133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Enn á ný er tekið til við að ræða þetta blessaða frumvarp um Ríkisútvarpið okkar. Það verður að segjast eins og er að það heldur dapurlegt að málin skuli ekki hafa þroskast betur en raun ber vitni á þeim langa meðgöngutíma sem hér er að baki, að enn skuli ríkja fullkomið ósætti um málið og menn skuli í raun og veru engu vera nær hvað það varðar að finna starfsemi Ríkisútvarpsins þá umgjörð eða þann umbúnað, stjórnskipulag og rekstrarform og annað slíkt sem dugir til þess að skapa sæmilegan frið um stofnunina og sátt þannig að starfsfriður gangi nú í garð á nýjan leik hjá þessari stofnun. Í raun er ekki hægt að segja að hann hafi verið þar til staðar núna í mjög langan tíma með almennilegum hætti. Mönnum hafa verið mjög mislagðar hendur varðandi málefni Ríkisútvarpsins á löngu árabili. Mannaráðningar þangað inn og fleira í þeim dúr hafa lent í miklum hremmingum og átökum. Það hafa verið ýmiss konar sviptingar um stofnunina, óvissa um stöðu hennar og framtíð sem auðvitað getur ekki verið til góðs.

Það þýðir samt ekki að gefast upp við það ætlunarverk að skapa Ríkisútvarpinu starfsumgjörð sem það getur búið við, sem fær staðist í nútímalaga- og viðskiptaumhverfi og dugar til þess að Ríkisútvarpið geti sinnt sómasamlega sínu hlutverki. Mér finnst þetta frumvarp fyrst og fremst vera til marks um uppgjöfina í þeim efnum. Menn eru að játa sig sigraða og gefast upp, viðurkenna að þeir hafi ekki náð því markmiði að skapa sátt um málefni útvarpsins og ætla bara að troða í gegn því síðasta sem mönnum hefur dottið í hug. Af mörgum hugmyndum um Ríkisútvarpið, og mismunandi útgáfum í frumvörpum kemur nú þetta síðasta, að gera Ríkisútvarpið að ohf. að opinberu hlutafélagi. O-ið stendur svona fyrir það að til viðbótar venjulegum hlutafélagalögum þá mega blaðamenn mæta á aðalfundinn og einhver nokkur atriði í viðbót.

Auðvitað má segja að menn hafi látið undan og játað sig sigraða fyrir ýmiss konar gagnrýni sem þetta frumvarp og forverar þess hafa sætt. Vissulega hafa ábendingar sem hér hafa komið fram leitt til þess að menn hafa séð að sér um einstaka hluti enda voru málin svo illa unnin og svo lítt íhuguð þegar þessu var hent hér inn í hin fyrri skiptin að það auðvitað vekur mann til umhugsunar þegar maður fer að horfa til baka og velta því fyrir sér. Það þurfti til dæmis ábendingar um það héðan úr þessum ræðustóli hvað ætti að verða um menningarverðmætin sem Ríkisútvarpið geymir fyrir hönd þjóðarinnar. Ættu þau að fara bara með eins og gerðist hjá Landsbankanum? Ég hygg nú að það hafi verið hv. þm. Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður sem hafi komið hér og vakið athygli á því og nokkrum fleiri atriðum. Það leiddi svo til þess að menntamálanefnd sá að sér og meira að segja meiri hlutinn vitkaðist eitthvað gagnvart einhverjum slíkum þáttum. Sama gilti um að upplýsingalög giltu þarna eða stjórnsýslulög og fleira í þeim dúr.

En það breytir ekki hinu að grundvallargjörningurinn er misráðinn. Þetta eru mistök. Ég segi það sem mína skoðun, frú forseti, að ég held að það sé eiginlega öllum orðið það ljóst. Hið sorglega í málinu, tragedían í málinu, hið harmræna í þessu máli er að það vita það orðið allir hér í þessum sal og í kringum hann að þetta eru mistök. Aðstandendur málsins vita það vel. Það er óbragð í munni nánast hvers einasta manns sem ætlar að standa að því að afgreiða þetta og ljá þessu atkvæði sitt, að ég tel, svo maður tali nú ekki um sannfæringu okkar hinna sem höfum frá upphafi verið algerlega andvíg því að þessi leið væri farin og séð á henni alla þá ágalla sem nú eru komnir upp á yfirborðið.

Það er líka athyglisvert, frú forseti, að gagnrýnin á þetta frumvarp er að verulegu leyti eða í þó nokkrum mæli óháð pólitík. Hún er óháð því í raun hvort menn hallist til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Hún er óháð því hvort menn séu meiri eða minni aðdáendur markaðsvæðingar og einkarekstrar á öllum sviðum. Það er líka alveg fullkomlega eðlilegt. Hörðustu samkeppnis- og markaðsvæðingarsinnar, einkarekstrarsinnar sjá hversu vitlaust þetta er, kannski betur en flestir aðrir af því þeir horfa á þetta alveg hreint úr þeirri átt. Þeir horfa á þetta úr þeirri átt að opinbert menningarfyrirtæki á ekkert erindi inn á svið einkarekstrarins, inn í samkeppnisumhverfið. Það á þar ekki heima. Á þetta hafa menn bent fyrir löngu síðan. Þess vegna hlýtur þetta að vera, frú forseti, heldur erfiður leiðangur fyrir suma frjálshyggjumennina í Sjálfstæðisflokknum og hörðustu markaðssinnana þar.

Ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, sem ég hygg að margir sjálfstæðismenn geri enn þá eitthvað með, skrifaði um þetta gagnmerkan leiðara í sínu blaði fyrir líklega hátt í ári síðan. Hann spurði í forundran: Hvernig í ósköpunum stendur á því að mönnum dettur í hug að taka opinbert menningarfyrirtæki, opinbera menningarstofnun, og setja hana yfir í hlutafélagaform og færa hana yfir á svið einkaréttarins og einkareksturs? Þetta er vitleysa. Auðvitað er það það. Mikil vandræði munu af þessu hljótast.

Reynt hefur verið að halda því fram, frú forseti, að þessi gjörningur muni efla Ríkisútvarpið. Því er reynt að halda fram innan stofnunarinnar. Að minnsta kosti hef ég grun um það að útvarpsstjóri reyni enn að halda þessu fram. Hann er nú sennilega orðinn tiltölulega einn um það á þeim bæ. Það eru nú meiri ósköpin hvað þetta mun efla Ríkisútvarpið. Í hverju á það að birtast, frú forseti? Er það í 5 millj. kr. hlutafénu? Stendur það ekki enn óbreytt að það eigi að leggja þessu til 5 millj. í hlutafé? Ég hef ekki séð því breytt. Það stendur hér í 1. tölulið ákvæðis til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Við stofnun félagsins skal lögð fram a.m.k. 5.000.000 kr. fjárhæð sem hlutafé og skal hún greiðast úr ríkissjóði eigi síðar en hálfum mánuði eftir skráningu félagsins hjá hlutafélagaskrá.“

Það er auðvitað mjög gott að Ríkisútvarpið fær þetta innan hálfs mánaðar. En það er nú sennilega það eina góða við það því þetta er auðvitað smánarleg upphæð. Þetta er auðvitað ekki neitt. Fyrirtækið tekur vissulega yfir allar eignir, réttindi og viðskiptavild en líka skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins. Það er þannig með Ríkisútvarpið eins og margt fleira í sambærilegri opinberri eða almannaþjónustu sem þarf á búnaði að halda til að sinna sínu hlutverki að það er ekkert gagn í því og ekkert vit í því að horfa á bókfært eigið fé eða bókfærð verðmæti þeirra hluta. Það er jafnvitlaust og þegar sveitarfélög velta því fyrir sér hversu mikils virði skólinn þeirra er eða sundlaugin vegna þess að það er ekki valkostur að selja hana og taka féð og nota það í eitthvað annað vegna þess að það þarf á búnaðinum að halda til að veita þjónustuna. (Gripið fram í.) Ef menn ætla ekki að hætta því og gefast upp þá þurfa þeir þessi verðmæti. Þess vegna yrði stofnað Ríkisútvarpið ohf. á brauðfótum með snautlegum 5 millj. kr. í hlutafé.

Langalvarlegasti þáttur þessa máls, frú forseti, er einkavæðingin. Það á að einkavæða Ríkisútvarpið. Það á að einkavæða Ríkisútvarpið. Það á að einkavæða Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) Af hverju á að einkavæða það, hv. þm. Pétur H. Blöndal? Jú, það er af því að það á að gera það að hlutafélagi. Það á að taka Ríkisútvarpið og breyta því úr því að vera opinbert menningarfyrirtæki sem starfar samkvæmt lögum sem opinbert fyrirtæki, opinber þjónustustofnun, hvers starfsmenn njóta réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn o.s.frv., og gera þetta allt saman að hlutafélagi sem starfar á vettvangi einkaréttarins, sem starfar samkvæmt sömu lögum og reglum og um einkarekstur sé að ræða. Þetta er grundvallarbreytingin. Þetta er einkavæðingin.

Sú undarlega árátta manna að tala síðan um að það sé ekki einkavæðing að breyta fyrirtæki með þessum hætti, að breyta starfsemi með þessum hætti, ekki fyrr en að fyrirtækin séu seld, er auðvitað feluleikur vegna þess að það er ekki eignarhaldið sem skiptir þarna máli þegar upp er staðið heldur rekstrarformið og spurningin um það á hvaða sviði fyrirtækið er látið starfa hvort það tilheyri hinum opinbera rekstri eða lúti reglum einkaréttarins. Á þetta er til dæmis ágætlega bent í góðri grein eftir lögmann sem birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2006. Þar vekur Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður einmitt athygli á þessu og segir fullum fetum að þegar horft sé til lagaumhverfisins, starfsumhverfisins, þá hafi eignarhaldið hverfandi þýðingu borið saman við hitt, þ.e. hvort starfsemin sé skilgreind sem opinber, starfi samkvæmt lögum um opinberan rekstur, lúti reglum um opinberar fjárreiður, um upplýsinga- og eftirlitsskyldu sem almannavaldið hefur í gegnum Alþingi þegar ríkisrekstur á í hlut, í vinnumarkaðslegu tilliti tilheyri hinum opinbera geira þannig að starfsmennirnir séu opinberir starfsmenn o.s.frv. og svo aftur hitt að færa starfsemina yfir í hlutafélagaform, yfir á svið einkarekstrarins, yfir á þann hluta vinnumarkaðarins o.s.frv. Þessi formbreyting hefur útslitaáhrif í því kerfi tvískipts vinnumarkaðar og laga og réttar sem við búum við á Íslandi.

Frú forseti. Þetta skiptir mjög miklu máli vegna þess að það sem er verst við þetta mál, fyrir utan svona hinar pólitísku kringumstæður þess, fyrir utan þann harmræna þátt að allir vita að þetta eru mistök en ætla samt að gera það af því að þeir komast ekki til baka, finna ekki leiðina til lands — stjórnarflokkarnir hafa lent í þvílíku kviksyndi með þetta mál og í rauninni með öll þessi fjölmiðlamál að það hefur farið heilt kjörtímabil, frú forseti, í þau umbrot og þeir sökkva dýpra og dýpra — er að það er alveg ljóst í hvað er verið að stefna með Ríkisútvarpið næstu árin, þ.e. takist ekki að koma vitinu fyrir menn og þeir bara hætti við þetta, þ.e. ef svo illa færi nú að ný ríkisstjórn gæti ekki og nýr þingmeirihluti gæti ekki upp úr miðju næsta ári reynt að bjarga því sem bjargað verður, ef þetta verður nú gert engu að síður hér eftir áramótin.

Mín spá er sú, frú forseti, að verði Ríkisútvarpið gert að hlutafélagi og takist ekki að snúa ofan af því á allra næstu mánuðum eða missirum þá bíði Ríkisútvarpsins ólgusjór málaferla og deilna næstu þrjú, fjögur, fimm árin. Það liggur fyrir að þannig verður það. Það liggur alveg fyrir.

Mér þætti nú vænt um, frú forseti, ef hæstv. menntamálaráðherra væri kannski einhvers staðar nálægur. Í raun hefði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra þurft að vera hérna líka vegna þess að það er ástæða til þess að heyra ráðherrann sem fer með þau mál koma hér og svara spurningum um hinn samkeppnislega þátt málsins. Það er eiginlega varla hægt að líða það, af því að þetta er nú ein og sama ríkisstjórnin, að sá ráðherra sem fer með samkeppnismál verði ekki látinn svara hér spurningum um þann þátt málsins. Ég óska eftir að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra verði að minnsta kosti gert viðvart um að vakin hafi verið athygli á því að ástæða væri til að hann væri hér viðstaddur.

Hvers vegna er það ljóst að málaferli og illdeilur bíði Ríkisútvarpsins ef það verður sett yfir í hlutafélagaformið. Jú, það er vegna þess að samkeppnisaðilar þess á einkamarkaði eru þegar byrjaðir að undirbúa þau málaferli. Það er hverjum manni ljóst. Ég sé ekki hvernig menn geta lesið annað út úr þeim viðbrögðum og þeim sjónarmiðum sem þaðan hafa komið, þeirri upphitun, ef svo má kalla það, sem einkafjölmiðlarnir hafa verið í að undanförnu. Ég les að minnsta kosti ekkert annað út úr því en undirbúning undir málaferlin og kærurnar og árásirnar á Ríkisútvarpið. Þá verða notuð öll vopn sem hægt verður að sækja í samkeppnisréttinn til þess að sækja að Ríkisútvarpinu, ósköp einfaldlega. Þetta vita menn. Hvað eru 365 fjölmiðlar að undirbúa með því að fullyrða það mjög … (Gripið fram í: Spurðu Samfylkinguna. Hún er að gæta hagsmuna ...) Nú bið ég hv. þingmann að halda ró sinni. Förum nú ekki út í einhvern sandkassaleik með þetta. Mér er alveg nákvæmlega sama hverjir reyna að merkja sér einhverja fjölmiðla og sleikja sig upp við þá eða tala illa um þá. Ég er að reyna að ræða hérna um prinsippmál. Ég er að ræða hér um einkafjölmiðla sem eru í harðri samkeppni, verða að skila eigendum sínum arði og öllu þessu sem við þekkjum og munu að sjálfsögðu nota öll þau meðul sem þeir geta innan ramma laga og réttar — ég ætla mönnum ekkert annað — til að reyna að klekkja á keppinautum sínum, auðvitað. Það er verið að gefa veiðileyfi á Ríkisútvarpið. Það er verið að gefa alveg opið veiðileyfi á Ríkisútvarpið með því að henda því yfir á svið einkarekstrarins.

Hvað verður það sem verður gert, frú forseti? Jú, það verður auðvitað reynt að ráðast á auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins. Og það er búið að vera að undirbúa það. Menn hafa sagt: „Það gengur ekki að Ríkisútvarpið fái algerlega óheft að keppa við okkur á öllum sviðum auglýsingamarkaðarins.“ Og það verður reynt að sækja að því. Það verður reynt með málaferlum og sjálfsagt með pólitískum aðferðum líka — fjölmiðlarnir hafa sterk vopn í sínum höndum. Þeir hafa sjálfa sig — að þrengja að Ríkisútvarpinu þannig, reyna að þrengja að því á auglýsingamarkaði, hrekja það út úr kostun og öðru slíku með því að segja að það gangi ekki, það sé ósanngjarnt, það sé brot á samkeppni, það sé mismunun eða guð má vita hvað það er. Það verður sótt að Ríkisútvarpinu þarna megin frá, spái ég, og við sjáum það alveg í aðdraganda málsins að menn eru að hita sig upp í það.

Það verður líka sótt að því hinum megin og ekki síður. Það líða ekki mörg ár, ef það verða ár, þangað til búið verður að kæra afnotagjöldin, ég tala nú ekki um nefskattinn þegar hann kemur. Nefskatturinn verður umsvifalaust kærður og þá verður sagt: Þarna er um að ræða lögvarinn tekjustofn sem menn eru skyldugir að greiða. Ergó, þetta er ríkisstuðningur og það liggur fyrir að þannig er það „per definisjón“. Þetta er ríkisstuðningur vegna þess að þetta er lögvarinn tekjustofn, skyldustofn. Og menn munu segja: Hann er langtum hærri en sem nemur hinum sannanlega kostnaði Ríkisútvarpsins af sérstökum menningar- og almannaþjónustuskyldum þess. Hvort menn munu segja að hann ætti að vera einn þriðji eða helmingurinn veit ég ekki, en það er augljóst mál að menn munu segja þetta. Það mun verða mjög erfitt að lesa það í sundur og útskýra nákvæmlega að hann eigi að vera akkúrat þessi upphæð en ekki hin, 2 milljarðar, 2,5 eða 3 eða eitthvað annað. Það verða því málaferli líka frá þessari hlið fyrir innlendum dómstólum og sjálfsagt erlendum líka ef svo ber undir. Það verða margar leiðir til að reifa þessi mál og koma þeim fyrir dómstóla. Hægt verður að sækja málið á marga vegu, það verður hægt að endurreifa málin, áfrýja þeim o.s.frv. og mismunandi fjölmiðlar geta formúlerað málið með mismunandi hætti. Ég spái því, því miður, þó að auðvitað verði það væntanlega fyrst og fremst stærstu keppinautarnir á sviði ljósvakans sem eru líklegir til þess, að það verði ófriðarbál í kringum Ríkisútvarpið fyrstu árin eftir að því verður, ef það verður, breytt í hlutafélag. Við því sér er í sjálfu ekkert að segja og ég er ekki að segja þetta af neinni óvild í garð þeirra sem þarna eiga í hlut. Ég skil það í rauninni ósköp vel að þeir muni reyna að styrkja stöðu sína eins og þeir mögulega geta í þessari samkeppni.

Setjum sem svo t.d. að menn bíði ekki einu sinni eftir því að nefskatturinn verði hinn lögvarði tekjustofn útvarpsins heldur hjóli bara í afnotagjöldin um leið og Ríkisútvarpið er orðið að hlutafélagi og komið yfir á svið einkarekstursins, og segi: Afnotagjöldin eru þvingunarskattur. Þó að þau séu ekki með alveg sama hætti og hafi kannski ekki nákvæmlega sama skattalegt eðli og nefskatturinn kemur til með að hafa, nefskatturinn er náttúrlega hreinn skattur, það er ekkert um að villast, afnotagjöldin hafa tenginguna við viðtækið og allt það, þá gætu menn hitað sig upp með því að fara í málaferli út af afnotagjaldinu samtímis því að þeir reyndu að þjarma að Ríkisútvarpinu hvað varðar auglýsingatekjur og frá þeirri hlið. Og þó að þau mál töpuðust eða þvældust í dómskerfinu er alveg augljóst að menn gætu farið af stað á nýjan leik um leið og nefskatturinn kæmi.

Eru þetta björgulegar framtíðarhorfur fyrir fyrirtækið, frú forseti? Landssíminn eða Síminn eins og hann heitir nú hefur ekkert verið allt of sæll af sambúð sinni við samkeppnisaðilana, það hefur gengið á dálitlum klögumálum þar, að mörgu leyti af sambærilegum ástæðum, þ.e. vegna þess að Síminn hafði firnasterka stöðu á markaði, var að koma út úr einokun og einkaleyfisbundinni stöðu með algjöra yfirburðastöðu á markaði úr eign ríkisins og yfir í einkaeign og einkarekstur. Hann hafði þó engar lögvarðar tekjur, eins og afnotagjöld eða nefskatt, en það kom ekki í veg fyrir það að gengið hefur á með þó nokkrum klögumálum og kærum um að hann hafi yfirburði í skjóli sterkrar stöðu sinnar, það sé ósanngjarnt og það verði að setja honum skorður o.s.frv.

Þess vegna væri, frú forseti, langgæfulegast fyrir alla aðila að sjá að sér og falla frá þessari breytingu. Hún er ekki skynsamleg, það sjá allir. Sú spilaborg hefur endanlega hrunið á síðustu mánuðum, að ég tel, sérstaklega þessir samkeppnisþættir og þau vandkvæði sem því eru samfara að taka opinbera menningarstofnun með hlutverk af því tagi sem Ríkisútvarpinu, a.m.k. að nafninu til í frumvarpinu, er áfram ætlað að hafa og setja það yfir á svið einkarekstrarins. Það hefur auðvitað ýmislegt verið rætt og ritað um það hvernig heppilegast væri að búa um Ríkisútvarpið. Við höfum verið þeirrar skoðunar að í raun og veru væri eðlilegast að það væri ríkisútvarp áfram, væri bara hreinn ríkisrekstur. Það er hreinlegast og einfaldast. Það þarf hins vegar að gera breytingar á stjórnkerfinu og við höfum á undanförnum þingum, frú forseti, einn flokka, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, flutt um það beinar tillögur. Hér hefur legið fyrir frumvarp frá okkur þar sem við höfum lagt til að farin yrði svipuð leið með Ríkisútvarpið, hvað varðar stjórnun, dagskrárstjórnun og annað því um líkt, og gert hefur verið sums staðar í kringum okkur, að búið yrði til fjölmennt fulltrúaráð, að búin yrði til breið skjaldborg um Ríkisútvarpið með aðild allra helstu aðila þjóðfélagsins, almannasamtaka, samtaka listamanna o.s.frv., og þannig yrði virkilega reynt að búa til þjóðarsamstöðu um þetta mál, breiða skjaldborg almennings um sitt ríkisútvarp. Við höfum auk þess verið með tillögur sem við teljum miklu betri aðferð í sambandi við hinn trausta tekjustofn Ríkisútvarpsins en sú sem nú er, að maður tali nú ekki um nefskattinn, þ.e. að tekið yrði frekar mið af fasteignum og greitt í samræmi við þær eða fundin einhver önnur slík breið viðmiðun sem er tvímælalaust sanngjarnari en nefskattur og væri einfaldari og skilvirkari aðferð við innheimtuna en núverandi afnotagjöld og líklegri til þess að sæmileg sátt gæti skapast um þau.

Þetta frumvarp er líka gallað vegna þess að það tekur ekki almennilega á réttindum starfsmanna. Það er alveg ljóst að það er uggur í brjósti starfsmanna um að þeirra hagur verði fyrir borð borinn í þessum efnum. Það er líka ljóst að það er ætlunin að fara með Ríkisútvarpið í þann ólgusjó að fara að borga mönnum mismunandi laun, að kaupa inn á háum launum einstaka gæðinga o.s.frv. Það er því nokkuð ljóst að launamunur á stofnuninni mun stóraukast í kjölfarið verði þetta gert. Og það er beinlínis út á það gert, er manni sagt, að ræða það við mann og mann að hann geti átt í vændum gullöld og gleðitíð verði hann þægur og sé ekki með mótþróa í þessu máli og komi sér nú í mjúkinn hjá yfirvöldunum. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að mér geðjast ekkert sérstaklega að svona starfsmannaumhverfi og þeim stjórnunarstíl eða stjórnunaraðferðum sem virðist eiga að innleiða í hinu hlutafélagavædda Ríkisútvarpi.

Þá kem ég að stjórnkerfinu sjálfu sem þetta frumvarp byggir á. Það er auðvitað alveg út úr öllu korti og ekki í neinu samræmi við það sem menn eru að leita að og almennt er verið að reyna að búa um almannaútvörp í nálægum löndum, því að hér á að gera einn útvarpsstjóra nánast alvaldan þannig að hann geti deilt og drottnað, ráðið og rekið og stjórnað ekki bara rekstri heldur dagskrárgerð. Hann þarf að vera meiri afreksmaðurinn, það er eins gott að honum verði ekki mislagðar hendur, hann þarf að vera snillingur á öllum sviðum. Hann þarf að vera afburða rekstrarmaður en hann þarf líka að vera menningarviti og smekkmaður á list, ítem allt annað sem Ríkisútvarpið á að ástunda og standa vörð um. Ég veit ekki hvert menn ætla að sækja slíkan súpermann.

Ég held að það væri þá gæfulegra að hafa þetta eins og aðrar þjóðir reyna að gera, þær mæla með því að búið sé til breitt bakland fyrir almannaútvörpin, að almenningi, almannasamtökum og öðrum slíkum aðilum sé veittur aðgangur að því þannig að stofnunin verði í gagnvirkum og góðum tengslum við umhverfi sitt, við grasrótina, við þjóðina. En þarna á að búa til einhvern fílabeinsturn. Halda menn að það sé aðferðin til þess að þjóðin standi áfram vörð um og þyki vænt um ríkisútvarpið sitt? Það efast ég mjög um.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hver er orðin staða Ríkisútvarpsins í dag, jafngrátt og það hefur verið leikið í 15 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Ég hef sagt það áður og get endurtekið það að útvarpið hefur því miður nánast verið lagt í einelti á margan hátt, Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðskast þannig með það að það stórsér á fyrirbærinu, það er alveg ljóst. Mönnum hafa verið svo mislagðar hendur þar með afskipti sín og ígrip af Ríkisútvarpinu um mannaráðningar og annað að það hálfa væri nóg. Eða muna menn ekki ráðninguna, ráðningartilraunina á fréttastjóranum fyrir ekki löngu síðan og þar áður á dagskrárstjóra inn á sjónvarpið og hvað það nú var? Það hafa verið logandi, grenjandi læti af því að ráða hefur átt pólitíska gæðinga fram hjá fagmönnum með langa starfsreynslu og glæsilegan feril til þess að troða gæðingum þar inn. Það er nú allt hlutleysið og öll hin faglegu vinnubrögð sem menn hafa ástundað. Svo koma menn hér og berja sér á brjóst og tala illa um fortíðina og söguna í þessum efnum. Ég held að menn ættu þá að sýna að þeir geti gert betur.

Ég held að þessi þáttur málsins sé líka stórgallaður, frú forseti, og sé ekki vænlega til farsældar fallinn, þessi stjórnsýsla, þetta módel sem þarna er byggt upp, og augljóst mál að einnig að því leyti þyrfti að vanda þetta mál miklu betur, vinna það í sátt og samlyndi við þá sem auðvitað öllu máli skiptir að hafa jákvæða og hafa með sér í máli af þessu tagi og það eru auðvitað starfsmennirnir, því að hver hefur verið auður Ríkisútvarpsins gegnum tíðina? Það er mannauðurinn. Ríkisútvarpið er það sem það er vegna þess að þar hefur unnið margt afburða fólk gegnum tíðina. Við vorum svo lánsöm að það laðaðist að Ríkisútvarpinu mikið hæfileikafólk og margir vörðu allri starfsævi sinni eða stórum hluta til þess að byggja þar upp stórmerkilega menningarþjónustu, skapa í raun og veru menningu. Margir af menningarvitum þjóðarinnar lögðu þar gríðarlega mikið af mörkum, skáld og listamenn og hæfileikafólk á sviði tónlistar o.s.frv. gerðu Ríkisútvarpið að því menningarlega stórveldi sem það var og hefur verið. Jafnvel á allra síðustu tímum hefur hæfileikafólk unnið mikil afrek á Ríkisútvarpinu.

Auðvitað er það í sjálfu sér glæsilegt hvernig Rás 2, sem meira afþreyingarkennt útvarp með léttara efni, hefur byggst upp og náð þeirri firnasterku stöðu á markaði sem raun ber vitni, vegna þess að það er ekkert sjálfgefið í því. Það voru margir sem spáðu illa fyrir því og töldu að Ríkisútvarpið væri svo „halló“ og svifaseint og mundi aldrei geta það, það mundu einkastöðvar eða einkaaðilar gera. En hver er reyndin? Með góðri blöndu af því besta frá Ríkisútvarpinu hinu gamla og arfleifðinni þaðan og léttara efni og afþreyingu hefur tekist að byggja þar upp mjög vinsæla og öfluga útvarpsrás og það má t.d. spyrja hvers vegna Ríkisútvarpið hafi ekki fyrir löngu síðan fengið að starta annarri sjónvarpsrás. Er það ekki mikið metnaðarleysi? Er það kannski vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið ofan á stofnuninni í 15 ár og hefur engan áhuga haft á því að efla hana og byggja hana upp? Hefur dreymt um að geta einkavætt Rás 2 og farið að þjappa Ríkisútvarpinu aftur saman. Það skyldi nú ekki vera, frú forseti?

Ég vona að eitthvað leggist með okkur, frú forseti, í því yfir jólin og áramótin og fram á nýja árið að menn komi til vits í þessu máli og sjái að sér og hætti við þessa vitleysu. Þetta eru mistök, það er alveg augljóst mál. Ekki skal standa á mér, ef ég og við í mínum flokki getum eitthvað lagt af mörkum til þess að ná sáttum um þetta, að mætast á miðri leið og rétta út sáttarhönd og slá striki yfir það sem liðið er. Við munum ekki erfa deilur þessa kjörtímabils og átök um fjölmiðlamál sem verið hafa löng og mikil og hörð ef í boði verður einhver sanngjörn sátt um málefni Ríkisútvarpsins. Við munum ganga að henni vegna þess að okkur er annt um þessa stofnun og við viljum fyrir alla muni og fyrst og fremst að henni vegni vel og henni verði skapaður starfsfriður og öryggi þannig að hún geti sinnt sínu mikla og mikilvæga menningarhlutverki áfram. Það er kannski aldrei meiri þörf en einmitt nú á mjög öflugu ríkisútvarpi sem heldur íslenskri menningu fram, stendur vörð um íslenska tungu, á þeim tímum hnattvæðingar og mikils flæðis af efni úr öllum áttum sem yfir okkur steypist. Þá er gríðarlega mikilvægt að eiga slíka stofnun, og að í boði sé vandað efni af fjölbreyttum toga fyrir alla aldurshópa, sem sinnir þessu hlutverki og ræktar þennan arf.

Af hverju leggja Frakkar allt það á sig sem þeir gera í þessum efnum? Það er ekki síst vegna franskrar tungu og franskrar menningar. Þeir berjast harðri baráttu fyrir því að hún verði ekki alveg undir og drukkni í flaumnum og voru t.d. að starta alþjóðlegri sjónvarpsrás á frönsku til mótvægis við ensku rásirnar sem flæða yfir. Þó að ólíkum stærðarhlutföllum sé hér saman að jafna, frú forseti, getum við alveg spurt okkur að því: Ætlum við ekki að hafa einhvern metnað líka að þessu leyti? Þá er Ríkisútvarpið, bæði sjónvarp og hljóðvarp, alveg lykilatriði í þessum efnum. Nægt framboð af vönduðu innlendu efni, innlendri dagskrárgerð, afþreyingu og tónlist þarf allt að vera þarna og við getum ekki reitt okkur á einkamarkaðinn í þeim efnum, við getum ekki gert sömu kröfur til hans og til ríkisútvarps. Það er gleðilegt og gott ef hann leggur líka sitt af mörkum og vonandi verður það og þetta þarf ekkert að rekast hvað á annað.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki tímabært og gangi ekki að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði að svo stöddu. Það hefði ýmsa galla í för með sér, m.a. þá að þá komast ekki auglýsingar og skilaboð í gegnum þann miðil til þjóðarinnar, þeirra sem fyrst og fremst hlusta eða horfa á þá miðla. Það yrðu líka fáir aðrir til staðar í byrjun og ekki mikil samkeppni á markaðnum ef Ríkisútvarpið hyrfi þaðan allt í einu. Ég er líka þeirrar skoðunar vegna þess að ég er ekki viss um að menn hafi metnað til þess að leggja nægjanlegt fé til Ríkisútvarpsins til að halda starfsemi þess úti með beinum ríkisframlögum. Ef svo væri mundi ég að sjálfsögðu vera tilbúinn til að skoða þann kost og ég útiloka hann ekki einhvern tíma í fyllingu tímans. Það er ekki tímabært að svo stöddu, þvert á móti þurfum við að efla Ríkisútvarpið, búa betur að því, skapa því starfssvið og sjá svo til hvernig þróunin verður í þessum efnum, setja í framhaldinu almenn fjölmiðlalög, það þarf að gera, og sjá svo til hvernig þróunin verður og hvernig aðstæður verða, t.d. að 3–5 árum liðnum, það má alltaf endurskoða þessa hluti. En mistök af því tagi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi eru allt of dýru verði keypt, þó að þau verði vonandi hægt að leiðrétta og bæta skaðann að mestu leyti. Og hér skal það sagt, frú forseti, að lokum að Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun gera allt sem hún getur til þess, verði Ríkisútvarpið gert að hlutafélagi, að snúa því til baka að loknum kosningum. Við munum hafa það sem eitt af okkar baráttumálum í kosningabaráttunni og forgangsverkefni í samningum við aðra eftir kosningar að færa þjóðinni aftur sitt ríkisútvarp.