133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:22]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það dugar lítt fyrir hv. þingmann að ræða um pilsnerfylgi í hverri ræðu sinni. Það breytir t.d. engu um þá ræðu sem hv. þingmaður flutti í Keflavík fyrir ekki svo löngu síðan og má gera oft að umræðuefni þar sem hv. þingmaður lýsti því yfir að kjósendur hefðu ekkert traust á þingmönnum Samfylkingarinnar. Hvert ætli sé þá traustið sem kjósendur hafa á þingmönnum Samfylkingarinnar í þessu máli? Það er auðvitað ekki neitt.

Hv. þingmaður viðurkenndi að Samfylkingin væri í sífellt auknum mæli að sækja í smiðju Framsóknarflokksins. Það er frjó hugsun, hæstv. forseti, að sækja sífellt eftir stefnumálum í gamlar stefnuskrár í Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Og ekki er nú verra þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru farnir að gera orð formanns Framsóknarflokksins að sínum hvort sem það er núverandi formaður eða fyrrverandi. (Gripið fram í.)

Það var hins vegar annað, hæstv. forseti, sem hv. þm. vék sér alfarið frá að tala um. Það var afstaða hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar til þessa frumvarps menntamálaráðherra en hann hefur lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Það er auðvitað eins og með annað í þeim ágæta flokki Samfylkingunni en þar er hver höndin upp á móti annarri og þjóðin, kjósendur treysta ekki þingmönnum, það skyldi þó ekki vera að það sé vegna þessa sundurlyndis sem alltaf er og hefur einkennt þennan flokk alla tíð? Hvernig fer þessi afstaða hv. þingmanns heim og saman, varaformanns flokksins, við þá ræðu sem hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar flutti áðan?