133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:28]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að svara fyrir Björn Inga og skoðanir hans. Ég get hins vegar lýst skoðunum mínum og þeirra flokksmanna sem ég þekki til og fór yfir það áðan að að baki þeirri ályktun sem er í gildi hjá okkur núna varðandi stefnu Ríkisútvarpið lá mikil og vönduð vinna. Ég man ekki betur en Björn Ingi Hrafnsson hafi tekið þátt í þeirri vinnu en hann leiðréttir mig þá síðar ef svo var ekki. En ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt. Hraða ber endurskoðun laga um Ríkisútvarpið þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verður endurskilgreint og mið tekið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði.“

Við erum að koma til móts við þetta allt. Það sem mér finnst mikilvægt í þessu tilliti er að við erum í flokki þar sem mismunandi skoðanir leyfast og það hafa ekki margar raddir verið uppi um að við séum ekki á réttri leið. Ég vil ítreka sem ég sagði áðan að málið var tekið upp á miðstjórnarfundi sem haldinn var fyrir örfáum vikum og þar talaði einn ræðumaður um að álykta gegn þessu máli. Hins vegar tók enginn fundarmanna undir það. Ef grasrótin er á móti þessu máli kom það alla vega ekki fram á þeim miðstjórnarfundi, þar sem grasrótin situr. Því vísa ég þessu til föðurhúsanna og segi það hér að við framsóknarmenn stöndum við málið.