133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:26]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var fróðleg yfirferð hv. þingmanns á sögu Framsóknarflokksins í málinu sem hefur verið síbreytileg og fjölbreytt. Þó er nauðsynlegt að fá skýringar hjá hv. þingmanni varðandi sannfæringarkraftinn um að þetta væri allt í samræmi við margrómaða stefnu flokksins í málinu og nú væri verið að efla Ríkisútvarpið sem almannaútvarp og hlutafélagavæðingin væri sem sagt hluti af þeirri leið.

Ég vil vekja athygli á að nokkrir áhrifamenn í Framsóknarflokknum hafa haft uppi aðrar skoðanir. Við þekkjum það vel í þessum sölum að Kristinn H. Gunnarsson hefur lengi haft það en nú fyrir ekki mörgum vikum síðan fékk Kristinn bandamann úr nokkuð óvæntri átt þar sem Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi með meiru, kom fram á sjónarsviðið og fór yfir málið út frá sjónarhorni að því er hann taldi meiri hluta framsóknarmanna.

Björn Ingi sagði meðal annars sem er lykilspurning og ég verð að biðja hv. þingmann um að svara þeirri spurningu, en Björn Ingi sagði: „Hvers vegna hlutafélag ef ekki á að selja?“ Ég á ekki svar við þeirri spurningu, því væri fróðlegt ef hv. þingmaður gæti svarað henni.

Björn Ingi sagði líka: „Ég er bara algerlega sammála því að ég telji ekki ástæðu til að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið“ og bætti síðan við: „Ég reyndar tel að meiri hluti flokksmanna sé á móti því að það verði hlutafélagavætt.“ Hér er talað mjög skýrt og eðlilega út frá spurningunni: Hvers vegna hlutafélag ef ekki á að selja? Það er auðvitað reynslan sem segir okkur að það er fyrsta skrefið til að selja.

Ég mun hins vegar í þessu andsvari ekki hafa fleiri spurningar svo að hv. þingmaður hafi nægan tíma til að svara henni.