133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:44]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta mál, frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. nú við 2. umr. um málið í desember 2006. Ástæða þess að ég tíunda það að við séum stödd hér í desember 2006 er sú að síðast þegar ég talaði í þessu máli var 23. janúar 2006. Það segir auðvitað sína sögu um málið að við skulum enn vera að ræða það hér í þingsölum og ekki bara það að við séum enn að ræða málið heldur hefur það komið hér inn í þingið og verið mælt fyrir því þrisvar sinnum og hér hafa verið til umfjöllunar í þinginu að minnsta kosti fimm mismunandi útgáfur af þessu máli. Þetta segir okkur að þegar málið kom fyrst inn í þingið var það ekki svipur hjá sjón. Þá var það algjörlega vanbúið til að koma til umfjöllunar í þinginu. Síðan hafa menn kappkostað að reyna að gera á því þær lagfæringar sem nauðsynlegar voru til þess að koma einhverri mynd á málið. En það breytir ekki því að enn er það vanbúið, enn er það svo gallað að ekki er ráðlegt að afgreiða það héðan frá Alþingi. Nú bíður málið að vísu 3. umr. í janúar og þá gefst ákveðið svigrúm, ákveðið ráðrúm til þess að hugleiða þessi mál og við skulum vona að það verði notað vel.

Það sem ég ætla að tala hér um núna er kannski að einhverju leyti það sama og ég talaði um í janúar, 23. janúar nánar tiltekið, 2006, þegar ég talaði hér síðast í þessu máli. Ég ætla að tala um meginlínurnar í málinu. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði frumvarpsins. Ég ætla að tala um meginlínurnar og ég ætla að fara aðeins yfir þau faglegu og rekstrarlegu rök sem mæla gegn frumvarpinu eins og það lítur út núna.

Í fyrsta lagi ætla ég aðeins að tala um rekstrarformið rétt eins og ég gerði þann 23. janúar 2006. Ég er enn þeirrar skoðunar sem ég var þá, að hlutafélagaformið sé ekki skynsamlegt form fyrir Ríkisútvarpið sem almannaþjónustuútvarp, sem fyrirtæki sem hefur víðtækum skyldum að gegna og gegnir hlutverki sem er umfram það sem gildir almennt um fyrirtæki og félög á fjölmiðlamarkaði. Ég er enn þeirrar skoðunar sem ég var þá að skynsamlegra sé að velja Ríkisútvarpinu form sjálfseignarstofnunar og ég ætla að fara aðeins yfir það aftur að ég er þessarar skoðunar.

Í fyrsta lagi: Af hverju er verið að velja Ríkisútvarpinu hlutafélagaformið? Það hefur komið fram hér í máli þingmanna, meðal annars í máli hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, sem hér talaði áðan, að það væri til þess að skapa Ríkisútvarpinu ákveðið svigrúm á þeim fjölmiðlamarkaði sem það starfar á við þær breyttu aðstæður sem þar hafa orðið á undanförnum árum. Mörgum finnst að opinberum rekstri sé of þröngur stakkur skorinn. Þetta heyrum við ekki bara sagt um Ríkisútvarpið. Við heyrum þetta sagt um ýmsar mikilvægar og merkar ríkisstofnanir sem hafa verið reknar í því formi í áratugi. Ég get nefnt Háskóla Íslands í því sambandi. Það hefur oft heyrst að Háskóla Íslands finnist að sér sé of þröngur stakkur skorinn í starfsemi sinni á þeim markaði sem hann er núna þar sem komnir eru upp sjálfstæðir skólar í eigu einkaaðila sem keppa við Háskóla Íslands, þ.e. að samkeppnisstaða Háskólans sé að verða erfið við þær aðstæður. Það má færa sömu rök fram varðandi Ríkisútvarpið. Margir stjórnendur vilja komast út úr ríkisrekstrinum og þá verður mönnum helst til að nefna hlutafélagaformið vegna þess að það er þekkt rekstrarform. Það er komin heilmikil reynsla á það. Til eru skýr lög um hlutafélög og mikil reynsla er af því rekstrarformi. Ég hjó eftir því einmitt að þetta voru þau rök sem hæstv. menntamálaráðherra notaði í Ríkisútvarpinu í hádegisfréttunum í dag þegar hún spurði af hverju 90–95% fyrirtækja veldu hlutafélagaformið. Jú, það er vegna þess að það er þekkt form sem byggir á lögum og reynslu og þess vegna velja flest fyrirtæki þetta form.

Þetta er alveg rétt. En Ríkisútvarpið er bara ekki hvaða fyrirtæki sem er. Ríkisútvarpið er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á markaði. Ríkisútvarpið hefur mikilvægum skyldum að gegna og ekki nóg með að það hafi mikilvægum skyldum að gegna heldur hefur það aðgang að opinberu fé, fer með opinbert fé, hefur aðgang að tilteknum afmörkuðum tekjustofnum umfram það sem almennt gildir um fyrirtæki og það gefur Ríkisútvarpinu ákveðna sérstöðu.

Arnar Þór Másson sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og kennari í stjórnmálafræði hélt erindi á ráðstefnu á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála þann 31. október síðastliðinn þar sem hann fjallaði einmitt um rekstrarform hjá ríkisfyrirtækjum eða ríkisstofnunum. Þar kom fram hjá honum — ég ætla að vísa í viðtal sem var tekið við hann í Speglinum. Þar segir hann að ekki sé óeðlilegt að ríkisrekstri séu settar tilteknar hömlur. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Það er auðvitað ástæða fyrir því að ríkisreksturinn er öðruvísi en einkareksturinn og það er þá auðvitað verið að hugsa til þess að það er verið að nota almannafé í ríkisrekstrinum.“

Svo segir hann að auðvitað þurfi að huga að ýmsum þáttum varðandi ríkisreksturinn, að réttaröryggi og öðru slíku og að frekari skorður þurfi að reisa við ríkisrekstri vegna bara stærðar ríkisins á markaði. Þetta segir Arnar Þór Másson í viðtali við Spegilinn og ég er viss um að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem situr hér er sammála þessu, að það þurfi að setja ríkisrekstrinum vissar skorður vegna þess að hann er að nota almannafé og vegna þess að hann hefur ákveðnu hlutverki og skyldum að gegna og vegna þess að ríkisreksturinn hefur tiltekna stærð á markaðnum.

Síðan segir Arnar Þór Másson meðal annars og þá er hann að tala um hlutafélagaformið, að það trúi því í raun enginn að ríkið sé að reka hlutafélag eins og önnur hlutafélög á markaði, þ.e. að það trúir því enginn að ríkið láti hlutafélag til dæmis fara á hausinn ef illa gengur. Það trúir því enginn að stjórnarmenn beri raunverulega ábyrgð eins og stjórnarmenn kannski á markaði þannig að hlutafélagaformið er ekki einu sinni trúverðugt að þessu leytinu til. Svo segir hann að það sé líklegra en ekki að það verði áfram með þeim hætti þrátt fyrir að þetta verði hlutafélag, að kjörnir fulltrúar vilji hafa áhrif og ráðherrar vilji hafa áhrif.

Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Ég held að hlutafélagaformið sé eitthvað sem menn stökkva á af því að það er til staðar. En ég held að það væri skynsamlegra að reyna að þróa rekstrarform ríkisins almennt.“

Hann segir að við tækjum þetta í raun bara frá ráðuneytum og út í þá einhvers konar fyrirtæki, ríkisfyrirtæki sem tæki þá það besta úr hlutafélagalögunum sem gagnast í ríkisrekstrinum og gagnast í að gera þetta sveigjanlegra en séum í raun ekki að nota hlutafélagaformið en um leið að draga úr kostum þess, þ.e. hlutafélagaformsins, með því að setja alls konar klásúlur inn í sérlög um að þetta gildi ekki og eitthvað annað gildi í staðinn og þess háttar. Með öðrum orðum segir hann að hægt sé að taka ýmislegt úr hlutafélagarekstrinum og skapa ákveðinn sveigjanleika fyrir hin opinberu fyrirtæki, setja það í sérlög og skapa þeim þannig rými.

Samfylkingin hefur verið þessarar skoðunar að það þurfi að skapa Ríkisútvarpinu ákveðinn sveigjanleika, ákveðið svigrúm og þetta höfum við talið að væri hægt að gera, að hægt væri að ná fram sveigjanleikanum og ná fram sjálfstæðinu með sjálfseignarstofnun. Kosturinn við sjálfseignarstofnunina er að hún er komin aðeins frá framkvæmdarvaldinu, aðeins frá ráðherranum og hefur þar af leiðandi ákveðið sjálfstæði. Hún er einkaréttarlegs eðlis. Það skapast ákveðið svigrúm við það. En það er skýr vísbending um það þegar þetta er gert að sjálfseignarstofnun að þetta er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á markaði sem ætlar að keppa einvörðungu á forsendum markaðarins og það er líka skýr vísbending um að það stendur ekki til að selja þessa stofnun.

Ég tel að í rauninni geri tvennt það að verkum að ríkið geti ákveðið og geti verið rök fyrir því að ríkið fari með fyrirtæki inn í hlutafélagaformið. Ég er ekki á móti hlutafélagaforminu sem slíku við allar aðstæður í ríkisrekstri. Það geta verið rök fyrir því að gera það. En hvenær er það eðlilegt? Jú, það er til dæmis eðlilegt ef það stendur til að selja fyrirtæki. Þá er auðvitað eðlilegt að gera það að hlutafélagi og mér finnst eðlilegt við þær aðstæður, þegar ríkisfyrirtæki eða opinbert fyrirtæki er gert að hlutafélagi með þau áform uppi að selja það, að það sé þá sett undir sérstaka stjórn í fjármálaráðuneytinu en ekki undir fagráðuneytum og það geti þess vegna verið þá bara einkavæðingarnefnd í fjármálaráðuneyti sem fer með stjórn þess fyrirtækis eða er bakhjarl þess fyrirtækis þar til sala hefur farið fram.

Svo geta líka verið þær ástæður fyrir því að gera opinbert fyrirtæki eða ríkisfyrirtæki að hlutafélagi að uppi séu hugmyndir um að sækja fleiri aðila inn í fyrirtækið. Ég nefni í því sambandi bara sveitarfélög. Þau geta farið í sameignarfélag. En þá er ábyrgðin einn fyrir alla og allir fyrir einn. Að fara með ákveðið fyrirtæki þar sem menn ætla að kalla inn fleiri aðila í hlutafélagaform getur því verið skynsamlegt. Þá er hægt að freista þess að ná fleirum inn. Ég vil nefna í því sambandi að það var nú eitt af því sem okkur gekk til hjá Reykjavíkurborg þegar við stofnuðum Félagsbústaði hf. sem var félag um byggingu og rekstur á íbúðafasteignum borgarinnar. Okkar hugmynd var sú að fá fleiri sveitarfélög inn í þennan rekstur og að þau stæðu sameiginlega að slíkum rekstri.

Það geta líka verið rök fyrir því að fara með orkufyrirtæki eins og Orkuveitu Reykjavíkur til dæmis að taka — það voru auðvitað skiptar skoðanir um það — inn í hlutafélagaformið af því að þetta er fyrirtæki sem þarf að sækja mikið fé á markað. Þetta er fyrirtæki sem vill kalla að fleiri eignaraðila. Að Orkuveitu Reykjavíkur eru ýmis sveitarfélög til dæmis aðilar. Við slíkar aðstæður getur verið eðlilegt að breyta opinberu fyrirtæki í hlutafélag. En ég tel að þessi rök eigi ekki við varðandi Ríkisútvarpið. Það er sagt hér að minnsta kosti í orði kveðnu að ekki standi til að selja það. Ekki eru það þá rökin fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag nema að baki búi þá sú hugsun að hægt sé að gera það þegar fram líða stundir og nema að baki búi þá sú hugsun að hægt sé að selja út úr Ríkisútvarpinu einhverja þætti og þannig mola það smátt og smátt. Þetta eru því ekki rökin fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Hin rökin fyrir því að breyta því í hlutafélag, þ.e. að menn ætli að kalla að fleiri aðila inn í þetta félag, að það þurfi að sækja sér verulega fjármuni á markað, eru ekki heldur rök sem við höfum heyrt hér. Mér skilst að ekki standi til að aðrir eignist í Ríkisútvarpinu en ríkið. Ríkið verður eini eigandinn. Það eru því ekki rökin fyrir því að gera þetta að hlutafélagi. Rökin eru fyrst og síðast þau að til eru lög um hlutafélög. Rekstrarformið er þekkt. Þetta er nokkuð sem viðgengst á markaðnum og menn feta þessa slóð þrátt fyrir að við séum hér með fyrirtæki eða stofnun, skulum við frekar segja, því að Ríkisútvarpið hefur að mörgu leyti fleiri einkenni stofnunar en fyrirtækis vegna þess almannaþjónustuhlutverks sem það hefur og vegna þeirra skyldna sem það á að uppfylla. Að fara með þetta út í hlutafélagaform er einfaldlega að mínu viti óskynsamlegt og ég hef ekki heyrt nein rök sem styðja það að velja þessa leið.

Aðalatriði málsins varðandi Ríkisútvarpið er að það hafi bæði í raun og ásýnd faglegt, pólitískt og viðskiptalegt sjálfstæði, að fólk trúi því að Ríkisútvarpið sé faglegt, að það sé ekki undir pólitískri stjórn og það sé ekki háð viðskiptalegum hagsmunum. Þetta er grundvallaratriði varðandi Ríkisútvarpið.

Til að Ríkisútvarpið geti haft þá ásýnd og eins að það geti í raun verið faglega pólitískt og viðskiptalega sjálfstætt þarf að velja útvarpinu rekstrarform sem samrýmist þessu. Það þarf að velja Ríkisútvarpinu stjórn sem er laus undan flokkspólitískum meiri hluta á Alþingi hverju sinni og það þarf að skilgreina mjög vel í hverju almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins er fólgið. Í hverju felast skyldur Ríkisútvarpsins umfram þær skyldur sem aðrir miðlar á fjölmiðlamarkaði hafa?

Almannaþjónustuhlutverkið og skilgreiningin á því er algjör forsenda ríkisframlagsins. Ef Ríkisútvarpið hefur ekki víðtæku almannaþjónustuhlutverki að gegna og ef það uppfyllir ekki sitt víðtæka almannaþjónustuhlutverk eru forsendur undir ríkisframlaginu brostnar og þá verður viðhorf samfélagsins á þá lund að það séu engin rök fyrir ríkisframlaginu.

Ef ríkissjónvarpið sendir bara út bolta, amerískar sápur, afþreyingarefni eða annað slíkt munu þær raddir heyrast, og þær heyrast núna, að engin rök séu fyrir því að leggja afnotagjöld eða nefskatt á fólk eða að vera að halda uppi sérstakri sjónvarpsstöð sem sé í eðli sínu ekkert öðruvísi en aðrar sjónvarpsstöðvar sem hér eru reknar, eins og Stöð 2, sem séu ekki með neina innlenda, metnaðarfulla dagskrárgerð, sem sé ekki að gera leikið efni sem lýsir íslenskum veruleika, sem sé ekki að senda út vandaða eða gera vandaða fræðsluþætti sem standi ekki fyrir öflugri, lýðræðislegri, gagnrýnni umræðu.

Ef Ríkisútvarpið stendur ekki undir slíkum skuldbindingum og ef Ríkisútvarpið uppfyllir ekki slíkar skuldbindingar af metnaði munu forsendur bresta fyrir ríkisframlaginu og þá mun viðhorf fólks til ríkisframlagsins breytast.

Því er gríðarlega mikilvægt að skilgreina vel almannaþjónustuhlutverkið og passa upp á það að Ríkisútvarpið standi undir því og eitthvert eftirlit sé með því að Ríkisútvarpið standi undir því. Að ekki sé búið til eitthvert ríkisfyrirtæki á fjölmiðlamarkaði, því afhentir tilteknir tekjustofnar, búið til um það hlutafélagaform og því sé bara sagt að fara og keppa á þessum markaði. Vegna þess að þá erum við ekki lengur að tala um Ríkisútvarp sem hefur almannaþjónustuhlutverki að gegna.

En um hvað erum við þá að tala þegar við erum að tala um almannaþjónustuhlutverkið? Jú, við erum að tala um öfluga fréttamiðlun. Við erum að tala um öfluga menningarmiðlun þar sem gerð er grein fyrir fjölbreytni bæði íslensks samfélags og þess samfélags sem við á alþjóðavísu lifum og hrærumst í.

Það hlýtur að gera kröfu til þess að öflug fræðslustarfsemi sé á vegum slíks almannaþjónustuútvarps. Það sé innlend dagskrárgerð og framleitt sé leikið efni. Slíkt útvarp og sjónvarp tjái fjölbreytni samfélagsins. Það sýni íslenskt efni, norrænt efni, evrópskt efni og gerðar séu ákveðnar kröfur til þess að það endurspegli þann menningarheim sem við erum hluti af.

Ríkisútvarpið hefur nú ekki alltaf staðið mjög vel undir því. Ég hugsa að ýmis okkar hafi heyrt þær viðbárur hjá fólki þegar það hefur gerst. Ég man eftir því tímabili að helgi eftir helgi voru sýndar evrópskar myndir, franskar, ítalskar, danskar. Þá kom viðbáran: Af hverju er alltaf verið með þetta útlenda efni á ríkissjónvarpinu? Fólk var svo vant því að það væri bara engilsaxneskt efni þar, að þegar Ríkisútvarpið tók sig til og sýndi evrópskt efni fannst mönnum að þarna væri allt í einu farið að sjónvarpa útlendu efni í ríkissjónvarpinu. Þetta segir náttúrlega meira en mörg orð um það hvernig ríkissjónvarpið okkar hefur stundum verið. Því þarf að tryggja að það standi undir almannaþjónustuhlutverkinu sem er forsenda ríkisframlagsins.

Það skiptir líka máli, eins og ég sagði, að það væri laust undan viðskiptalegum hagsmunum. Þá mega ríkissjónvarpið og Ríkisútvarpið ekki vera of háð auglýsingum. Það verður að setja því ákveðin mörk hversu stór hluti af tekjum Ríkisútvarpsins kemur af auglýsingum. Samfylkingin hefur sett þetta viðmið að það eigi að vera sirka 15–20%. Og þá erum við ekki að ákveða hvernig auglýsingar það mega vera að hvar þær mega birtast, hvort þær eigi að vera í sjónvarpinu, útvarpinu, vefnum eða hvar það er, heldur að við reynum að setja ákveðið þak á hlutfall auglýsingatekna í tekjum Ríkisútvarpsins. Þar með erum við að feta okkur inn í það umhverfi sem markaðurinn hlýtur að gera kröfur um að Ríkisútvarpið fari inn á og umhverfi sem viðgengst í löndunum í kringum okkur, Norðurlöndunum og Bretlandi.

Þann 23. janúar síðastliðinn ræddi ég svolítið um TV2 í Danmörku sem fékk á sig verulegar sektir frá Evrópusambandinu vegna þess að talið var að það hefði í rauninni notað það framlag sem það hafði frá ríkinu til þess að standa undir samkeppnisrekstri. TV2 í Danmörku var rekið á svipuðum forsendum og okkar sjónvarp, ríkissjónvarpið, þ.e. hafði annars vegar aðgang að opinberu fé og hins vegar auglýsingatekjur. Það hafði ákveðnu almannaþjónustuhlutverki að gegna en var líka að keppa á markaði. Það varð niðurstaða Evrópusambandsins að almannaþjónustuhlutverk þeirrar stöðvar, TV2, væri ekki nægjanlega vel skilgreint og það hefði í rauninni misbeitt ríkisframlaginu sínu í samkeppni á markaði við aðrar stöðvar. Niðurstaðan varð sú að það var sektað um verulegar fjárhæðir.

Við megum ekki lenda í því með Ríkisútvarpið okkar sem getur auðvitað vel gerst ef menn skilgreina ekki betur almannaþjónustuhlutverkið og ef menn hleypa Ríkisútvarpinu bara í harða og óvægna samkeppni á markaði við aðra miðla. Þá mun ekki verða sátt eða friður um Ríkisútvarpið ef það gerist.

Þess vegna, til að tryggja m.a. þetta sjálfstæði útvarpsins í viðskiptalegu tilliti, teljum við mikilvægt að setja takmarkanir á auglýsingamagn Ríkisútvarpsins og feta okkur þannig inn í þetta annars konar rekstrarumhverfi. Þá er líka mikilvægt að setja kostun, að mínu viti, ákveðin mörk og tryggja að kostun á dagskrárliðum flæði ekki inn í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins, þ.e. að einstakir kostunaraðilar geti ekki nánast keypt sig inn í útvarps- eða sjónvarpsþætti með fjárframlögum sínum.

En forsenda þess að Ríkisútvarpið hafi líka faglegt og pólitískt sjálfstæði — nú er ég að tala eiginlega um þetta viðskiptalega sjálfstæði — þ.e. að stjórn útvarpsins verði laus undan flokkspólitískum meiri hluta á þingi. Ég held að eina leiðin til að gera það — auðvitað er full ástæða til að pólitíkin beri ábyrgð á Ríkisútvarpinu vegna þess að Ríkisútvarpið er almannaþjónustuútvarp með ákveðna, afmarkað tekjustofna sem við sjáum því fyrir, þá þarf pólitíkin auðvitað að bera ákveðna ábyrgð gagnvart Ríkisútvarpinu. Það er ekkert óeðlilegt við það að stjórn Ríkisútvarpsins sé kosin á þingi og endurspegli að einhverju leyti pólitíkina á þinginu, þ.e. hlutföllin hér á þingi. En hún má ekki verða undir stjórn flokkspólitísks meiri hluta á þingi. Þess vegna er mikilvægt að starfsmenn Ríkisútvarpsins komi inn með fulltrúa sína í stjórnina til þess einmitt að losa um slík flokkspólitísk tengsl. Bæði Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna hafa einmitt lagst á þá sveif og hafa lagt það til að fulltrúar frá starfsmönnum komi inn í stjórn Ríkisútvarpsins til að klippa á þetta beina samband og aftengja, ef svo má segja, hið beina, flokkspólitíska forræði á Ríkisútvarpinu.

Umsagnir Félags fréttamanna og Blaðamannafélags Íslands eru að mörgu leyti mjög góðar og hægt að taka undir margt sem þar kemur fram varðandi hin faglegu atriði. Meðal annars kemur fram í umsögn Félags fréttamanna, með leyfi forseta:

„Félag fréttamanna leggur áherslu á að í 3. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins, verði kveðið með skýrum og ótvíræðum hætti á um að meðal þeirra skyldna sé „að starfrækja almenna, víðtæka, sjálfstæða og hlutlæga fréttaþjónustu um og innlend og erlend málefni á hljóðvarps- og sjónvarpsformi“, en þessa atriðis sér ekki með skýrum hætti stað í frumvarpinu eins og það er nú. Leggur félagið til að ákvæði þessa efnis verði bætt við frumvarpið.“

Sem sagt Félag fréttamanna vill að skýrar sé kveðið á um þetta almannaþjónustuhlutverk eins og ég gat um áðan.

Þá kemur m.a. líka fram hjá Félagi fréttamanna að það „leggur áherslu á að aðgengi almennings í landinu að Ríkisútvarpinu sem opinberu hlutafélagi verði tryggt og að hann geti haft áhrif og komið skoðunum sínum á framfæri við Ríkisútvarpið ohf. Kveða verður skýrt á um þetta aðgengi í lögum.“

Þetta er meðal þess sem Samfylkingin hefur líka lagt áherslu á og lagt til að almenningur eigi aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstilli sérstaks hlustendaþings sem komi saman einu sinni á ári. Þetta hlustendaþing væri, held ég, gríðarlega mikilvægt fyrir stjórnendur og starfsmenn Ríkisútvarpsins að eiga aðgang að því slíkt hlustendaþing getur aðstoðað þá sem starfa og stjórna Ríkisútvarpinu við að greina hvernig starfsemin hefur verið á umliðnu ári. Þetta getur verið gagnrýnið hlustendaþing sem fer yfir það sem gert hefur verið og bendir á það sem betur má fara og aðstoðar við að móta stefnuna fyrir Ríkisútvarpið og hvernig það eigi að standa undir hlutverki sínu.

Félag fréttamanna leggur til, eins og ég sagði áðan, að fulltrúi starfsmanna komi að stjórn fyrirtækisins og síðan er í umsögn Félags fréttamanna bent á að það leggi áherslu á að „eldveggir“, eins og það kallar það, verði viðhafðir innan fyrirtækisins til að verja sjálfstæða umfjöllun. Í því sambandi þurfi m.a. að huga að eftirfarandi atriðum:

„Tryggja þarf í frumvarpstextanum fullkomið sjálfstæði fréttaritstjórnanna gagnvart útvarpsstjóra og markaðsdeild …“. Þetta er auðvitað mikilvægt atriði og þetta er eitt af því sem Samfylkingin hefur lagt almennt mikla áherslu á í umfjöllun um fjölmiðla og sjálfstæði þeirra, að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði á miðlunum.

Síðan er sagt líka, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf að við ráðningar og launaákvarðanir fréttamanna sé farið að faglegum sjónarmiðum. Þar á launaleynd ekki við. Forsendur séu öllum ljósar og fréttamenn gangist undir hæfnispróf áður en þeir eru ráðnir.“

Þetta tel ég mjög mikilvægt, að ljóst sé gagnvart þeim sem starfa hjá Ríkisútvarpinu hvað er lagt til grundvallar við ráðningar í störf. Manni hefur virst oftar en ekki að það sem lagt sé til grundvallar séu ákveðin flokkspólitísk tengsl. Meðan það er ekki skilgreint og skýrt hvernig ráðningarferli á sér stað á Ríkisútvarpinu, inn á fréttastofur, þá mun það viðhorf liggja í landi að þar sé um flokkspólitískar ráðningar að ræða, þ.e. að ráðið sé inn á Ríkisútvarpið fremur eftir pólitískum skoðunum en faglegum sjónarmiðum.

Ekki svo að skilja að það geti ekki farið ágætlega saman, pólitískar skoðanir og fagleg sjónarmið. En það á auðvitað að liggja ljóst fyrir hvaða forsendur liggja til grundvallar og hvernig fréttamenn eru valdir til starfa á Ríkisútvarpinu.

Eitt af því sem bent er á í umsögn Félags fréttamanna og ég vil taka undir er að starfssvið útvarpsstjóra er ekki skýrt skilgreint í frumvarpinu, þótt viðurkennt sé að þörf sé á slíkri skilgreiningu. Þetta er eitt af því sem ég tel að þurfi að vera ljóst, þ.e. hvaða kröfur, hæfnis-, reynslu- og þekkingarkröfur eru gerðar til útvarpsstjóra, þó ég sé ekki að tala fyrir því að það sé sniðið við einhverjar tilteknar prófgráður, og hvert eigi að vera hlutverk hans og verkefni.

Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi farið yfir flest það sem ég tel að mætti betur fara í frumvarpinu og rökin fyrir því að ég tel að bæði af faglegum ástæðum og rekstrarlegum ætti ekki að ganga frá frumvarpinu, samþykkja það eins og það liggur fyrir, heldur að nýta það svigrúm sem núna gefst til að fara betur yfir málið og reyna að ná betur utan um Ríkisútvarpið þannig að það lendi ekki í þeim hremmingum á næstu mánuðum og missirum að verulegt ósætti verði um Ríkisútvarpið, um hlutverk þess, um stöðu þess og um það hvernig það beitir sér á markaði.

Við blasir, eins og málin eru núna og ef þetta heldur fram sem horfir, að Ríkisútvarpið verði á fjölmiðlamarkaðnum sem hlutafélag, laust við kvaðir ríkisrekstursins, komið með það svigrúm sem Ríkisútvarpið telur sig þurfa til að geta beitt sér á fjölmiðlamarkaðnum. Þarna verði komið hlutafélag með ríkisstyrk sem keppir miskunnarlaust á fjölmiðlamarkaði. Það er ávísun á átök, virðulegi forseti, það er ekki ávísun á sátt um rekstur Ríkisútvarpsins.

Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að standa vörð um Ríkisútvarpið sem útvarp í almannaþjónustu, sem almannaútvarp. Það þurfi að styrkja mjög og skerpa á þjónustuhlutverki þess. Það þurfi að tryggja tekjustofna útvarpsins og tryggja þurfi að faglega sé staðið að málum, bæði varðandi stjórnun, ráðningar og rekstur Ríkisútvarpsins.

Virðulegur forseti. Ég ítreka og geri það í rauninni að mínu tilboði til stjórnarliða að svigrúmið verði nýtt fram í janúar til að skoða hvort ekki sé hægt að fara betur að þeim fjölmörgu ábendingum sem hafa komið fram frá Blaðamannafélaginu, frá fréttamönnum, frá aðilum sem keppa á þessum markaði, frá Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði og fleiri aðilum, um að skoða betur frumvarpið eins og það liggur fyrir og skapa um það meiri sátt.