133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:43]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að mér þætti mikilvægt að við settum þær skorður sem meiri hluti menntamálanefndar leggur til, þ.e. að Ríkisútvarpið geti ekki haldið áfram útrás í kostun og eins með því að auglýsa á vef. Hins vegar eru afnotagjöldin núna rúmlega 70% af rekstrartekjum RÚV. Tæplega 30% tekna eru auglýsingatekjur, kostunartekjur og ýmsar tekjur.

Slíkt hlutfall auglýsingatekna, samkvæmt mínum upplýsingum, er í fullkomnu samræmi við það sem gengur og gerist meðal ríkisfjölmiðla í Evrópu. Ég tel að við göngum nógu langt að því leyti. Ég er ekki tilbúin að draga RÚV út af auglýsingamarkaði, eins og margir eru. Ég tel að þakið sem við setjum t.d. varðandi kostun og það að banna auglýsingar á netinu nægi fullkomlega að sinni.