda því sem ríkisstofnun þyrfti að setja því ný lög og losa það þannig frá því að vera venjuleg ríkisstofnun — þá getur Ríkisútvarpið sem slíkt, ef það á að fá að vera ríkisútvarp, ekki verið venjulegt fyrirtæki, venjulegt hlutafélag í venjulegum samkeppnisrekstri með hið venjulega markmið um hagnað að leiðarljósi. Ríkisútvarpið þarf, hvað sem menn vilja gera úr því ef alvara er að baki, sérstakan lagaramma, sérstök starfsskilyrði og sérstakan rekstrargrundvöll. Það þarf að skilgreina ítarlega hvernig það á að starfa. Það stendur reyndar í minnisblaðinu um sjálfseignarfélagið hver réttindi og skyldur stjórnar eigi að vera, hver markmið hennar eigi að vera, hvernig eigi að hafa eftirlit með gerðum stjórnarinnar, hvert féð eigi að vera o.s.frv. Þess vegna eru rökin á minnisblaðinu og rök stjórnarliða gegn því að hugleiða sjálfseignarstofnun nánast orðin fáránleg. Þeir hafa sjálfir þurft að ganga í gegnum svo mikið ferli með hlutafélagshugmynd sína sem raun ber vitni.

Þá hugsar maður: Af hverju er þetta hlutafélag? Ég held að mín hugsun sé sú að niðurstaðan sé — ég segi nú ekki tilviljun, söguleg tilviljun — sögulegur arfur þeirrar harðlínustefnu sem ákveðnum kjarna í Sjálfstæðisflokknum tókst að nota til að knýja þetta fram. Markmiðin með stofnun Ríkisútvarpsins hf. og ohf. eru óljós eins og sést á hinum aumu skilgreiningum á hlutverki Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps. Þau eru það víð að aðrar útvarpsstöðvar gætu meira og minna rekið sig með litlum viðbótum sem almannaútvarp. Þar með er opið fyrir þá hugsun sem slegið hefur inn af og til í málflutningi og pólitískum grundvelli þeirra sem fylgt hafa frumvarpinu, að Ríkisútvarpið mætti nota til að fara í beina samkeppni við keppinauta á markaðnum, jafnvel óæskilega keppinauta á markaðnum, eins og maður hefur stundum haft veður af að forustumenn Sjálfstæðisflokksins finni.

Ég held að hér komi einnig til að það sem eftir er af hlutafélagsforminu hentar ágætlega sem dulbúningur fyrir rækilegt taumhald á þeirri stofnun, því fyrirtæki sem kemur út úr öllum þeim breytingum og þar sé fyrst og fremst um að ræða að halda pólitískum, jafnvel flokkspólitískum, ítökum og stjórnun í Ríkisútvarpinu. Mér virðist stefnt að því að allra síst megi hin nýja stofnun, hvað sem hún heitir og hver sem hún er, hafa það sjálfstæði sem okkur hinum finnst sjálfsagt að almannaútvarp hafi og sterkt er kveðið á um í Evrópureglum að sé skilyrði fyrir almannaútvarpi. Það er innbyggt í skilgreiningu á almannaútvarpi, þ.e. að hlutafélagið sé ekki eingöngu til þess, með orðum Péturs Blöndals, að vera fyrsta skref að því að selja útvarpið eða hluta þess heldur sé það líka til að ríkisstjórnarflokkarnir, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, geti haldið flokkspólitískum tökum sínum á fyrirtækinu.

Við höfum áður rakið hverjir gallar eru við hlutafélagsformið. Það er rétt að nota tækifærið og leiðrétta ákveðinn misskilning sem uppi hefur verið í nokkur missiri varðandi stuðning Páls Magnússonar útvarpsstjóra við frumvarpið. Hann hefur lýst yfir stuðningi við frumvarpið, það er ekki misskilningur, og hann hefur líka lýst stuðningi við breytingu á rekstrar- og eignarformi.

Þessi saga er merkileg og er ekki sögð til að afflytja orð Páls Magnússonar eða gera lítið úr honum, sem er merkilegur fjölmiðlamaður og að ýmsu leyti ágætur í sinni stöðu, heldur vegna þess að hún kennir okkur örlítið um þessi formsmál öllsömul. Páll Magnússon hefur skrifað greinar og verið með yfirlýsingar í fréttum og á fundum um stuðning sinn. Hann hefur hins vegar ekki skýrt opinberlega, þó að ég hafi t.d. hvatt hann til þess í greinum, með hvaða hætti hlutafélagsformið, sem hann þó styður með stuðningi sínum við frumvarpið, ætti að gagnast honum við breytingar á Ríkisútvarpinu.

Tækifærið gafst loks til þess í menntamálanefnd þegar Páll kom þangað — í eitt af þessum þremur skiptum, ég held að það hafi verið í fyrsta skiptið — að spyrja hann hvað hann vildi í raun, hvaða breytingum Páll vildi ná fram sem yllu þessum ákafa stuðningi hans við frumvarpið. Hann sagði að í raun skipti það hann litlu máli hvaða skammstöfun stæði á bak við nafn fyrirtækisins RÚV, hvað fyrirtækið héti og sagði að honum væri sama þó að það héti „RÚV KFUM“, ef það væri til í einhverjum lögum. Hann sagði að það sem hann væri einkum að leita eftir væri þrennt, eða fernt réttara sagt.

Í fyrsta lagi vildi hann finna lausn á þeim fjárhagsvanda sem væri að sliga stofnunina, þeim vanda sem hann og fleiri hafa kallað „innbyggðan vanda“. Þessi vinsælu orð höfum við rætt og krufið. Innbyggðan, á hvaða hátt? Þessi vandi er ekki innbyggður í lög eða nauðung vegna rekstrarformsins heldur felst vandinn í því að fjárveitingar með afnotagjaldi, sem hingað til hefur verið megintekjustofninn, er ákveðinn í menntamálaráðuneytinu og hjá ríkisstjórninni. Þær hafi ekki nægt fyrir útgjöldum. Fyrirskipanir ráðherra og þings eru að Ríkisútvarpið, síðasta hálfan annan áratug, skuli rekið með halla. Það þýðir að aðrar tekjur þarf að keyra upp og útgjaldahliðin er höfð eins mikil og hallaskipunin segir til um. Það er þessi innbyggði vandi. Hann er ekki innbyggður í rekstrarformið eða lögin heldur í vondar starfsvenjur og hirðuleysi valdamanna, þar á meðal á þinginu, um Ríkisútvarpið. Þetta var fyrsta krafa Páls Magnússonar.

Önnur var sú að starfs- og ábyrgðarskipting innan fyrirtækisins yrði skýr með því að yfirstjórninni væri breytt. Útvarpsráð væri afnumið í núverandi formi og þar væru ekki skipaðir menn á vegum stjórnmálaflokkanna sem sæju um dagskrárákvarðanir og þeir ættu ekki að hlutast til um ráðningar starfsfólks. Þessu eru reyndar flestir sammála. Ég hygg að í langflestum tillögum sem hafa komið fram um nýskipan Ríkisútvarpsins sé þetta skilyrði uppfyllt, að ráðningar og dagskrá séu faglegar ákvarðanir sem taka eigi í samræmi við stefnumótun sem fulltrúar ríkisstjórnar eða þings sem fulltrúar þjóðarinnar annist að einhverju leyti ásamt einhvers konar ráði þar sem almenningur geti haft sín áhrif.

Í þriðja lagi talaði hann um að ekki væri æskilegt að hafa skipurit stofnunarinnar í lögum og minntist sérstaklega á þá þrjá framkvæmdastjóra sem menntamálaráðherra skipar samkvæmt núverandi lögum. Öllum sem hafa komið nálægt þessari stofnun eða fyrirtæki er ljóst að þessar ráðstafanir í lögunum auka enn á lausung í stjórnun og rekstri. Í nútímanum að erum við smám saman að afnema mjög stranga deildaskiptingu og skipuritsákvarðanir í lögum. Við treystum því að þær ákvarðanir sé hægt að laga að þeim þörfum sem uppi eru hverju sinni þótt deila megi um og deilt hafi verið um það hversu langt eigi að ganga í hverju tilviki að því leyti. Flestir eru reyndar sammála þessu og tillögur sem fram hafa komið um nýskipan Ríkisútvarpsins gera flestar ráð fyrir að fellt slíkt niður úr lögunum eða að það standi ekki í nýjum lögum.

Í fjórða lagi talaði Páll um að Ríkisútvarpið gæti tekið þátt í samkeppni um fólk og kvartaði yfir kjarasamningum, ströngum ráðningarskilyrðum o.s.frv. Hann talaði þó ekki mjög bert um þetta og ég verð að segja að þó að ég hafi heyrt bæði hann og aðra tala í þessa átt áður þá hefur mér aldrei verið ljóst hvað það er nákvæmlega í kjarasamningum og ráðningarmálum á Ríkisútvarpinu sem menn vilja breyta.

Ég verð að segja fyrir mig að ég tel að sumu leyti eðlilegt fyrir fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið, fjölmiðlafyrirtæki, að starfsmannamál þar, ráðningarmál og kjör öll, taki mið af ástandinu á almennum markaði. Samhengið er þar vissulega fyrir hendi og leitast ætti við að gera kjarasamninga innan slíkrar stofnunar og hafa þann hátt á ráðningum að tiltölulega einfalt sé að bera saman við sams konar hluti á öðrum stöðvum og í öðrum fjölmiðlum. Á hinn bóginn erum við ekki að ræða um fjölmiðil meðal fjölmiðla, einhvern fjölmiðil sem ríkið á af tilviljun, heldur erum við, a.m.k. samkvæmt hugmyndum okkar samfylkingarmanna og stjórnarandstæðinga, að ræða um almannaútvarp, fjölmiðil í almannaþjónustu sem hagar dagskrá sinni á þann veg og hefur að markmiði að halda uppi slíkri þjónustu.

Það er eðlilegt að almannaútvarp sem með einum eða öðrum hætti er í eigu ríkisins eða stendur í skjóli þess, sem væri kannski betra orðalag um sjálfseignarstofnun, hagi kjarasamningum sínum og ráðningarmálum með tilliti til þess sem viðgengst í opinbera geiranum. Ég held að ef við ætlum að ræða þetta í einhverri alvöru þá ættum við að reyna að finna slíka leið. Ég held að æskilegast væri að ræða þau mál í rólegheitum við samtök starfsmanna, þau samtök sem til eru á Ríkisútvarpinu þegar. Þau eru nokkur. Og síðan væri rætt við heildarsamtökin BSRB og BHM.

Af því að hér horfir á mig, sljóum augum, hinn knái formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, þá er rétt að hann komi síðar í dag og skýri mér og þinginu frá þeim tilraunum sem gerðar hafa verið undanfarið til að ræða kjaramál og ráðningarmál við þau félög sem ég nefndi og við þá starfsmenn sem koma við sögu. Mitt hald er nefnilega það að þetta hafi aldrei verið reynt, að þetta hafi aldrei verið gert. Þegar ég tala við fólk hjá Ríkisútvarpinu segir það að mjög ofsagt sé um þá erfiðleika sem hljótist af því að gerðir séu kjarasamningar við opinbera starfsmenn, það sé mjög auðvelt að auka svigrúm stjórnenda eftir þeim óskum sem fram hafa komið. Það þurfi auðvitað að vega það og meta hverju sinni hvað því fylgi, með hvaða hætti laun eigi að hækka og hvernig það verði bætt en þetta sé allt hægt að gera innan núverandi ramma, meira að segja þess ramma að Ríkisútvarpið sé ríkisstofnun í B-hluta.

Ég vona að ég sé ekki að afflytja Pál eins og ég sagði áðan, ég tel mig ekki vera að gera það vegna þess að ég skrifaði þetta rækilega niður. Þetta fernt sagði Páll að hin nýja skipan þyrfti að uppfylla. Ég tel að hægt sé að gera það fyrir Pál með tiltölulega einföldum lagabreytingum á núverandi skipan. Ég tel líka að hugmyndir okkar í Samfylkingunni og reyndar fyrrverandi hugmyndir Framsóknarflokksins um sjálfseignarstofnun feli í sér að mjög auðvelt væri að uppfylla allar þessar kröfur hans, kannski ekki þær ýtrustu, t.d. í starfsmannamálum, en ef alls hófs er gætt væri hægt að uppfylla þær innan ramma sjálfseignarstofnunarinnar. Páll viðurkennir að lokum, þó að hann hafi tekið afstöðu með frumvarpi menntamálaráðherra, eða kannski tekið afstöðu með hæstv. menntamálaráðherra aðallega, að hf-dæmið á bak við nafnið Ríkisútvarp skipti hér engu máli.

Forseti. Það er liðið nokkuð á tímann og ég er búinn að vera lengi að. Ég ætlaði að ræða meira um hlutafélagsformið en ég ætla að fara hratt yfir þá sögu því að menn bíða eftir að komast að og ýmsir þeirra eru vel verseraðir í hlutafélagamálum. Hins vegar verð ég að segja að í umsögnum sem okkur hafa borist er hlutafélagsformið auðvitað eitt aðalstefið, og þá sérstaklega umsögnum frá fulltrúum atvinnurekstrarins, frá samtökum atvinnurekenda, frá Viðskiptaráðinu, frá keppinautum á þessum markaði, 365 og Skjánum. Þar er auðvitað talað um að hér sé hlutafélag á ferðinni, þrátt fyrir allar þær breytingar sem ég taldi upp áðan, meðmælendum hins fagra forms til háðungar, og bara það form taka þeir sem yfirlýsingu um samkeppni á næstunni og hafa í frammi jafnvel ýmis stóryrði um viðbrögð sín við því. Ég held þó að kannski merkasta umsögnin og sú nýjasta sé frá Samkeppniseftirlitinu. Þar er að vísu ekki minnst beinlínis á hluthafafélagsformið en þar er þó sá skilningur lagður í þetta frumvarp að verið sé að stofna fyrirtæki sem sé í beinni samkeppni við önnur fjölmiðlafyrirtæki og þar er ákaflega lítið mark tekið á yfirlýsingum um einhverja sérstöðu fyrirtækisins. Samkeppnisstofnun telur að samkvæmt frumvarpinu feli tekjuöflun Ríkisútvarpsins af nefskattinum í sér ríkisaðstoð í skilningi samkeppnislaga og um það eru, held ég, allir sammála að hún gerir það. Þeim tekjum á að verja til að standa straum af samkeppni, og nú vitna ég beint, með leyfi forseta, í umsögnina:

„… sem felst í skilgreindri útvarpsþjónustu í almannaþágu sbr. 3. gr. frumvarpsins. Sú skilgreining sem felst í 3. gr. nær yfir framleiðslu, dreifingu og útsendingu og m.a. hvers kyns fræðslu og afþreyingarefni auk fréttamiðlunar. Auk þess hvíla nánar tilgreindar skyldur á RÚV samkvæmt skilgreiningu 3. gr. frumvarpsins. Það er ekki hlutverk Samkeppniseftirlitsins að taka afstöðu til þess hvort þetta fyrirkomulag er í samræmi við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð.“

Samkeppnisstofnun leiðir síðan rök að því að þar sem Ríkisútvarpinu sé þar að auki heimilt að selja auglýsingar til birtingar í útvarpi og sjónvarpi keppi Ríkisútvarpið að sjálfsögðu við einkafyrirtæki í útvarpsrekstri á þessum mörkuðum, bæði um auglýsingar og kostun, og það geri það enn í þeim tillögum sem meiri hluti menntamálanefndar hefur lagt fram.

Síðan lýsir Samkeppniseftirlitið því að þar sem Ríkisútvarpið taki þátt í samkeppni á þessum markaði af fullum þrótti þá hafi það áhrif á dagskrárframboð þess, vinsælt dagskrárefni sé lykillinn að velgengni á mörkuðum fyrir sölu á auglýsingum í ljósvakamiðlum, segir Samkeppniseftirlitið. Það gerir svo heldur lítið úr rökum frumvarpsflytjandans með því að halda Ríkisútvarpinu að fullu á þessum markaði, ég ætla ekki að fara í gegnum það í sjálfu sér, en að lokum segir Samkeppniseftirlitið þetta, með leyfi forseta:

„Til að koma í veg fyrir þá samkeppnislegu mismunun sem af því leiðir að RÚV starfi á markaði fyrir birtingu auglýsinga og markaði fyrir kostun í frjálsri samkeppni við aðra aðila, jafnframt því að hafa tekjur af skattfé til að inna af hendi skilgreinda útvarpsþjónustu í almannaþágu, kemur tvennt til greina að mati Samkeppniseftirlitsins.“

Annars vegar þetta, með leyfi forseta:

„RÚV hverfi af auglýsingamarkaði og starfsemi þess verði alfarið kostuð af opinberum fjárframlögum. Er sú leið algeng meðal Evrópuríkja eins og fram kemur í skýringum með frumvarpinu.“

Hins vegar þetta, með leyfi forseta:

„Ef RÚV starfar á auglýsingamarkaði fari sú starfsemi fram á vegum sérstakrar hljóð- og sjónvarpsstöðvar eða -rása sem alfarið verði fjármagnaðar með auglýsingatekjum og kostun þannig að tryggt sé að þessi samkeppnisstarfsemi Ríkisútvarpsins verði ekki niðurgreidd með skattfé.“

Samkeppniseftirlitið tekur ekki að svo komnu máli afstöðu til þess hvora leiðina sé æskilegra að velja svo koma megi í veg fyrir framangreinda samkeppnislega mismunun, eða hvernig útfæra beri þær.“

Það gefur sem sagt þessa tvo kosti. Það er athyglisvert að þetta er í fyrsta sinn sem Samkeppniseftirlitið gefur umsögn um þetta mál. Hins vegar er það ekki í fyrsta sinn sem Samkeppniseftirlitið kemur við sögu þess því að Páll Gunnar Pálsson forstjóri kom á fund menntamálanefndar í vor. Hvað sagði hann þar? Hann gat þess sérstaklega að um Ríkisútvarpið kynnu að gilda ákvæði 11. gr. samkeppnislaganna um markaðsráðandi stöðu, ákvæði 14. gr. um fjárhagslegan aðskilnað og að samkvæmt samkeppnislögunum gæti Samkeppniseftirlitið gert meiri kröfur en ráðgert er að gera í ríkisútvarpslögunum, sérstaklega samkvæmt 16. gr. samkeppnislaga um skaðleg áhrif opinberra fyrirtækja í samkeppni.

Það er merkilegt að rifja þetta upp vegna þess að fyrr í dag var vitnað til Páls Gunnars Pálssonar á fundi menntamálanefndar nú, fundi sem ég gat því miður ekki sótt, missti af, en efast ekkert um að rétt er frá sagt, þar sem hann hafi svarað því til, aðspurður um hvað Samkeppniseftirlitið ætlaði að gera í málinu, að Samkeppniseftirlitið færi að lögum í þeim málum sem það kæmi nálægt og hér væri um sérlög að ræða sem væntanlega gengju framar almennum lögum.

Það má spyrja sig hvort Páll Gunnar Pálsson hafi þá ekki verið þessarar skoðunar þegar hann samdi umsögnina, sem send var 13. nóvember, og hvort hann hafi skipt um skoðun frá því í vor þegar hann kom á fund menntamálanefndar og tiltók þessar greinar. Það er kannski svolítið flókin spurning. Það er auðvitað svo að samkeppnislög byggja á efnisreglum Evrópuréttar. Ég hygg að það sé rétt ályktun að Samkeppniseftirlitið geti ekki ráðist að grundvallarákvörðunum í sérlögum eins og þeim sem hér er ætlunin að samþykkja og að Samkeppniseftirlitið hafi rétt til þess að krefjast aðgerða og skipa fyrir um ákveðnar aðgerðir innan ramma þessara sérlaga. Ég held t.d. að ef Samkeppniseftirlitinu sýndist gæti það, eins og Páll Gunnar Pálsson forstjóri þess sagði í vor, notað 14. gr. til að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað í tengslum við auglýsingar og kostun til þess að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið nýti sér ríkisstyrki til að skapa sér sérstakan samkeppnisávinning á auglýsingamarkaði eins og lýst er í umsögninni. Sérlög koma ekki í veg fyrir það að Samkeppniseftirlitið hafi ákveðið vald til að skipta sér af og til þess að skipa fyrir.

Hvað merkir þetta í stærri dráttum? Samkvæmt Evrópuréttinum er alveg ljóst að eftir Amsterdam-samkomulagið 1997 nýtur almannaútvarp — ríkisútvarp sem er almannaútvarp eða almannaútvarp sem er auðvitað vel hægt að hugsa án þess að það sé í beinni ríkiseigu, í ríkisskjóli eða með ríkisstuðningi að einhverju leyti — þá nýtur almannaútvarp þess að vera undantekning frá hinum hörðu samkeppnislögum og reglum Evrópusambandsins. Mig minnir að það sé orðað þannig að fyrirtæki með almenna efnahagslega þýðingu hafi sérstöðu. Það er orðað á þennan hulduhrútslega hátt vegna þess að Evrópusambandið er byggt á markaðsforsendum, það er í upphafi sínu og auðvitað í eðli sínu á mjög margan hátt samtök um frjálsan innri markað sem hófst, eins og við munum öll, upp úr síðari heimsstyrjöldinni með því að stál og kol voru gerð að innri markaði. Ég ætla ekki að fara lengra út í það þó að það væri fróðlegt, einkum fyrir hv. formann menntamálanefndar sem er mikill aðdáandi Evrópusambandsins og áhugamaður um það. Evrópusambandið hefur hins vegar haft þann háttinn á að þróast í nánara samstarf. Sú þróun ber iðulega þess merki að upphafið og rótin eru markaðsforsendur og tungutakið ber þess vegna ákveðinn viðskiptalegan keim. Þegar talað er um fyrirtæki eða stofnanir með almenna efnahagslega þýðingu þá er átt við það að almannaútvarp hafi væntanlega almenna efnahagslega þýðingu á þann hátt að það haldi samfélaginu saman, sjái um að þar sé friður og ró og þokkaleg sátt og sæla í samfélaginu og hafi þar með hina almennu efnahagslegu þýðingu fyrir fyrirtæki og aðila á markaði sem finna mætti í kennslubókum í viðskiptafræði og hagfræði.

Ég ætla ekki að rekja ríkisútvarpssöguna í Evrópuréttinum og innan Evrópusambandsins sem er merkilegt mál. Ólafur E. Friðriksson, fyrrverandi blaðamaður og sjónvarpsmaður, hefur skrifað um það ágæta ritgerð sem ég hef undir höndum og ég las í fyrra en hef ekki haft tækifæri til að koma hér almennilega til skila og ég ætla að geyma mér til 3. umr. að gera það.

Eftir Amsterdam-samþykktina 1997 sem var mikill samningur, einn af þessum stóru samningum sem Evrópusambandsríkin gerðu og fjallaði m.a. um þetta, um almannaútvarp, stendur nú yfir skeið þar sem verið er að reyna á þennan samning fyrir dómstólum, þar sem sem fyrirtækin á markaði eru að láta reyna á þolrifin í þessu gagnvart almannaútvarpinu, og við sjáum ekki alveg hvernig því lýkur. Ég held að það sé alveg ljóst að úrskurður Evrópusambandsins, og þar með sá grundvöllur sem samkeppnislög okkar og almannaútvarp okkar stendur á, ef það verður til eftir að þetta hefur verið samþykkt, fer eftir því hversu mjög það fyrirtæki eða sú stofnun sem um er rætt er almannaútvarp. Það verður mat þeirra sem um þetta eiga að véla gagnvart kærum sem fram koma, hvort þessi samkeppni geti talist eðlileg í ljósi þess almannaþjónustuhlutverks sem útvarpinu er falið eða hvort hún sé óeðlileg. Er ríkisvaldið beint eða óbeint með því að veita útvarpsstöð skjól að ráðast inn á markað sem einkum er samkeppnismarkaður?

Það er rétt að gera sér grein fyrir því að auðvitað er það þannig að skil milli almannaútvarps og samkeppnisútvarps eða markaðsútvarps er ekki auðdregin, þetta er lína sem hægt er að draga upp eins og litrófið og þess vegna er það dómstóla og úrskurðarmanna að dæma um það í hverju tilviki hvað sé almannaútvarp og hvað sé samkeppnisútvarp. Það er það sem hér mundi gerast ef kært yrði hér heima eða ef samkeppniseftirlitið skipti sér af og ríkið eða Ríkisútvarpið kærði þá ákvörðun þá mundi það koma til kasta dómstóla í Evrópu að úrskurða um það.

Þá kemur einmitt að þeirri kvörtun sem 365, Skjárinn, Samtök atvinnulífsins, viðskiptaráðið, fræðimenn og við í stjórnarandstöðunni höfum haft uppi, að skilgreiningarnar á almannaþjónustuhlutverki þess ríkisútvarps sem hér hefur verið reynt að breyta þrisvar sinnum eru ófullnægjandi og þess vegna eru þær beinlínis hættulegar. Eins og kom fram í andsvörum áðan er viðbúið að hér hefjist vegna þessara ófullnægjandi skilgreininga málaferli innan lands eða utan eða hvort tveggja sem geta veikt Ríkisútvarpið sem stofnun og gætu átt þátt í þróun sem endaði með ósköpum, hugsanlega sölu eða einkavæðingu eða einhverjum stórbreytingum sem t.d. Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að knýja fram á þeim nauðungarforsendum að okkur væri skipað það að utan, að Evrópa sætti sig ekki við Ríkisútvarpið og þess vegna þyrftum við að losa okkur við það.

Grundvöllur þessa er auðvitað sá, fyrir utan að almannaþjónustuhlutverkið er illa skilgreint, að Ríkisútvarpið heldur áfram ekki aðeins efnislegri samkeppni, sem getur verið holl og góð og er sjálfsögð, að Ríkisútvarpið sé í efnislegri samkeppni við aðrar útvarpsstöðvar — það er BBC í sínu góða landi og hefur ákveðna forustu fyrir útvarpsstöðvum þar og reyndar um allan heim með efnislegri samkeppni, með því að skara fram úr í ýmsum þeim þáttum sem standa næst almannaþjónustunni — heldur líka á beinum markaði um peninga fyrir auglýsingar og kostun. Eftir því sem Ríkisútvarpið er ágengara á þeim markaði eða hvaða stöð sem það er eftir því verða spurningarnar háværari um það hvort hér sé um að ræða samkeppnislega mismunun, hvort hér sé um ríkisstyrktan en venjulegan fjölmiðlarekstur að ræða. Við þessu vörum við m.a. og það er þessi mynd sem umsögn Samkeppniseftirlitsins í raun og veru dregur hér upp.

Ég er hér með umsagnir 365 og Skjás 1 um þetta. Þær eru fróðlegar og ég kannski kem að þeim í síðari ræðu minni í þessari umræðu ef aðrir hafa ekki rakið þetta áður. En það er athyglisvert í ljósi þessara tveggja umsagna og þeirra annarra sem ég nefndi að í fyrsta sinn í sögu þessara frumvarpa hér á kjörtímabilinu hafa stjórnarliðar vaknað gagnvart þeim vanda sem við er að fást um auglýsingar og kostun þó að við í stjórnarandstöðunni höfum frá fyrstu tíð vakið athygli á þessu og reyndar einkum við í Samfylkingunni að öðrum stjórnarandstæðingum algjörlega ólöstuðum, kannski vegna þess að við höfum verið að hugsa um málið frá öðrum sjónarhornum en venjulegt er.

Þetta var að vísu ekki mikið rætt í menntamálanefnd núna á þessu þingi og nánast ekki neitt enda voru ekki hafðar neinar umræður í menntamálanefndinni fyrr en á síðasta degi, heldur brá svo við að eina helgina voru miklar fréttir í blöðum um að nú ætlaði meiri hluti menntamálanefndar — reyndar var nú látið eins og það væri menntamálanefnd öll. Ég var svolítið hissa, ég var þá að koma úr ferð út fyrir bæinn og reyndar út fyrir landsteina, stuttri, og hélt að Sigurður Kári Kristjánsson, hv. formaður menntamálanefndar, hefði gert stjórnarbyltingu meðan ég var fjarri og þótti það viðeigandi en það var nú ekki alveg svo gróft. En það var hins vegar að þessa helgi var mikil látið með það og mikill spenningur í kringum það á fjölmiðlunum að nú ætti nánast að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði og mér fannst það nú kannski fullmikið gert, það væri kannski hægt að byrja aðeins hægar. En það var nokkuð látið með þetta að það yrðu miklar takmarkanir og það var rakið hvernig væri hægt að gera þetta, en til þess væru þrjár aðferðir.

Það var síðan ekki fyrr en á lokafundi nefndarinnar þegar ljóst var að málið yrði tekið út að meiri hluti nefndarinnar kom með tillögur um þetta mál í fyrsta sinn. Þess skal getið að það er í fyrsta sinn sem tillögur hafa verið gerðar um það á Alþingi, þeir mega eiga það. Þær tillögur voru hvernig? Jú, annars vegar var tillaga um að látið yrði undan þeirri kröfu frá keppinautunum, bæði hinum hefðbundnu fjölmiðlum og öðrum keppinautum, að ekki yrðu auglýsingar á vefsetri Ríkisútvarpsins. Það hefur reyndar ekki verið, þannig að það er engin breyting, auglýsingar voru hafnar þar að einhverju leyti en eftir kæru fyrirtækis sem heitir eða hét — mér er ekki alveg kunnugt um afdrif þess fyrirtækis — sem hét tunga.is á Evrópuvettvangi þá var þessu snarlega hætt þar sem ekki var heimild fyrir því í lögum. Þá heimild átti að gefa hér og það var klárlega að því stefnt að hún yrði gefin. En meiri hlutinn fann sem sé út að þetta ætti ekki að gera. Ég hef ekki athugasemdir við það. Hins vegar má auðvitað benda á að margt er að gerast á þessum vettvangi, tækninni fleygir fram og því kann að vera að fleira verði til umræðu á næstu missirum og ég tala nú ekki um áratugum en eingöngu fréttavefir af því tagi sem um er að ræða. Þetta var svona heldur smærra, því þetta breytir engu sem sé en takmarkar þó að ákveðnu leyti möguleika Ríkisútvarpsins til framsóknar á þessum vettvangi.

Hin tillagan var öllu merkilegri og það var hin mikla takmörkun á auglýsinga- og kostunartekjum Ríkisútvarpsins ohf., en hún gekk út á það að kostun — þegar búið var að fá skýringar á verulega flóknu orðalagi í breytingartillögunni — að kostun ætti ekki að verða meiri í Ríkisútvarpinu ohf., hærra hlutfall af auglýsingatekjum en nú væri, eða réttara sagt heldur en yrði árið 2006. Þetta var nú músin sem fíllinn fæddi eftir þessa jóðsótt um heila helgi. Takmarkanirnar voru sem sé engar en kostunarhlutfallið var sett sem einhvers konar fasti.

Nú er að vísu margt við þetta að athuga í smáatriðum sínum. Í fyrsta lagi að miðað er við kostunarhlutfall árið 2006, en það ár er sem kunnugt er ekki liðið þannig að menn vita ekki nákvæmlega hvað út úr því kemur en það er einungis byggt á þeirri lauslegu umsögn, hygg ég, Páls Magnússonar að síðustu ár hafi kostun verið u.þ.b. 10% af auglýsingatekjum. Ég held líka að þegar menn fara að skoða málið geti orðið erfitt að greina á milli þess sem er kostun og þess sem er auglýsing, hreinlega að flokka þetta. Ef ég hefði verið í meiri hlutanum hefði ég gengið betur frá því máli.

Ég nefni t.d. veðurfréttir en báðar stöðvarnar sem hér eru sýna veðurfréttir. Þar eru fyrirtæki sem birta stutta kynningu eða auglýsingu á undan og eftir. Er það kostun eða er það auglýsing? Það væri kostun ef samningurinn heitir kostunarsamningur um það að fyrirtækið Kóka kóla eða Tryggingamiðstöðin ætli að kosta veðurfréttirnar í svo og svo langan tíma, en það væri hins vegar auglýsingarsamningur ef fyrirtækið Kóka kóla eða Tryggingamiðstöðin ákvæðu að auglýsa alltaf á undan og eftir veðurfréttum í þetta og þetta marga mánuði eða ár, þannig að hér getur nú verið mjótt á munum.

Aðalathugasemdin er þó ekki tæknilegs eðlis af þessu tagi heldur ósköp einfaldlega sú að markmiðið er alls ekki ljóst. Það er alveg klárt að þetta takmarkar ekki heildartekjurnar því að það er aðeins um hlutfallið sem hér er að ræða og það er ekkert sem takmarkar heildartekjurnar, ekki heldur sú rekstraráætlun sem hér liggur fyrir þó að hún geri ráð fyrir því að þær aukist ekki nema um þetta eina prósent á ári, ef ég hef skilið þessa reikninga rétt — en rifja má upp að ekki gafst tími til þess að fá á þeim almennilegar skýringar í menntamálanefnd því að það lá svo mikið á að koma málinu í gegn — heldur er þá væntanlega þessari tillögu beint gegn kostun sem slíkri af því að hún sé vond. Og ef hún er vond þá er hún sem sé ekki nógu vond til þess að afnema hana alveg, sem hefði þó verið mannsbragð að, heldur á hún að vera einhvers konar hlutfall af auglýsingatekjunum þannig að ef auglýsingatekjurnar aukast þá eykst kostunin líka, ef auglýsingatekjurnar minnka á kostunin líka að minnka. Í þessu er nú ekki ákaflega mikið vit.

Er kostun vond? Eins og við segjum í nefndarálitinu hafa ýmsir gagnrýnt kostun sem aðferð við kynningu á vörum og þjónustu en ég hygg að kostun sé aðeins ein af þeim aðferðum sem beitt er í þessu skyni og þurfi ekki að vera í sjálfu sér verri en aðrar. Það eru hins vegar til ákaflega vondar gerðir af kostun. Það er til dæmis sú kostun sem blandast saman við dagskrárgerð. Það er það sem Ríkisútvarpið hefur gert sig sekt um undir núverandi stjórn og við skulum segja bara fyrr og síðar. Það er þó ekki neinn arfur útvarpsins sem betur fer eða hefð, að þættir séu nánast gerðir út af einhverju fyrirtæki eða í kringum einhverja vöru, þættir séu sendir út t.d. á Rás 2 úr höfuðstöðvum einhvers þjónustufyrirtækis eða vöruseljanda og byggist á því að ræða við starfsmenn, forsvarsmenn og neytendur í því fyrirtæki sem er þá í raun og veru samfelld auglýsing fyrir fyrirtækið eða byggt á einhvers konar svokölluðum gjöfum sem auðvitað eru ekkert annað en hreinar duldar auglýsingar, afgreiddar sem kostun. Þetta er vond aðferð við kostun.

Jákvæð kostun — við skulum ekki segja jákvæð en algjörlega saklaus kostun og sjálfsögð að mér þykir er sú t.d. þegar nokkur stórfyrirtæki eða fyrirtæki smá og stór taka sig saman um að hjálpa til við að opna tækifæri fyrir sendingar hér sem annars væri erfitt að annast, við skulum segja sendingar Ólympíuleikanna eða menningarlega stórviðburði heima og erlendis. Ég hef ekkert á móti því að fyrirtæki hjálpi til við það og taki það af því ráðstöfunarfé sem þau hafa til þess, sem maður veit nú aldrei hvort er menningarlegur stórhugur eða meintur ímyndarauki og hækkun á svokölluðum góðvilja hjá fyrirtækjunum. Ekkert er getið um það í þessari tillögu til hvorrar kostunargerðarinnar þetta taki þó að fögur orð séu höfð uppi í nefndaráliti meiri hlutans um sinfóníutónleika og hvað eina sem skuli njóta kostunarfjárins. Ég verð því að viðurkenna að niðurstaða mín um tillögur meiri hlutans um auglýsingar og kostun er sú að á slíkri hugsun hafi verið mikil þörf en niðurstaðan hafi verið algjörlega misheppnuð, í raun og veru sé verr af stað farið en heima setið með þessum tillögum. Ég geri hins vegar ráð fyrir að við munum ekki taka afstöðu til þeirra í atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umr. vegna þess að eins og kemur fram í nefndarálitinu vil ég láta vísa málinu frá að öllu leyti. Það er ekki hægt að taka þessi auglýsinga- og kostunarmál út úr samhengi. Þau hafa hlutverki að gegna fyrir Ríkisútvarpið en það hlutverk lítur allt öðruvísi út eftir því hvort um er að ræða samkeppnisfyrirtæki eða almannafyrirtæki.

Ég held, forseti, að þó ég hafi úr miklu að moða þá noti ég þann klukknaslátt sem nú hljómar á Dómkirkjunni til þess að ljúka ræðu minni í bili. Ég vil þó segja áður en ég gefst upp í þetta sinn að andstaða okkar stjórnarandstæðinga við þetta frumvarp er mjög skýr og hefur lengi verið. Það er reynt að draga úr efnisatriðum andstöðu okkar vegna þess að það hentar stjórnarmeirihlutanum og menntamálaráðherra að láta eins og við séum hér með þrákelkni og þrjósku en við höfum í raun og veru frá upphafi gert nokkrar athugasemdir. Á blaðamannafundi í morgun lýsti Samfylkingin því svo — ég hygg að aðrir stjórnarandstæðingar séu því sammála — að í fyrsta lagi séum við á móti hlutafélagsforminu vegna þess að það greiði leið að einkavæðingu Ríkisútvarpsins í heild eða að hluta og hlutafélagsformið henti starfsemi almannaútvarps í raun og veru mjög illa og skemmi fyrir þeirri starfsemi.

Í öðru lagi sé óljóst um hlutverk nýja fyrirtækisins, skilgreiningarnar á hlutverki Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps séu óljósar og gefi því undir fótinn að hlutafélaginu sé með aðstoð ríkisstyrks ætlað að keppa á samkeppnismarkaði við aðrar útvarpsstöðvar sem sennilega leiðir til áframhaldandi deilna og málaferla.

Í þriðja lagi spyrnum við við fæti því að það er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnarmeirihluti í nýju Ríkisútvarpi ráði útvarpsstjóra og reki að vild og þannig sé fyrirtækið áfram undirselt flokkspólitískum afskiptum og inngripum ef valdhöfum þykir þörf.

Í fjórða lagi sé nefskattur óheppileg leið til tekjuöflunar fyrir Ríkisútvarpið og ekki líklegur til að efla samstöðuna.

Í fimmta lagi séu réttindi starfsmanna ekki tryggð með þeim hætti sem vera ætti í almannaútvarpi sem ríkisvaldið ber ábyrgð á.

Við samfylkingarmenn höfum lýst stöðu okkar, gerðum það á blaðamannafundi í morgun, og þó að ég sé hér framsögumaður sameinaðrar stjórnarandstöðu í menntamálanefnd leyfi ég mér að fara líka með fimm atriði úr því. Það er ekki víst að Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn séu því sammála að öllu leyti og ég geri ráð fyrir að svo sé ekki. Áherslumunur milli þessara flokka er vel kunnur í þessu máli en við höfum líka látið fylgja þeim lýsingum að við teljum ekki mikið mál að jafna þann ágreining ef ágreining skyldi kalla.

Við í Samfylkingunni höfum lagt til og leggjum til að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi gæti kosið eins og gert er ráð fyrir í núverandi frumvarpi — þó ekki til eins árs í senn eins og þar er gert ráð fyrir með því að skopstæla hlutafélagalög — en til þess að tryggja að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í þeirri stjórn eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins þar fulltrúa sem hindra sjálfkrafa meirihlutamyndun í stjórninni.

Við viljum líka að almenningur og samtök hans eigi aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstilli einhvers ráðs sem við leyfðum okkur í morgun að kalla hlustendaþing og gæti komið saman einu sinni á ári. Því ráði verði falið ákveðið hlutverk, t.d. það sem ég nefndi áðan, að samþykkja þjónustusamning. Það mætti hugsa sér líka að ráðning útvarpsstjóra verði borin undir þetta ráð. Útvarpsráð í núverandi formi verði hins vegar lagt niður og pólitísk afskipti af innri málefnum afnumin með öllu. Af innri málefnum, segi ég hér, vegna þess að það er að sjálfsögðu hlutverk stjórnmálamanna að annast stefnumótun til langs tíma.

Í þriðja lagi að fjármögnun Ríkisútvarpsins verði blönduð, annars vegar með ríkisframlagi sem má hugsa sér með ýmsum hætti en hins vegar auglýsingatekjum sem verði þó takmarkaðar og við leggjum til að þær verði takmarkaðar þannig að þær verði ekki meiri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins hverju sinni.

Í fjórða lagi leggjum við mikla áherslu á almannaútvarpshlutverk Ríkisútvarpsins og lýsum því í nokkrum orðum í því úthendi sem dreift var á fundinum í morgun.

Í fimmta lagi nefnum við sérstaklega að sjálft Ríkisútvarpið verði að vera sjálfstætt, það verði að vera óháð bæði stjórnmálahagsmunum og viðskiptahagsmunum. Starfsmenn verði að búa raunverulegt ritstjórnarlegt sjálfstæði og það verði að sjá til þess að afar skýr aðgreining verði mörkuð í dagskrá Ríkisútvarpsins milli dagskrárgerðar og auglýsinga og þar með komið í veg fyrir vonda kostun eins og ég var að tala um áðan. Við setjum þetta fram undir fyrirsögninni „Sjálfstætt öflugt almannaútvarp“ sem lýsir nokkurn veginn þeirri hugmynd sem hér er uppi.

Vera kann að menn reki augun í að við gerum ráð fyrir að Ríkisútvarpið haldi áfram að hafa tekjur af auglýsingum og kostun og ég hygg að það sé almennt álit meðal stjórnarandstæðinga, það séu fáir svo harðir að þeir vilji afnema þá hefð að sinni að Ríkisútvarpið sé með auglýsingar og þess vegna kostun, góðu kostunina eða skárri kostunina, hlutlausu kostunina eða hvað við viljum kalla hana. Eins og ég sagði er það í fyrsta lagi vegna þess að fyrir því ákveðin hefð og auglýsingamarkaðurinn mótast auðvitað af því að vissu leyti. Þess vegna yrði breyting af því tagi að taka Ríkisútvarpið algjörlega út af þessum markaði að fara fram í áföngum og á löngum tíma. En það er líka vegna þess að vel má líta á a.m.k. tiltekna gerð auglýsinga og jafnvel kostunar sem þjónustu við þann almenning sem almannaútvarpið er búið til fyrir.

Þá er spurt að því: Eiga athugasemdir samkeppniseftirlitsins og annarra aðila ekki við um ykkur? Jú, þær eiga það að vissu leyti en það sem við gerum er að í fyrsta lagi þá takmörkum við þessar tekjur. Við takmörkum þær sem hlutfall af heildartekjum þannig að það er bein yfirlýsing um að Ríkisútvarpið ætli sér þennan hlut af þessum markaði en ekki stærri hlut. Það er sem sé sú grimmilega samkeppni sem Ríkisútvarpinu hefur verið att út í síðustu árin, a.m.k. áratuginn frá 1994 þegar flest stóð í blóma hjá Ríkisútvarpinu og fram að árinu sem nú er að líða, 2006, að þessi sókn og samkeppni á auglýsingamarkaði verði takmörkuð. Hins vegar verði Ríkisútvarpið raunverulegt almannaútvarp sem þýðir það gagnvart Evrópuréttinum að því er stætt á því að heimta inn hluta af tekjum sínum með sama hætti og fjölmörg svipuð fyrirtæki í Evrópusambandinu gera.

Forseti. Ég hef nú kynnt nefndarálit okkar, fjallað um aðeins nokkur og í raun og veru örfá af þeim atriðum sem væru þess virði að ræða í 2. umr. En vegna samkomulags er tíminn takmarkaður og sýnilega verður þunginn í umræðunni um Ríkisútvarpið ohf. í 3. umr. en ekki 2., ef af 3. umr. verður. Lýk ég hér með máli mínu.