133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:00]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta eru búnar að vera áhugaverðar umræður um Ríkisútvarpið í dag og verða án efa eitthvað fram á kvöld. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þetta mál allt saman er að verða ein sorgarsaga. Það er svo merkilegt að það eru engar deilur um að fjölmiðlaumhverfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum og þess vegna er mikilvægt að skoða Ríkisútvarpið, stöðu þess og hlutverk í því samhengi. Það sem mér finnst sérkennilegt í þessu öllu saman eru vinnubrögðin og aðferðirnar. Núna eru rúm 20 ár, ég held 22, síðan einkaleyfi RÚV var afnumið. Þess vegna þykir mér vægast sagt undarlegt að þegar á að gera svona gagngerar og miklar breytingar á lögunum um Ríkisútvarpið sé það ekki betur gert en raun ber vitni. Við sjáum það bara á þessari sorgarsögu og þeim vandræðagangi sem verið hefur með Ríkisútvarpið hjá þessari ríkisstjórn, farið frá frumvarpi sem var Ríkisútvarpið sf. yfir í frumvarp sem var Ríkisútvarpið hf. og svo erum við hér að ræða Ríkisútvarpið ohf. Ríkisstjórnin hefur í þessum frumvörpum þremur í engu tekið á helstu deiluefnunum varðandi Ríkisútvarpið. Það er heldur ekki gert í þessu nýjasta frumvarpi og ég verð að segja að mér þykja vinnubrögðin sérkennileg. Það er farið í þverpólitískan leiðangur með þverpólitíska nefnd um fjölmiðla og fjölmiðlaumhverfi á Íslandi og Ríkisútvarpið er þar fyrir utan sviga. Ríkisútvarpið er ekki með í umfjöllun um fjölmiðlamarkaðinn og það hlýtur að teljast undarlegt, virðulegi forseti, vegna þess að Ríkisútvarpið er risi á fjölmiðlamarkaðnum og því mjög eðlilegt að hann sé tekinn í samhengi.

Ég verð að segja, frú forseti, að tilgangurinn með því að taka Ríkisútvarpið út fyrir sviga er mér hulin ráðgáta. Það hefur aldrei komið fram frá hæstv. ríkisstjórn hvers vegna það var gert og þá koma auðvitað upp þær raddir hjá fólki sem telur að leiðangurinn sé, hjá Sjálfstæðisflokknum í það minnsta, að selja á endanum Ríkisútvarpið og að hér sé verið að liðka fyrir því. Um þetta mál, Ríkisútvarpið, hefur ekki farið fram nein þverpólitísk umræða. Við erum að byggja upp og ætlum að byggja upp almennilegt almannaútvarp sem á að standa til framtíðar og þá eiga almennileg stjórnvöld, stjórnvöld sem vilja vinna málið af ábyrgð og festu og vilja Ríkisútvarpinu raunverulega vel, að skapa um þetta mál þverpólitíska samstöðu. Ég tel að það hefði verið hægt að gera það í staðinn fyrir að hefja þessa sorgargöngu Ríkisútvarpsins eða frumvarpanna innan þessara veggja. Þetta er allt ein hörmungarsaga.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að þetta mál væri illa unnið, og þeim stórpólitísku spurningum og deiluefnum sem verið hafa uppi á undanförnum árum varðandi Ríkisútvarpið og rekstur þess er alls ekki svarað með þessu frumvarpi. Það er ekki á þeim tekið. Get ég nefnt sem dæmi breytingar sem gerðar eru á fjármögnuninni, þ.e. að afnotagjöldin eru lögð niður og í staðinn á að taka upp nefskatt sem er að mínu mati afar vond leið og alls ekki til þess fallin að skapa sátt um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Síðan vil ég nefna líka að mér finnst mjög undarlegt að lengi hefur verið á það deilt í þjóðfélaginu og ríkt ákveðin tortryggni í garð Ríkisútvarpsins vegna þeirra pólitísku ítaka sem hafa verið í útvarpsráði þannig að útvarpsráð hefur endurspeglað meiri hlutann á Alþingi hverju sinni. Þetta hefur verið verulega gagnrýnt og í þessu frumvarpi er enn þá gefið í í þeim efnum. Mun ég fara betur yfir það í ræðu minni á eftir. Pólitískum ítökum er gefið framhaldslíf og, eins og ég segi, frekar gefið í en hitt. Síðan eru auðvitað miklar deilur um rekstrarformið. Það rekstrarform sem hér hefur verið valið, að „oháeffa“ Ríkisútvarpið, er auðvitað afar umdeild leið og menn hafa spurt sig hvers vegna sú leið sé farin, svo umdeild leið. Hafa menn innan stjórnarflokkanna líka velt upp þeirri spurningu hvers vegna eigi að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið ef ekki eigi að selja það? Það er stóra spurningin sem eftir lifir og sem þessi ríkisstjórn verður að svara. Hæstv. menntamálaráðherra verður að fara að svara þessu.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að það er mikilvægt að breyta lögum um Ríkisútvarpið. Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir því. Hv. þm. Mörður Árnason hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu í því skyni þannig að afstaða okkar hefur verið ljós um alllanga hríð. Síðan var hún kynnt sérstaklega á blaðamannafundi í morgun. Afstaða okkar til Ríkisútvarpsins og framtíðar þess var dregin saman þannig að Samfylkingin hefur talað skýrt í þessu máli. Við erum sammála um að það eigi að breyta lögunum um Ríkisútvarpið. Það eru ýmsar breytingar sem þarf að gera á þeim og um það eitt og sér hefur verið nokkur sátt og lengi verið kallað eftir því svo að Ríkisútvarpið ætti hægara um vik að starfa í því fjölmiðlaumhverfi sem við búum við í dag sem er auðvitað allt annað en var fyrir 20 árum, og sem var hér þegar Ríkisútvarpið var stofnað sem er orðið enn lengra síðan.

Fjölmiðlaumhverfið hefur tekið mjög miklum breytingum á undanförnum árum og því er mikilvægt og tímabært að skoða Ríkisútvarpið, stöðu þess og hlutverk í því samhengi. Því hefði að mínu mati verið skynsamlegra, og allra skynsamlegast, að taka umræðuna um Ríkisútvarpið samhliða umræðunni um ný fjölmiðlalög og í fjölmiðlanefndinni. Við getum ekki tekið svona risa á markaði eins og Ríkisútvarpið er og haft hann fyrir utan sviga þegar umfjöllun um fjölmiðla er sett í þverpólitískan farveg. Þetta eru mjög undarleg vinnubrögð, frú forseti, og ég átta mig ekki á ástæðunni nema hún sé sú að ríkisstjórnin hafi viljað makka með Ríkisútvarpið og framtíð þess í bakherbergjum vegna þess að hún sé í einhverjum leiðangri. Þess vegna skil ég að menn telji að leiðangurinn muni enda á því að Ríkisútvarpið verði selt.

Í þessari fjölmiðlanefnd var farið mjög djúpt í málin og mikil umræða hefur átt sér stað um fjölmiðlamarkaðinn. Þetta var þverpólitísk nefnd og það var talið mjög mikilvægt eftir þessar miklu deilur um fjölmiðlalögin fyrir tveimur árum að um þetta ríkti þverpólitísk samstaða. Þess vegna finnst mér afar sérkennilegt að Ríkisútvarpið, málefni þess, hlutverk og framtíð hafi ekki verið rædd í því samhengi og vil varpa þeirri spurningu til stjórnarliða og þeirra sem standa að þessu frumvarpi hvers vegna það hafi ekki verið gert. Því hefur aldrei verið svarað. Ég hef talið farsælustu vinnubrögðin þau að það yrði sett í hendur þverpólitískrar nefndar að reyna að ná sátt um þessa mikilvægu stofnun. Það er staðreynd að við viljum að hér sé rekið öflugt raunverulegt almannaútvarp. Við vitum það og það hafa kannanir sýnt að fólkið í þessu landi lítur á Ríkisútvarpið sem mjög mikilvæga stofnun og treystir því vel fyrir fréttaflutningi og öðru slíku. Þess vegna er svo mikilvægt að um þessa starfsemi ríki friður og samstaða. Þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð ná ekki því markmiði.

Það virðist sem þessi ríkisstjórn hafi ekki talið neina þörf á samstarfi eða samráði um breytingarnar á Ríkisútvarpinu. Það er eins og að hún hafi ekki talið að það þyrfti neina samstöðu um þetta mál. Mér er algerlega óskiljanlegt hvers vegna menn vilja keyra þetta mál svona fram eins og raunin er.

Virðulegi forseti. Fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd hafa gert mjög ítarlega grein fyrir afstöðu okkar í þessu máli í nefndaráliti og ég ætla ekki að fara yfir það nefndarálit sérstaklega hér. Hins vegar eru nokkur atriði eins og ég kom inn á í upphafi ræðu minnar sem ég vil ræða sérstaklega, staða Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnmálunum, hin pólitísku ítök í Ríkisútvarpinu og sömuleiðis nefskatturinn og þá vil ég líka aðeins ræða rekstrarformið.

Hingað til vitum við að miklar deilur hafa staðið um Ríkisútvarpið, og það sem stofnun hefur oft fengið á sig talsverða gagnrýni. Það hefur gætt tortryggni í garð hennar vegna þeirrar staðreyndar að henni hefur verið stjórnað af ríkisstjórnarmeirihlutanum í gegnum útvarpsráð sem hefur endurspeglað meiri hlutann á Alþingi. Þetta fyrirkomulag hefur vægast sagt verið mjög umdeilt og þess vegna undrast ég það og skil ekki hvers vegna menn mæta hér með nýtt frumvarp í þriðja sinn þar sem þessu formi er viðhaldið. Og ef eitthvað er þá er bara gefið í í þessum efnum. Ef þetta frumvarp verður að lögum er staðan þannig að það verður stjórn yfir stofnuninni sem mun endurspegla flokkahlutföll á Alþingi. Þarna inni verða í meiri hluta fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem eru í ríkisstjórn hverju sinni. Þessu er gefið framhaldslíf. Að auki verður það þannig að í stað þess eins og það er nú, að menntamálaráðherra skipi útvarpsstjóra, mun þessi stjórn sem er skipuð þannig að meiri hluti fyrir henni, sá meiri hluti sem ríkisstjórnin skipar, ráða því alfarið hvenær útvarpsstjóri er ráðinn og hvenær rekinn. Þessi útvarpsstjóri fer síðan samkvæmt frumvarpinu með öll starfsmannamál þannig að við sjáum að það er þráðbein lína héðan af ríkisstjórnarbekknum í gegnum alla stofnunina, hin pólitísku ítök, og hönd ríkisstjórnarinnar nær þar alla leið í gegn. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, er kominn og því vil ég geta þess að ég hjó eftir því í viðtali við hann nýverið í Íslandi í bítið um Ríkisútvarpið og það frumvarp sem hér liggur fyrir að hann fullyrti að vegna þess að menntamálaráðherra skipaði ekki lengur útvarpsstjóra samkvæmt þessu frumvarpi væri slakað á pólitískum ítökum. Ég undrast þessi ummæli vegna þess að annaðhvort er hv. þingmaður að reyna að slá ryki í augu fólks sem á hann hlýddi eða þá, og ég spyr hv. þingmann hvort hann trúi þessu raunverulega sjálfur, að hann gleymdi að láta fylgja með þær staðreyndir sem ég var að fara yfir. Útvarpsstjóri verður ráðinn og hann verður rekinn af stjórn sem endurspeglar valdahlutföll hér á Alþingi. Þegar slíkt hangir yfir þýðir það að ríkisstjórnin sem situr á þessum bekkjum hefur heilmikið vald yfir útvarpsstjóranum sem síðan ræður því hverjir eru ráðnir inn til Ríkisútvarpsins.

Þarna, virðulegi forseti, er ekkert verið að gera annað en gefa í í þessum efnum. Við í Samfylkingunni höfum í málflutningi okkar mótmælt þessu, og höfum lagt fram hugmyndir og tillögur að því hvernig við vildum sjá þetta. Hvernig við vildum sjá þetta gert og hvernig við getum leyst þennan vanda vegna þess að þetta mun verða vandi Ríkisútvarpsins verði frumvarpið að lögum. Þá verður þetta stór vandi hjá Ríkisútvarpinu til framtíðar.

Við höfum sagt og lögðum fram tillögur okkar á blaðamannafundi í morgun um að við teldum að starfsmenn Ríkisútvarpsins ættu að eiga fulltrúa í stjórninni og þannig verði það tryggt að ekki sé ráðandi ríkisstjórnarmeirihluti í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta er mjög mikilvægur þáttur. Það skiptir öllu máli fyrir framtíð stofnunarinnar að það verði ekki þráður beint af ríkisstjórnarbekknum inn í gegnum allt útvarpið.

Jafnframt leggjum við í Samfylkingunni til að almenningur eigi að eiga aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstilli sérstaks hlustendaþings sem komi saman einu sinni á ári. Við viljum að pólitísk afskipti af innri málefnum útvarpsins verði afnumin. Skýrara getur það ekki verið.

Í tillögum okkar og stefnu segjum við einnig að Ríkisútvarpið verði sem almannaútvarp að vera sjálfstætt og óháð stjórnmála- og viðskiptahagsmunum og þá jafnframt að starfsmenn verði að búa við ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þannig gætum við tryggt faglega umfjöllun um menn og málefni á vettvangi stjórnmála og atvinnulífs.

Þetta, frú forseti, er einnig gríðarlega mikilvægt og við í Samfylkingunni höfum í gegnum tíðina talað mjög fyrir þessu. Mig minnir að Bryndís Hlöðversdóttir hafi, þegar hún sat á hér, lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu frekar en frumvarp um þetta ritstjórnarlega sjálfstæði.

Fjölmargar umsagnir hafa borist um þetta mál. Þær eru margar afar áhugaverðar og þær nefna margar einmitt þetta atriði. Þar er komið inn á það atriði að mikilvægt sé að stjórnin endurspegli ekki valdahlutföll á Alþingi til að tryggja að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt.

Það er svo merkilegt að það gerðist líka á síðasta ári þegar frumvarp um Ríkisútvarpið hf. lá fyrir Alþingi að inn komu mjög margar góðar, vel ígrundaðar, vel útfærðar og vel rökstuddar umsagnir sem ekkert var hlustað á. Í einni þeirra var beinlínis sagt að menn vonuðust til að tekið yrði mark á innihaldinu, en reynsla þeirra aðila sem gáfu umsagnir væri sú að yfirleitt væri ekki tekið tillit til þeirra ábendinga sem í umsögnum þeirra kæmu.

Það er auðvitað eitt og sér, frú forseti, mikið áhyggjuefni ef umsagnaraðilar eru farnir að vita og gefa sér að ekkert verði á þá hlustað. Þannig hefur núverandi ríkisstjórn starfað. Það er því ekkert skrýtið þó hún sé komin með þetta orð á sig.

En núna í ár í þessari þriðju atrennu hefur talsvert af umsögnum komið. Eins og ég sagði komu margar þeirra inn á mikilvægi þess að breyta stjórninni og skipan hennar. Má þar t.d. nefna Alþýðusamband Íslands, en í umsögn þess kemur fram að ASÍ telji mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og telur að það megi gera með því að taka upp svipað fyrirkomulag og þekkist víða, þ.e. að starfsmönnum og sjálfstæðum aðilum utan stofnunarinnar verði auk þings gert að skipa fulltrúa í stjórn stofnunarinnar.

Þarna er þetta beinlínis lagt til og lögð á þetta mikil áhersla. Einnig segir í umsögninni varðandi stjórnina eins og hún er hugsuð í frumvarpinu „að til þess að tryggja sjálfstæði starfsmanna gagnvart stjórn og framkvæmdastjóra er og nauðsynlegt að lögin geymi sérstök ákvæði um málefnalegar, rökstuddar og áfrýjanlegar uppsagnir.“

Þetta kemur allt inn í það, virðulegi forseti, að verið er að gera breytingar á öllu Ríkisútvarpinu og þetta er engan veginn tryggt, heldur getur ríkisstjórnin með þræði sínum skipt sér af einstaka starfsmönnum í gegnum ósjálfstæðan útvarpsstjóra.

Að auki vil ég nefna að Blaðamannafélag Íslands tekur í svipaðan streng og segir að stjórn Blaðamannafélags Íslands leggi til að fleiri aðilar en Alþingi fái að skipa fulltrúa í stjórn hlutafélagsins, m.a. starfsmenn Ríkisútvarpsins og nefna að slíkt eigi sér fordæmi í nágrannalöndum okkar og útvarpsráð NRK sé til að mynda skipað þremur fulltrúum starfsmanna í níu manna stjórn. Beinlínis er sagt í umsögn Blaðamannafélagsins að þannig megi stuðla að því að önnur sjónarmið en flokkspólitísk ráði för hjá stjórn hlutafélagsins, t.d. við ráðningu útvarpsstjóra.

Það er því mjög gagnsætt í hvaða leiðangri ríkisstjórnin er og menn hafa auðvitað áhyggjur af þessu víða í samfélaginu, eins og fram kemur í þessari umsögn og umsögn ASÍ.

Síðan segir í umsögn Blaðamannafélagsins að stjórn Blaðamannafélagsins telji rétt að skilgreina betur starfssvið útvarpsstjóra í lögunum, eða að lögin kveði á um að settar verði sérstakar reglur sem tryggi sjálfstæði ritstjórna gagnvart útvarpsstjóra. Þetta er sagt vegna þeirrar stöðu sem útvarpsstjóri er í samkvæmt frumvarpinu, að vera ráðinn og rekinn af pólitískri stjórn. Það eru því fleiri en við í Samfylkingunni sem höfum áhyggjur af þessu.

Félag fréttamanna sendi einnig inn umsögn og í henni kemur fram að Félag fréttamanna vilji að fulltrúi starfsmanna komi að stjórn fyrirtækisins. Þetta kemur fram mjög víða í mörgum umsögnum. Félag fréttamanna er líka á svipuðum nótum og við í Samfylkingunni með að það leggur áherslu á að aðgengi almennings í landinu að Ríkisútvarpinu sem opinberu hlutafélagi verði tryggt, að fólk geti haft áhrif og komið skoðunum sínum á framfæri við Ríkisútvarpið ohf. og það verði að kveða skýrt á um þetta aðgengi í lögum. Það sama eigi að gilda um upplýsingar um fjölmiðilinn og dagskrárstefnu hans.

Þetta er mjög í anda þess sem Samfylkingin hefur lagt til, þ.e. að almenningur eigi aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstuðlan hlustendaþings.

Þá er líka áréttað í umsögninni að Félag fréttamanna leggi „áherslu á að „eldveggir“ verði viðhafðir innan fyrirtækisins til að verja sjálfstæða umfjöllun.“ Þarna, frú forseti, kemur þetta allt saman fram vegna þess að þeir aðilar hafa áhyggjur af pólitískum ítökum.

Þá er hér ágæt umsögn frá Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins þar sem Hollvinasamtökin hafa einnig verulegar áhyggjur af pólitískri íhlutun. Segir hér, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu verður stjórn RÚV ohf. skipuð fimm mönnum, sem kosnir verða hlutfallskosningu á Alþingi, og þar með ræður öllu pólitískur meiri hluti hverju sinni. Stjórnin ræður útvarpsstjóra og getur rekið hann fyrirvaralaust, en það getur þýtt ósjálfstæði útvarpsstjóra gagnvart hvort tveggja, stjórninni og menntamálaráðherra, sem er handhafi eina hlutabréfs RÚV ohf.“

Þarna er varað við þessu. Einnig segir að Hollvinasamtökin leggi á það áherslu að gengið verði langt í því að losa stjórn Ríkisútvarpsins undan hinu flokkspólitíska valdi og meirihlutavaldi Alþingis hverju sinni og telja nauðsynlegt að nánar sé kveðið á um stjórn Ríkisútvarpsins. Það sem þeir leggja síðan til er að æðsta stjórn stofnunarinnar verði enn breiðari en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Þessi staðreynd er því áhyggjuefni margra og að gefið sé svona í í þessum pólitísku ítökum. Það er ekki að ástæðulausu sem slíkar áhyggjur eru, enda hefur þetta frumvarp meira og minna verið unnið í baktjaldamakki milli þeirra tveggja flokka sem nú eru í ríkisstjórn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Aðrir hafa ekki átt aðkomu að því starfi og ekki hefur verið hlustað á umsagnir sem hafa komið um þau frumvörp sem hér hafa legið fyrir. Það er því alveg borðleggjandi að það mun ríkja áfram, því miður, veruleg tortryggni í garð Ríkisútvarpsins sem er eitthvað sem við ættum að vera að vinna gegn og vinna í að breyta en ekki eins og ríkisstjórnin gerir, sem er hreinlega að bæta í.

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir var í andsvari í dag og svaraði einmitt spurningum um þá staðreynd, þ.e. þessa pólitísku íhlutun. Ég átti eiginlega ekki til orð. Hún, eins og Sigurður Kári Kristjánsson, heldur því fram að verið sé að draga úr í þessu frumvarpi, verið sé að draga úr pólitískum tökum vegna þess að útvarpsráð sé ekki lengur með puttana í dagskrárgerð, eins og hv. þingmaður sagði. Og það væri liður í að minnka þessa pólitísku íhlutun sem hún viðurkenndi reyndar að hefði verið allt of mikil í gegnum tíðina.

En ég vona, sem ég held að hv. þingmaður hafi ekki áttað sig á, en ég vona að hún muni átta sig á, að það frumvarp sem hún styður eykur pólitíska íhlutun. Þó svo að útvarpsráð sé ekki lengur beint með puttana í dagskrárgerð, eins og hún orðaði það, þá hefur útvarpsráð allt um það að segja með ordrur frá sinni ríkisstjórn um hvaða starfsmenn eru ráðnir, hvaða starfsmenn eru reknir, og sem síðan auðvitað eru í dagskrárgerðinni. Sambandið er því auðvitað mjög sterkt og allt of sterkt.

Ég ætla ekki að dvelja lengur við þetta atriði en eins og heyra má hef ég af þessu verulegar áhyggjur og ég harma að menn skuli ekki taka á þessu þegar við erum að vinna í þessu máli hér og nú.

Ég nefndi áðan að ég hef einnig mótmælt bæði á þessu þingi, við 1. umr., og líka þegar frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. kom fram, nefskattinum sem hæstv. menntamálaráðherra ætlar að leggja á þjóðina. Þetta tel ég arfavonda leið til að fjármagna Ríkisútvarpið. Afnotagjöldin hafa verið umdeild en að skipta á afnotagjöldum og nefskatti tel ég eitthvað það vitlausasta sem ég hef lengi heyrt. Það mun ekki skapa sátt um fjármögnun Ríkisútvarpsins að setja hér á nefskatt. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að borgurum þessa lands er mismunað með þessum hætti vegna þess að þeir sem lifa að mestu leyti á fjármagnstekjum munu margir hverjir sleppa við að greiða þennan skatt. Margir hverjir gefa ekki upp miklar launatekjur og þá verða þeir undanþegnir þessum skatti þannig að þar með er komin mismunun milli venjulegra launþega og þeirra sem mikið eiga og geta lifað af fjármagnstekjum sínum. Þess vegna er nefskatturinn óréttlátur og einnig er hann óréttlátur vegna þess að hann mun leggjast þungt á fjölskyldur þar sem eru mörg börn yfir 16 ára aldri. Það kemur beinlínis fram í greinargerð með frumvarpinu að almennt mætti miða við að skattlagningin verði þannig að hvert þriggja manna heimili yrði jafnsett og að gjaldið mundi lækka fyrir fámennari heimili en hækka fyrir heimili þar sem einstaklingar 16 ára og eldri væru fleiri en fjórir, þ.e. foreldrar og tvö börn.

Þetta er nokkuð sem við hljótum að mótmæla og við í Samfylkingunni höfum mótmælt þessu. Mér finnst rétt í þessari umræðu að draga fram umsögn ríkisskattstjóra um þetta mál. Við vinnslu málsins í nefndinni kom umsögn frá ríkisskattstjóra þar sem vísað er í umsögn frá 15. mars 2006 og að hún stæði enn. Sú umsögn sem aðallega fjallar um þennan nefskatt er afar áhugaverð þar sem farið er hörðum orðum um þann kost fyrir Ríkisútvarpið að taka upp nefskatt. Það sem ríkisskattstjóri segir í umsögn sinni er að helsti ókostur nefskattsins sé að hann taki ekki tillit til greiðslugetu og sé íþyngjandi fyrir tekjulága. Þeir greiða hærra hlutfall tekna sinna í skattinn en þeir sem hærri hafa tekjurnar. Hann segir sömuleiðis að af þessum ástæðum sé það sjaldgæft að nefskattar séu lagðir á, a.m.k. af stærðargráðu sem veruleg getur talist. Síðan í þessari mjög svo áhugaverðu umsögn frá ríkisskattstjóra fer hann langt aftur í aldir í röksemdafærslu sinni fyrir því hvers vegna ekki eigi að taka upp slíkan nefskatt og segir í umsögn sinni að fyrr á öldum hafi nefskattur verið algengur en sé að mestu horfinn í dag.

Hann nefnir tvö þekkt dæmi úr skattasögunni, annars vegar skatt sem Ríkharður II. Englandskonungur lagði á árið 1380 til að fjármagna stríðið við Frakkland. Hann bendir á að sá skattur hafi leitt til bændauppreisnarinnar árið 1381, þ.e. ári síðar. Hins vegar nefnir hann dæmi eða tilraun á síðari tímum til að leggja á verulegan nefskatt, það hafi verið þegar stjórn Margrét Thatcher á Englandi lét lögleiða nefskatt í stað nokkurs konar fasteignagjalda til að fjármagna starfsemi sveitarfélaga. Skattinum hafi verið komið á 1989–1990 og mætt mikilli andstöðu, milljónir manna hafi neitað að borga hann og náðu mótmælin síðan hámarki sínu með óeirðum á Trafalgartorgi í lok mars árið 1990. Hann segir að andstaða innan Íhaldsflokksins hafi leitt m.a. til þess að Margrét Thatcher sagði síðan af sér þá um haustið. Arftakar hennar hafi síðan lækkað þennan skatt og afnumið hann frá og með árinu 1994.

Þetta, virðulegi forseti, fannst mér mjög áhugavert í þessari umsögn ríkisskattstjóra, að hann tæki þessi dæmi, annað frá 1380 og hitt nýlegra frá íhaldsmönnum og án efa einni af fyrirmyndum hæstv. menntamálaráðherra, Margréti Thatcher, og færi svona hressilega yfir það hver örlög hennar urðu og rekti það til þessa nefskatts sem hún leiddi í lög.

Ég hvet sem flesta til að lesa þessa umsögn vegna þess að hún er, eins og ég segi, bæði skemmtileg aflestrar og svo er hún líka mjög gagnleg. Ég skil gjörsamlega ekki hvers vegna hv. menntamálanefnd hleypti frumvarpinu í gegn með þessum nefskatti innan borðs eftir lestur þessarar umsagnar.

Þar segir líka að helsti gallinn við nefskatt sé tengslaleysi hans við gjaldþol manna. Í þessu tilfelli sé brugðist við með því að undanþiggja hina tekjulægstu gjaldinu og að frítekjumörkum fyrir fast krónugjald fylgi ákveðin vandamál vegna þeirra sem eru hvorir sínum megin næst mörkunum. Þetta getur vakið spurningu um jafnræði. Hið sama á við þegar litið er til mismunandi skattlagningar hjóna. Þá segir: Þá eru skattfrelsismörkin samkvæmt frumvarpinu með þeim annmarka að eingöngu er miðað við almennar tekjur, það eru launatekjur og þess háttar, en ekki fjármagnstekjur. Allstór hópur manna hefur auðvitað miklar tekjur af eignum en mjög lágar launatekjur og verður þar með samkvæmt þessu frumvarpi undanþeginn gjaldinu.

Virðulegi forseti. Það gerist æ oftar í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar að svona skattlagning á sér stað, þ.e. hinir efnameiri sleppa á meðan þeir tekjulægstu sitja uppi með skattþungann. Þetta hefur verið þróunin á skattbyrðinni í tíð þessarar ríkisstjórnar og enn er haldið áfram á sömu braut með þessu frumvarpi.

Þá segir líka í þessari áhugaverðu umsögn að frá skattalegu sjónarmiði séð hafi nefskattur á einstaklinga fáa kosti en mjög marga galla. Þá segir að samkvæmt frumvarpinu beri einnig að leggja skatta á lögaðila og menn og að fyrir þeirri tilhögun séu ekki færð nein sérstök rök í greinargerðinni. En það er áhugavert þegar ríkisskattstjóri fer yfir það hér hvað lögaðilana varðar að hann bendir á að gjaldskyldir lögaðilar yrðu samkvæmt frumvarpinu um 26 þús. og af þeim greiddi í dag um helmingur tekjuskatt eða önnur gjöld til ríkisins. Nýir skattgreiðendur úr röðum lögaðila yrðu þá 13 þús. Þá segir hér að vert sé að hafa í huga að ætla megi að verulegur hluti hinna nýju skattgreiðenda yrði félög sem ekki eru starfandi og hafa því engar tekjur til að greiða gjaldið af.

Eins og ég segi er þetta afar áhugaverð umsögn og ég hvet hv. menntamálanefnd til að kynna sér hana betur. Ég undrast að þessu frumvarpi hafi verið hleypt í gegn með þessum nefskatti miðað við góða röksemdafærslu í þessari umsögn og líka miðað við umsagnir aðrar sem hafa komið, t.d. frá Félagi fréttamanna, Hollvinasamtökunum, ASÍ og Neytendasamtökunum. Öll hafa þau gagnrýnt harðlega þennan nefskatt.

Félag fréttamanna telur að frekar eigi að halda í afnotagjöldin en að fara þá leið sem hér er valin og bendir réttilega á að það sé engin krafa af hálfu ESA, sem er Eftirlitsstofnun EFTA, að leggja afnotagjöldin niður. Sjálf er ég ekki sammála því og við í Samfylkingunni erum ekki sammála því að besta leiðin sé að halda afnotagjöldunum eins og þau eru. Vissulega á að gera á þeim breytingar en nefskattur leysir alls ekki það vandamál sem afnotagjöldin valda og heldur ekki þær miklu deilur sem staðið hafa um þetta umdeilda gjald.

Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafa líka miklar efasemdir um að þeir sem sætti sig illa eða ekki beint við afnotagjald muni frekar sætta sig við nefskattinn. Þau benda réttilega á, eins og ríkisskattstjóri gerði í þeirri umsögn sem ég fór yfir áðan, að helsti galli nefskatta sé augljóslega að þeir leggjast þyngst á þá sem hafa lágar tekjur. Þeir geta þurft að greiða hátt hlutfall af tekjum sínum þegar allir greiða sömu krónutölu.

Þá segir hér að skattfrelsismörk samkvæmt frumvarpinu séu með þeim annmarka að eingöngu sé miðað við almennar tekjur, launatekjur, en ekki fjármagnstekjur. Og hér er bent á, eins og hjá ríkisskattstjóra, þann stóra hóp sem hefur miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur sem yrði þá undanþeginn þessum skatti.

Neytendasamtökin fjalla líka um þetta í sinni umsögn og segja að Neytendasamtökin hafi fjallað ítarlega um hvernig rétt sé að standa að fjármögnun Ríkisútvarpsins. Þau segja það skoðun sína að upphæð nefskatts sem kynnt er í frumvarpinu sé mjög há og komi illa við mörg heimili þar sem stálpaðir unglingar búa enn í foreldrahúsum, eða ungt fólk. Neytendasamtökin nefna líka að skylduáskriftin með afnotagjöldunum hafi reynst mjög óvinsæl hjá mörgum og segja hér, sem er alveg hárrétt hjá þeim, að hætt sé við því að nefskattur sem yrði jafnhár og frumvarpið gerir ráð fyrir verði alveg jafnóvinsæll.

Neytendasamtökin mæla með því að það verði skoðað hvort ekki eigi að flétta saman mismunandi fjármögnunarleiðir. Það er auðvitað eitthvað sem við í Samfylkingunni höfum lagt til, m.a. í þeim tillögum sem við kynntum í morgun og það hefur reyndar komið fram líka í gegnum tíðina, þá ekki síst í þingsályktunartillögu hv. þm. Marðar Árnasonar sem er að mig minnir tveggja ára gömul. Þar kemur fram, og í þessum tillögum okkar sem við kynntum, að Samfylkingin hefur skýra sýn í þessu og vill að fjármögnunin verði blönduð, það verði annars vegar ríkisframlag og síðan sérstakar aðrar tekjur, það verði með auglýsingatekjum sem þó muni lækka frá því sem nú er og verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins. Í dag er þetta á bilinu 25–30% af tekjum Ríkisútvarpsins.

Þetta leggjum við auðvitað til til þess að svara þeirri gagnrýni sem komið hefur á þá staðreynd, m.a. frá Samkeppniseftirlitinu og fleirum, að Ríkisútvarpið gín yfir þessum markaði og er stór og það verður auðvitað að gefa öðrum fjölmiðlum meira svigrúm á markaðnum.

Þessi ræða er að verða lengri en ég hafði ætlað mér en mér liggur nú margt á hjarta í þessu máli, ekki síst hef ég verulegar áhyggjur af þessum pólitísku ítökum og nefskattinum og hef farið hér yfir það.

Mig langar að koma stuttlega inn á rekstrarformið. Ég og við í Samfylkingunni höfum ekki verið hlynnt því að Ríkisútvarpið verði hlutafélagavætt. Ég held að það hafi verið Björn Ingi Hrafnsson sem spurði: Hvers vegna hlutafélag ef ekki á að selja? Ég held að við getum tekið undir það með þeim ágæta framsóknarmanni og spurt hins sama. Þeirrar spurningar mætti spyrja Framsóknarflokkinn á Alþingi: Hvers vegna hlutafélag ef ekki á að selja? Við í Samfylkingunni höfum lagt til að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi kýs auk starfsmanna. Sjálfseignarstofnun er þekkt fyrirkomulag og hefur reynst vel við rekstur hjá opinberum aðilum, t.d. á háskólastigi. Það gæfi Ríkisútvarpinu það svigrúm sem það þarf í þeirri stöðu sem það býr við í dag, skapar ákveðna fjarlægð frá pólitíkinni og eigendunum og gefur því sjálfstæði. Ég hefði talið sjálfseignarstofnun mun heppilegra form.

Frú forseti. Mér finnst ekki hafa verið nægjanlega rökstutt hvers vegna eigi að oháeffa Ríkisútvarpið. Þetta fyrirkomulag hefur auðvitað verið harðlega gagnrýnt úr öllum áttum, frá hægri og frá vinstri. Frá vinstri hefur það verið gagnrýnt vegna þess að við viljum ekki að Ríkisútvarpið verði selt. Við viljum reka öflugt almannaútvarp. Frá hægri hefur þetta verið gagnrýnt, af frjálshyggjumönnum vegna þess að ekki sé viðeigandi að búa til hlutafélag úr stofnun sem er að mestu leyti rekin fyrir almannafé, það skekki stöðuna á samkeppnismarkaði. Undir hvort tveggja er í sjálfu sér hægt að taka. Þetta hefur verið gagnrýnt mjög harðlega úr ýmsum áttum. Ég ætla ekki að fara yfir það nánar enda hefur það verið gert ágætlega í öðrum ræðum. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fór yfir það en þó þykir mér rétt að rifja upp að í leiðara eftir Þorstein Pálsson, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, frá því í mars í fyrra þegar við vorum að ræða um Ríkisútvarpið hf. og það frumvarp, gagnrýndi hann þessar hugmyndir mjög harðlega undir yfirskriftinni „rauðkuhugmyndafræði“. Hann færði fyrir því ágæt rök hvers vegna breytingar sem þessar væru ekki viðeigandi.

Virðulegi forseti. Þó nokkrir umsagnaraðilar hafa einnig fjallað um þennan þátt málsins, t.d. kemur ASÍ inn á þetta í umsögn sinni. Þar er lýst andstöðu við fyrirhugaðar breytingar á rekstrarforminu og ASÍ segir að það hafi verið og sé þeirrar skoðunar að víðtækt hlutverk Ríkisútvarpsins í almannaþágu, bæði í óháðri fréttamiðlun og menningarlegu hlutverki, sé þess eðlis að afar mikilvægt sé að Ríkisútvarpið verði örugglega áfram í almannaeign. Ég held að það sé kjarni málsins. Til að tryggja að Ríkisútvarpið verði með öruggum hætti áfram í almannaeigu þá er oháeffun ekki rétta leiðin.

Í umsögn BSRB og BHM er líka komið inn á þetta. BSRB og BHM þykir með ólíkindum sú aðferð sem beitt er gagnvart starfsmönnum þegar stofnunum ríkisins er breytt í hlutafélög eða þær lagðar niður. Í landinu eru lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem ætlað er að gilda við aðstæður sem þessar. Það er óþolandi að við þessi skilyrði séu sett sérstök lög sem taka almennu lögin um ríkisstarfsmenn úr sambandi þegar á þau reynir. Ef það er mat þingmanna að réttindi ríkisstarfsmanna séu þannig að þeim þurfi að breyta á auðvitað að gera það með því að breyta almennu lögunum þannig að þessi ómögulega staða komi ekki upp aftur og aftur.

Virðulegi forseti. Þarna er komið inn á kjarna málsins. Þessu atriði þarf auðvitað að svara í stað þess að hlutafélagavæða mikilvægar stofnanir í samfélaginu eingöngu til að losa þær undan lögum um opinbera starfsmenn. Menn eiga að koma hreint fram og gera almennar breytingar.

Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu er eitt atriði sem ég vil líka koma inn á. Mér þykir afar áhugaverður punktur sem í umsögn frá Skjánum. Þar er rætt um samning um útvarpsþjónustu í almannaþágu sem gerð hafa verið drög. Í umsögninni segir að þeim samningi sé líklega ætlað að skilgreina nánar starfsvettvang Ríkisútvarpsins en því miður sé um afskaplega almennt plagg að ræða. Í umsögn Skjásins segir jafnframt að besta dæmið um þetta sé ákvæði um nýsköpun í dagskrárgerð þar sem sett eru fram háleit markmið um að Ríkisútvarpið skuli styrkja og efla íslenska kvikmyndagerð með kaupum á dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum að lágmarki upp á 150 millj. kr. árið 2008. Fram kemur að Skjár einn hafi varið meira en þessari upphæð í kaup á innlendu dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum á síðustu 12 mánuðum og það án allra ríkisstyrkja. Þeir telja að fleiri orð þurfi ekki að hafa um þjónustusamninginn. Hér er bent á að þjónustusamningurinn sé tiltölulega metnaðarlítill í samanburði við sjónvarpsstöð sem hefur ekki nærri því sömu stöðu á markaði og Ríkisútvarpið.

Virðulegi forseti. Ég gæti staðið hér í allt kvöld og rætt um málefni Ríkisútvarpsins. Ég vil segja í lokin að fjölmörg önnur atriði eru gagnrýnisverð. Yfir þau er farið nokkuð vandlega í áliti okkar samfylkingarmanna í menntamálanefnd. Sömuleiðis höfum við dregið saman hver stefna okkar er og framtíðarsýn varðandi Ríkisútvarpið. Þar kemur fram hvers vegna Samfylkingin leggst gegn hugmyndinni um Ríkisútvarpið ohf. og farið er yfir gallana á þeirri ætlun.

Í fyrsta lagi höfum við sagt að hlutafélagaformið greiði leiðina að einkavæðingu Ríkisútvarpsins, hvort sem það yrði í heild eða að hluta. Við erum á móti því. Sömuleiðis leggjumst við gegn málinu vegna þess að hlutverk nýja fyrirtækisins er óljóst. Sömuleiðis mótmælum við því að ríkisstjórnarmeirihlutinn sé í nýju útvarpsráði og geti ráðið og rekið útvarpsstjóra að vild. Sömuleiðis mótmælum við nefskattinum og við erum jafnframt á móti málinu vegna þess að réttindi starfsmanna eru ekki tryggð eins og vera ætti í almannaútvarpi sem ríkisvaldið ber ábyrgð á.

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. menntamálaráðherra er kominn í salinn og vil því ég enn og aftur spyrja þess sem ég hef oft spurt áður en aldrei fengið svör við: Hvers vegna var Ríkisútvarpið tekið út fyrir sviga í þverpólitískri umræðu um fjölmiðlamarkaðinn? Hvers vegna ekki var unnið að því að skapa þverpólitíska sátt um framtíð Ríkisútvarpsins og lagasetningu um Ríkisútvarpið í stað þess að standa í þessum leik sem hefur orðið að þeirri sorgarsögu sem málefni Ríkisútvarpsins eru innan veggja Alþingis?