133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:37]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Merði Árnasyni um að við komumst ekki mikið lengra með 1. gr. Við erum einfaldlega ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að það sem þar stendur sé mjög skýrt, og það standi, þ.e. að menn fari ekki gegn því.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það þarf einfaldan meiri hluta hér á Alþingi til að selja Ríkisútvarpið. Í dag þarf einungis heimildargrein á fjárlögum til þess að selja Ríkisútvarpið. En ég tel að við eigum að ganga lengra en gert er í dag með því að festa Ríkisútvarpið í sessi og með því að láta í ljós þann vilja Alþingis að Ríkisútvarpið sé ekki til sölu.

Þetta, eins og ég sagði áðan, tel ég í rauninni stóra málið. Það er endalaust hægt að tala um önnur atriði. En það að við samþykkjum hér að standa vörð um Ríkisútvarpið er grundvallarmál að mínu mati.