133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:38]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég vildi spyrja hana að tvennu. Hv. þingmaður nefndi áðan að frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. væri m.a. lagt fram til þess að auka sjálfstæði Ríkisútvarpsins.

Ég held að það sé nokkuð almenn og útbreidd skoðun að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina viðhaft mikinn yfirgang gagnvart Ríkisútvarpinu. Þar hafa a.m.k. á köflum tíðkast áhlaup að því að viðhafa pólitíska stjórnun, hvort sem það hefur tekist eða ekki, vonandi sjaldan. En pólitískt kverkatak Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu og tilraunir flokksins til að viðhalda því eru alþekktar.

Gott væri ef það reyndist satt að þetta frumvarp væri til að aflétta því kverkataki. Ég held að svo sé ekki þar sem að Alþingi og meiri hlutinn á Alþingi mun árlega kjósa hlutafélaginu stjórn. Ég held að pólitíska kverkatakið herðist ef eitthvað er. Ég held að eftir þessa lagabreytingu aukist pólitísk íhlutun meiri hlutans á Alþingi hverju sinni og jafnvel talsvert. Það er a.m.k. hætta á að svo fari.

Heppilegra hefði t.d. verið að kjósa stjórnina til fimm ára í senn eða hluta hennar árlega. Menn sætu þar um eitthvað árabil og það væri ekki háð meiri hlutanum á hverju ári. Að öðrum kosti er sú pólitíska svipa yfir hausamótunum á stjórninni að mönnum verði skipt út að ári ef þeir standa sig ekki o.s.frv.

Ég spyr hv. þingmann, af því að hún gerði þetta að umtalsefni áðan, hvort ekki hefði verið heppilega að fara aðrar leiðir til aflétta pólitísku kverkataki stjórnvalda á hverjum tíma af stofnuninni, kverkataki sem hefur á köflum verið beitt í gegnum tíðina.