133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:19]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var dálítið merkileg yfirlýsing sem hv. 7. þm. Reykv. n., Guðjón Ólafur Jónsson, gaf hér. Hann sagði að Framsókn væri búin að beygja Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli. Nú væri búið að svínbeygja Sjálfstæðisflokkinn, hann væri horfinn af einkavæðingarbrautinni sem hann hefði verið á áður. Þá skil ég það þannig að það hafi í rauninni staðið til að einkavæða Ríkisútvarpið, þ.e. selja hlutafélagið en Framsóknarflokkurinn hafi náð að koma í veg fyrir það og það segir manni þá auðvitað það hvað býr þarna að baki. Í raun og sann býr þá þarna að baki sú hugsun að selja hlutafélagið þegar tími og ráðrúm gefst til þess.

Hann talaði um ríkisvæðingu, þetta væri ríkisvæðing en ekki einkavæðing. Nú væri hins vegar Samfylkingin búin að taka upp gömlu framsóknarstefnuna og vitnaði þar í hv. þm. Mörð Árnason. Ég verð að játa að ég tel að við getum alveg verið fullsæmd af því að taka undir með fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins Halldóri Ásgrímssyni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins árið 2002 þar sem hann leggur áherslu á eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Að löggjöf um Ríkisútvarpið verði endurskoðuð með það að markmiði að tryggja hlutleysi þess og sjálfstæði og að stofnuninni verði áfram gert kleift að rækja mikilvægt menningarhlutverk sitt. Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag en í tengslum við endurskoðun löggjafar um Ríkisútvarpið verði kannað hvort rétt sé að breyta því í sjálfseignarstofnun,“ segir Halldór Ásgrímsson.

Við tökum heils hugar undir þessi orð fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og auðvitað getum við ekki borið ábyrgð á því þó að Framsókn sé í slíku villuráfi sem raun ber vitni, að þeir séu ekki aðeins hlaupnir frá stefnu heldur líka frá kjósendum sínum og komnir eins og hér í Reykjavík niður í pilsnerfylgi eins og ég hef áður bent á.