133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:32]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég trúi hv. þingmanni þegar hún segist ekki vilja selja Ríkisútvarpið. Ég trúi henni líka þegar hún segir að hún haldi að Ríkisútvarpið verði ekki selt. Ég held að það sé hins vegar bernska eða glapsýni að telja að sú hætta sé einangruð við sölunefnd Ríkisútvarpsins á þinginu, þá þrjá ágætu og háttvirtu þingmenn Pétur Blöndal, Birgi Ármannsson og formann menntamálanefndar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson.

Sú skoðun er í fyrsta lagi miklu víðtækari í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þótt að minnsta kosti þessir þrír séu svo heiðarlegir að halda henni fram í sérstöku frumvarpi. Í öðru lagi held ég að sú þróun sem nú er að verða, sem við sjáum ágætlega á áliti Samkeppniseftirlitsins, standi til þess að staða Ríkisútvarpsins verði þrengri og erfiðari sem, a.m.k. að nafninu til, almannaútvarps og hlutafélags í eigu ríkisins.

Það sem ég vildi spyrja þingmanninn um er það í ræðu hennar sem laut að hinum sterku ríkisfjölmiðlum. Hún taldi upp ýmsa þætti sem Ríkisútvarpið ætti að vera gætt að sínu leyti en ég saknaði þess að hún talaði um sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég spyr hvort það hugtak sé með í stefnu Framsóknarflokksins annaðhvort fyrr eða síðar. En sú stefna virðist hafa breyst töluvert á stuttum tíma. Hvað um sjálfstæði Ríkisútvarpsins? Telur hún að Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfstætt og hvernig er því fyrirkomið í hinu ágæta frumvarpi, að því hún telur, sem hún styður á þinginu?