133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:30]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Því miður var ekki hægt að fá svör við þessari lykilspurningu. Út af fyrir sig er ekki hægt að ætlast til að hv. þingmaður geti svarað henni öðruvísi en við gerum flest. Það er auðvitað engin ástæða til að fara með stofnunina yfir í hlutafélag ef ekki á að selja hana.

Upplestur hv. þingmanns var athyglisverður. Þar kom hvergi fram, ef ég heyrði rétt, að á hinum merka fundi Framsóknarflokksins hafi verið samþykkt að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Ég heyrði að rætt var um að skoða mismunandi leiðir en það var hvergi samþykkt að skipta um stefnu frá því sem áður var stefnan, sem hljóðaði svo að ekki ætti að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Mér sýnist, því miður fyrir hönd Framsóknarflokksins, að þingflokkurinn sé, eins og sumir hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi lýst, enn einu sinni kominn í andstöðu við meiri hluta flokksmanna. Það boðar ekki gott en við sjáum væntanlega á vordögum hvaða afleiðingar það hefur.