133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:24]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við erum hér ekki í fyrsta sinn að ræða nýtt frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Að vísu hefur mismunandi skammstöfun verið þar fyrir aftan. Nú er það ohf. Það liggur ljóst fyrir að þetta mál út af fyrir sig hefur fengið töluverða umfjöllun bæði hér í þingsölum og í menntamálanefnd. Enn eru þó slíkir gallar á málinu að óhjákvæmilegt er að gefa sér örlítinn tíma til þess að koma með nokkrar athugasemdir.

Þó er ljóst, eins og hefur komið fram í ræðum ýmissa hv. þingmanna, að við munum ekki tæma umræðuna nú við 2. umr. þar tekist hefur samkomulag um að ekki verði lengra gengið þessa dagana fyrir jólin en að ljúka 2. umr. sem nú er töluvert langt komin. Því er augljóst mál að 3. umr. verður meginumræðan um málið og þar verður auðvitað farið yfir þetta mál, við getum sagt, frá A til Ö. Ég mun þess vegna rétt aðeins impra á nokkrum mikilvægum punktum. Ég verð þó að byrja á því að segja, eins og ég hef nokkrum sinnum þurft að gera í gegnum tíðina í þessu máli, að alltaf er ég jafnundrandi á háttalagi Framsóknarflokksins í málinu. Þar hefur stefnan verið margvísleg og í raun síbreytileg. En ég held að það hafi verið slegið met í afstöðu Framsóknarflokksins í ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur þegar enn einu sinni var rifjað upp hvað stæði í 1. gr. og þá aðallega þessi merka setning, með leyfi forseta:

„Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Þessi setning hefur verið afar mikið notuð af framsóknarmönnum og á að vera trygging fyrir því að það sé ekkert á dagskrá að selja Ríkisútvarpið. Þess vegna sagði hv. þingmaður meðal annars að það væri raunverulega skýringin á frumvarpinu og öllu því sem í því stæði að það væri verið á ná fram þingvilja um að það ætti ekki selja Ríkisútvarpið. Það segir auðvitað ekkert um það í núverandi lögum um Ríkisútvarpið að einhver sérstök hætta sé á því að það verði selt. Ég held því að varla sé hægt að ganga lengra í undarlegheitunum varðandi þetta frumvarp en að gera þessa setningu að aðalatriði.

Auðvitað er eitt meginvandamál þessa máls að ýmsir vilja auðvelda sölu Ríkisútvarpsins eða hreinlega að leggja Ríkisútvarpið niður. En þessir sömu aðilar gera sér ljóst að þingmeirihluti er ekki fyrir því þessa stundina. Þess vegna er stigið það skref sem hægt er að ná fram og látið þar við sitja að sinni. En margt bendir til þess að hins vegar sé viljinn augljós til að reyna að veikja stofnunina. Það er með ólíkindum hvernig að því er staðið.

Ég sagði áðan, og margir hafa það áður sagt, að þetta mál hefur komið hér æðioft við sögu og vissulega hafa í hvert einasta skipti sem þetta hefur verið endurflutt verið gerðar á því breytingar. Það sýnir býsna vel hversu illa var staðið að málinu í upphafi. En það breytir því ekki að þrátt fyrir þessar miklu breytingar eru enn verulegir vankantar á frumvarpinu.

Ég nefndi Framsóknarflokkinn áðan og ætla að reyna að ljúka þeim þætti ræðu minnar með því að vekja einnig athygli á því að hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sem er talsmaður Framsóknarflokksins í þessari umræðu og jafnframt varaformaður menntamálanefndar, taldi upp nokkur atriði í flokkssamþykktum Framsóknarflokksins og hvað væri þar meginatriðið. Það var meðal annars þetta sem ég sagði áðan, að alls ekki ætti að selja Ríkisútvarpið heldur efla það. Hún vildi meina að það næðist verulega fram með þessu frumvarpi og vitnaði til þess hvernig samkeppnisaðilar hefðu skrifað um frumvarpið. Ég mun fjalla sérstaklega um það á eftir hvaða villa þetta er hjá hv. þingmanni.

En annað þótti mér öllu merkilegra því hv. þingmaður vildi meina að hluti af stefnumálum Framsóknarflokksins hefði náðst fram, nefnilega að tryggja réttindi starfsmanna. Þetta segir hv. þingmaður þrátt fyrir að í öllum umferðum málsins hafi stéttarfélögin komið fram með mjög greinargóð yfirlit og sýnt fram á að svo sé alls ekki. Þrátt fyrir þetta telur þingmaðurinn að þessu skilyrði Framsóknarflokksins sé fullnægt. Það er afar sérkennilegt að Framsóknarflokkurinn skuli hafa miklum meira vit á réttindum starfsmanna en stéttarfélag starfsmanna og starfsmennirnir sjálfir. Og ekki minntist hv. þingmaður á það sem blasir við eins og lífeyrisréttindin. En það virðist vera sama hversu oft þetta er sagt, hversu vel sé gerð grein fyrir því sem þarna á sér stað, að samt sem áður er talað eins og fólk sé sannfært í málinu.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður er ekki einn um þessa skoðun í stjórnarliðinu því hæstv. menntamálaráðherra hefur komið fram á opinberum vettvangi og haldið þessu fram líka. Maður áttar sig ekki eiginlega á því af hverju ekki sé hægt að koma fram hreint í þessu máli og segja hreinlega að hluti af þessari breytingu kosti það að ákveðin réttindi starfsmanna séu ekki tryggð, að það sé bara opinber stefna, að fólk reyni þá að verja að það sé kostnaðurinn sem greiddur er fyrir þessa breytingu.

Það rifjar upp að margt bendir til þess einmitt að ríkisstjórnarflokkarnir séu þeirrar skoðunar að réttindi opinberra starfsmanna séu að ýmsu leyti of mikil. Af hverju er þá ekki gengið hreint til verks og komið með lagabreytingar eða reynt að ná samkomulagi um þessa hluti? Útvarpsstjóri kemur til dæmis á fund menntamálanefndar og talar um að þegar næst komi að samningum þá geti starfsmenn út af fyrir sig selt ákveðin réttindi. Af hverju er ekki farið hreinlega fram á og talað við stéttarfélögin um það ef það eru einhver réttindi sem menn vilja að séu keypt af starfsfólkinu, af hverju er það ekki bara lagt á borðið og gengið hreint til verks?

Þessi undarlegi háttur er sérkennilegur og við höfum séð þetta nokkrum sinnum gerast þegar farið er í þessar formbreytingar. Það er rétt í þessu sambandi, af því ég er nú enn að halda mig við Framsóknarflokkinn, að rifja upp að ritari Framsóknarflokksins, annar fulltrúa Framsóknarflokksins í menntamálanefnd, Sæunn Stefánsdóttir, lét þau orð falla einmitt á opinberum vettvangi að á meðan lífeyrissjóðsmál flugumferðarstjóra væru ekki ljós þá yrði þetta mál ekki afgreitt hér. Það liggur ekkert enn fyrir með þau mál. Það er eitt dæmið um að þegar farið er í formbreytingar þá eru hlutirnir ekki ljósir. Þetta sama á auðvitað líka við um starfsfólk Ríkisútvarpsins. Þetta liggur alls ekki fyrir og þess vegna eru þessi ummæli framsóknarþingmanna og ýmissa málsmetandi manna í Framsóknarflokknum nú síðustu vikurnar afar sérkennileg.

Ég minni á í þessu sambandi að borgarfulltrúi þeirra, sá eini og mikli valdamaður hér í borginni og augljóslega einn af framtíðarprinsum Framsóknarflokksins, hefur ákveðið og talið greinilega að það væri sér til framdráttar að fjarlægjast þingflokkinn í málinu. Hann segir á opinberum vettvangi að hann telji að meiri hluti framsóknarmanna sé hreinlega á móti því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Hann segir sjálfur: „Hvers vegna að breyta í hlutafélag ef ekki á að selja?“ Hann er raunverulega að taka undir með okkur sem höfum varað við því að fara þessa leið af þeirri einföldu ástæðu að verið sé að ganga í átt til sölu. Það er auðvitað margt sem bendir til að þessi leið muni því miður skapa slíka óvissu í kringum Ríkisútvarpið að þetta verði gífurleg hætta á næstu árum.

Þá kem ég að því sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði um að nú væri verið að efla Ríkisútvarpið og því til sönnunar mætti færa skrif samkeppnisaðilanna. Hvað er það sem samkeppnisaðilarnir gera athugasemdir við? Jú, það er einmitt það að þeir óttast að Ríkisútvarpið komi nú með auknum þunga í samkeppni við þessa aðila, varðandi til dæmis auglýsingamarkaðinn sem ekkert er í raun takmarkaður í þessu frumvarpi og þeir fái einnig ýmsa fleiri möguleika með formbreytingunni í hlutafélag sem þeir hafa ekki í dag og geti þar af leiðandi beitt sér enn harðar í þeim efnum.

Eitt af því sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir nefndi var að verið væri með breytingunum að setja ákveðið þak á auglýsinga- og kostunarþáttinn. Það þak er ekki raunverulegt og sú fullyrðing stenst ekki vegna þess að það eina sem sett er er að kostun megi ekki vera hærra hlutfall en það sem er nú, eða um 10%. Það segir hins vegar ekkert um þak á heildina. Það segir eingöngu að þetta eigi að vera hlutföllin. En ef útvarpinu tekst nú að auka auglýsingatekjur sínar þá um leið eykst svigrúmið til aukinnar kostunar.

Það er ekki einu sinni, þrátt fyrir að það komi fram í nefndaráliti meiri hlutans og í ræðu hv. þingmanns, að meiri hlutinn telji rétt að takmarka kostunina því hugsanlegt væri að fá til dæmis kostun á sinfóníutónleika. Það hefði þá að minnsta kosti verið hægt ef þarna hefði verið einhver vilji til takmörkunar, að segja að kostun væri heimil til ákveðinna menningarviðburða og það væri hægt að skilgreina þá.

En sú leið var ekki farin frekar en almennt er gert þegar fjallað er um hlutverk Ríkisútvarpsins sem almenningsútvarps. Þar eru allar skilgreiningar afar opnar og loðnar. Þess vegna telja einmitt samkeppnisaðilarnir að þetta muni ekki ganga og að það gangi ekki að einkafyrirtæki eigi að vera í samkeppni við ríkisstyrkt ríkisútvarp eins og hér um ræðir.

Þegar við tökum þessa gagnrýni samkeppnisaðilanna og setjum hana saman við gagnrýni Samkeppniseftirlitsins sjáum við auðvitað í hvað er stefnt í þessum efnum. Það er stefnt í algeran ófrið með Ríkisútvarpið. Það er mjög miður að slíkt skuli gert. Það er í raun sorglegt að slíkur skuli vera æðibunugangurinn í ríkisstjórnarmeirihlutanum í þessu máli að ekki skuli vera hægt að gefa sér tíma til þess að fara yfir málið og kanna til þrautar hvort ekki sé hægt að ná sátt um það, ekki bara sátt innan þingsins heldur sem mestri sátt í samfélaginu.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins, ummæli og umsagnir samkeppnisaðila segja okkur í fyrsta lagi að búast megi við málaferlum nokkur ár fram í tímann. Það er augljóst að samkeppnisaðilarnir hafa rökstuðning frá Samkeppniseftirlitinu þannig að ef Samkeppniseftirlitið sjálft grípur ekki inn í þá munu samkeppnisaðilarnir kæra og kæra og kæra. Þetta mun jafnvel fara út fyrir landsteinana. Þetta er alveg örugglega ekki það sem Ríkisútvarpið þarf á að halda nú. Ríkisútvarpið hefur verið nægjanlega lengi í óvissu, nægjanlega lengi, eins og margur hefur sagt, í gíslingu Sjálfstæðisflokksins. Það er vissulega kominn tími til — ég held að allir séu sammála um það — þess að endurskoða lög um Ríkisútvarpið, finna því aukinn lipurleika þannig að það geti brugðist við breyttum aðstæðum. En að fara þessa leið er með ólíkindum. Svo virðist vera að ekkert annað sé orðið eftir í þessu en að einhverju leyti metnaður hæstv. menntamálaráðherra til að ljúka máli sem byrjað er á af því að búið er að gera svo margar tilraunir. Ég held að það sé afskaplega lítil sannfæring orðin eftir í málinu.

Það er athyglisvert hvað sumir menn segja sem þekkja nú nokkuð til innviða í Sjálfstæðisflokknum, hafa reynslu af setu á Alþingi og víðar. Ég á auðvitað við Þorstein Pálsson, núverandi ritstjóra Fréttablaðsins, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem ritar í dag á margan hátt afar merkilegan leiðara. Ég held að þessi leiðari sé það merkur að eiginlega sé nauðsynlegt að lesa hann hér upp og, með leyfi forseta, vil ég leyfa mér það. Ég mun síðan gera einstaka athugasemdir eftir því sem ástæða þykir til eftir því sem líður á lesturinn.

En leiðarinn heitir Lipurð eða þrákelkni og byrjar svona, með leyfi forseta:

„Alkunna er að á stjórnmálavettvangi tíðkast ólíkir starfshættir. Þeir geta sannarlega haft þýðingu.

Fjármálaráðherra kynnti fyrir skömmu áform ríkisstjórnarinnar um lækkun virðisaukaskatts á áfengi og hækkun áfengisgjalds. Af ráðherrans hálfu var fullyrt að breytingar þessar ættu að vega hvor aðra upp. Tekjur ríkissjóðs áttu með öðrum orðum ekki að aukast og neytendur ekki að skaðast fjárhagslega.

Allir sem til þekkja vita að útreikningar af þessu tagi geta verið snúnir. Hagsmunaaðilar brugðu sínum eigin mælikvörðum á tillögu ráðherrans og komust að þeirri niðurstöðu að hún fæli í sér verulega hækkun á ríkissjóðstekjunum. Viðbrögð ráðherrans eru verð eftirtektar.

Hann kom einfaldlega fram fyrir Alþingi og sagði sem var að mælingar sem þessar væru ekki einhlítar. Engin ástæða væri til þess að hleypa málum í bál og brand. Hitt væri mikilvægara að taka þann tíma sem þyrfti til þess að finna þá niðurstöðu sem sammælast mætti um að samræmdist markmiðinu.

Menntamálaráðherrann hefur sem kunnugt er barist hart fyrir breytingum á Ríkisútvarpinu undir því yfirskini að ekki ætti að raska samkeppnisstöðu á markaði þessarar almannaþjónustu. Að því kemur svo að álit Samkeppniseftirlitsins er birt. Þar er rökstutt að frumvarp ráðherrans feli í sér samkeppnismismunun og formlegar tillögur gerðar hvernig koma megi í veg fyrir hana.

Viðbrögð menntamálaráðherrans eru hins vegar gagnstæð lipurð fjármálaráðherrans. Á röksemdirnar er blásið. Einu gildir þó að þær kippi stoðunum undan yfirlýstu markmiði um að raska ekki samkeppnisstöðunni.

Fjármálaráðherrann sá ekki ástæðu að til að þverskallast með þeim afleiðingum að órói kynni að skapast um áfengissöluna. Sú starfsemi verður þó seint talin til þeirrar göfugustu sem ríkisvaldið hefur með höndum. Starfssemi Ríkisútvarpsins snýst hins vegar um mikilvægt menningarhlutverk og stendur býsna nærri hjarta flestra Íslendinga. Þegar þeir hagsmunir eru í húfi er sátt rofin á báða bóga.

Þeim sem horfa á útvarp af sjónarhóli ríkisrekstrar er gefið langt nef. Hinir eru ekki virtir viðlits sem gæta vilja nokkurs jafnræðis í samkeppni um þann þátt almannaþjónustunnar, sem víðtæk samstaða er um að markaðurinn geti sinnt. Í þeim hópi er formaður menntamálanefndar Alþingis. Þegar hann talar fyrir málamiðlun er hann lítillækkaður og hendur hans bundnar.“

Frú forseti. Hér er afar snilldarlega að orði komist og ég vek athygli á að hér er ekki einhver og einhver að rita leiðara. Hér er maður að rita leiðara sem þekkir innviði Sjálfstæðisflokksins að minnsta kosti miklu betur en sá sem hér stendur. Ég ætla því að töluverð þekking sé á bak við þegar þetta orðalag er notað.

En áfram heldur Þorsteinn, með leyfi forseta:

„Ef eitthvað er að marka málflutning stjórnarandstöðuflokkanna má ætla að þeir hafi endaskipti á þessari löggjöf fái þeir til þess styrk. Reynslan sýnir einnig að ýmis álitamál verður oft og einatt að útkljá fyrir dómstólum þegar málefnalegum sjónarmiðum er vikið til hliðar við þinglega meðferð.

Þessi ágæta ríkisstofnun gæti þar af leiðandi hafnað í margslungnu óvissuástandi af óþörfu. Allt vegna þrákelkni. Sköpum getur skipt hvernig á málum er haldið.“

Frú forseti. Svo mörg voru þau orð. Ég held að hér kristallist á margan hátt þetta mál. Það er alveg hárrétt hjá leiðarahöfundi að við blasir gífurlegt óvissuástand hjá stofnuninni verði það frumvarp sem hér liggur fyrir að lögum. Þess vegna er það alger óþarfi. Og sem betur fer er ljóst að við munum enn á ný fá tíma til þess að reyna að koma í veg fyrir þetta slys. Það hefur þó náðst samkomulag hér um að 3. umr. um frumvarpið fari ekki fram fyrr en á nýju ári. Það skapar möguleika og væri óskandi að sá tími yrði nýttur betur en sá tími sem leið frá því við ræddum síðasta frumvarp og þar til að þetta frumvarp kom hér til umræðu. En rétt er að rifja það upp í þessu samhengi að þá gerðum við, minni hlutinn í menntamálanefnd, sérstakt tilboð til meiri hlutans um að þetta mál yrði yfirfarið í sumar og nýtt frumvarp lagt fram í haust og stefnt að því að ljúka málinu nú fyrir áramót. Ég er sannfærður um að hefði því tilboði verið tekið þá værum við nú jafnvel búin að ljúka málinu, fá miklu betra frumvarp og hugsanlega búin að samþykkja það. Ég segi það vegna reynslu minnar úr menntamálanefndinni að ég held að ef einhvern tímann hefði verið reynt með fullum vilja að ná sátt í málinu þá hefði það verið auðvelt vegna þess að ég held að allir séu sammála um ákveðna þætti málsins. Vilji allra hefði að sjálfsögðu ekki náðst fram. En ég sannfærður um að gífurlegur sáttagrundvöllur hefði verið til staðar ef menn hefðu sest niður og farið yfir málefni Ríkisútvarpsins af þeirri einföldu ástæðu, eins og meðal annars kemur fram í leiðara Þorsteins Pálssonar, að Ríkisútvarpið er nátengt alþýðu þessa lands. Allir bera virðingu fyrir Ríkisútvarpinu. Flestir vilja sátt ríki um Ríkisútvarpið sem stofnun. Þess vegna er það skylda stjórnvalda að leita sátta um slíka stofnun. En því miður lenti þetta mál einhvern tímann út af sporinu og því miður hefur ekki náðst að kippa því aftur inn á sporið.

Dæmi um það hvað lítið hefur verið reynt að ná sátt um málið er að aldrei hefur nokkurn tíma fengist umræða um það í menntamálanefnd hvort til greina kæmi nokkurt annað rekstrarform en hlutafélagið. Það hefur aldrei verið leyfð umræða um það.

Eigum við að taka annað dæmi sem er líka mál í þessu sem hefur verið allt of lítið rætt og augljóst að er vandræðagangur með og eiginlega illskiljanlegt af hverju sú leið var valin, þ.e. nefskattsleiðin, hvernig á því stendur að þar var stoppað. Aldrei fengust nokkrar raunverulegar umræður í menntamálanefnd um hvort ekki kæmu einhverjar aðrar leiðir til greina.

Nú liggja fyrir skýrslur frá Ríkisútvarpinu sjálfu um hvaða leiðir þarna eru færar þannig að það hefði út af fyrir sig ekki verið mikil vinna að fara yfir þá þætti og kanna hvort eitthvað væri ekki heppilegra en þetta. Þetta er afskaplega óheppilegt gjald sem leggst með mjög misjöfnum þunga á fólk. Nefskattur er þannig að hann er ein upphæð og verður þar af leiðandi hlutfallslega hæstur hjá þeim sem minnstar hafa tekjurnar.

Síðan er annar galli sem er jafnósanngjarn líka vegna þess að það fólk sem hefur eingöngu tekjur af fjármagni greiðir ekkert, og sá hópur fer vaxandi í samfélaginu, af því að þetta kemur ekki þar niður. Það er því gífurlegur galli á þessu. Fjölskyldur sem hafa mikið af ungmennum lenda í þessu því að taka á af fólki frá 16 ára aldri. Mörkin sem miðað er við hverjir greiða ekki eru það lág að skólafólk á dágóðum launum lendir í þeim hópi. Þetta er því einnig gífurlegur galli.

Eitt hefur gerst frá því að við vorum hér síðast að ræða þetta merka mál, það er svokallaður þjónustusamningur sem gerður hefur verið á milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins, og síðan hefur komið skýrsla matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings Ríkisútvarpsins ohf., sem hefur verið unnin að því er manni sýnist af bestu yfirsýn og örugglega öll saman hárrétt reiknuð. En það er ýmislegt sem vekur athygli. Ég vil aðeins leyfa mér að tengja þetta saman vegna þess að þjónustusamningurinn var kynntur með pomp og prakt og reynt að skapa þá ímynd af þjónustusamningnum að hér væri gífurlega metnaðarfullur samningur á ferðinni, samningur sem ætti að stórefla hlut innlends efnis o.s.frv. — og full þörf á.

En þegar farið er að bera saman hluti kemur ýmislegt í ljós og ég læt duga að nefna eitt atriði. Það er dæmið um nýsköpun í dagskrárgerð þar sem sett eru fram þau háleitu markmið að Ríkisútvarpið skuli styrkja og efla íslenska kvikmyndagerð með kaupum á dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum að upphæð að lágmarki 150 millj. kr. árið 2008. Þetta lítur býsna vel út þegar þetta er sagt svona með einni tölu, nefnt árið 2008, og þetta á að verða mjög metnaðarfullt.

En til menntamálanefndar barst umsögn frá Skjá einum þar sem m.a. kemur fram, með leyfi forseta:

„Skjár einn varði meira en þeirri upphæð“ — þ.e. 150 milljónunum sem Ríkisútvarpið á að stefna að 2008 — „í kaup á innlendu dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum á síðustu tólf mánuðum.“ Og það að sjálfsögðu án allra ríkisstyrkja.

Þegar Skjár einn greiðir hærra en það sem stefnt er að árið 2008 í þessum metnaðarfulla þjónustusamningi hljóta að kvikna ákveðin aðvörunarljós. En það sem meira er að í þeirri skýrslu sem ég nefndi áðan kemur fram að þjónustusamningurinn kosti 400 millj. kr. þegar hann er að fullu kominn í gildi og hluta af því eða um 200 millj. kr. af þeim kostnaði á að ná með hagræðingu. Þá fer maður að velta fyrir sér: Jú, það er væntanlega hægt að hagræða hjá Ríkisútvarpinu eins og öðrum, en í fyrra þegar við ræddum þessi mál fengum við m.a. umsagnir frá útvarpsstjóra þar sem fram kom að búið væri að hagræða þannig í stofnuninni að ekkert annað væri eftir, ef halda þyrfti áfram á þeirri leið, en að draga úr þjónustu. Þá væri hreinskilnislegast að segja úr hvaða þjónustu eigi að draga.

Í þeirri skýrslu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Útvarpsstjóri gerði grein fyrir rekstraráætlun Ríkisútvarpsins fyrir tímabilið 2007–2016 og forsendum fyrir henni með bréfi, dagsettu 14. nóvember.“

Síðan kemur fram að menntamálaráðuneytið hafi fallist á þessa áætlun og út frá henni er skýrslan unnin.

Ekki fylgdi þetta bréf, við þurftum að kalla eftir því að fá þá rekstraráætlun sem þarna kom fram og fengum hana — ja, það er spurning hvenær við fengum hana, við fengum hana fyrir nokkrum dögum. Bréfið sem ég er með í höndum er dagsett 4. desember. Við skulum því gera ráð fyrir að það hafi borist okkur um það leyti. Innihaldið í því er m.a. bréf útvarpsstjóra og þegar skoðuð er sú mikla rekstraráætlun sem allt þetta byggir á blasir við að hagræðingin, sem er stór þáttur af því að láta þessa enda ná saman, hefur augljóslega verið afgangsstærð, því að hvergi er getið um hvernig í raun á að ná þeirri hagræðingu fram.

Í bréfi útvarpsstjóra segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir hagræðingu sem mun lækka árlegan rekstrarkostnað stigvaxandi á fjórum árum …“

Já, það er merkilegt að hagræðingin eigi að lækka árlegan rekstrarkostnað. Ég veit nú ekki hvernig hún hefði átt að koma fram öðruvísi í rauninni.

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

„… þannig að takmarkinu um 200 millj. kr. lækkun á rekstrarkostnaði verði náð frá og með árinu 2011.“

Hér er gert ráð fyrir tæplega 6% hagræðingu á rekstrarkostnaði. Svo mörg eru þau orð. Það er ekki eitt einasta dæmi nefnt um hvernig eigi að standa að þessari hagræðingu. Það er eingöngu svona almennt snakk um það, sem allir vita auðvitað, að hagræðing hlýtur að lækka árlegan rekstrarkostnað. Síðan er talan nefnd sem eigi að ná árið 2011, þ.e. talan sem vantaði, og síðan er beitt prósentureikningi til að sýna fram á hvað há prósenta þetta er. Annað er ekki sem skýrir hvernig á að ná þeirri hagræðingu.

Miðað við fyrri bréfaskriftir sama manns er augljóst að það verður eingöngu gert með því að draga úr þjónustu, segja upp fólki o.s.frv., eða auka tekjurnar. Þá eru ekki margir möguleikar vegna þess að það er fest með hinum svokallaða nefskatti, og afnotagjöldum fram að því, hversu mikið það á að vera. Því er eingöngu um það að ræða að auka tekjurnar með auknum auglýsingum og um leið möguleikum á aukinni kostun. Þegar það er skoðað í samhengi við það hvað það væri helst sem mundi geta aukið auglýsingarnar og kostunina þá er það væntanlega vinsælasta sjónvarpsefnið sem að líkum lætur þarf að kaupa eitthvað dýrum dómum en kæmi þá til baka í auglýsingum. Þá blasir við að stofnunin er komin í mjög harða samkeppni við aðra aðila á markaðnum. Þá er það hættumerki sem ég gerði að umtalsefni áðan augljóslega komið upp og þá munu viðbrögðin verða þau að gerðar verða athugasemdir, Samkeppniseftirlitið fer í málið, það verður kært og jafnvel farið með það út fyrir landsteinana ef ekki dugar að fá leiðréttingu að mati samkeppnisaðilanna hér innan lands.

Þá sjáum við út í hvað Ríkisútvarpið er komið. Það er eitthvað allt annað en það sem við viljum sem teljum að nauðsynlegt sé að efla almannaþjónustu stofnunarinnar. Þess vegna segjum við: Við eigum ekki að taka slíka áhættu sem verið er að taka með þessu frumvarpi. Við eigum að gefa okkur betri tíma til að ná sátt um málið, finna þá leið sem hentar þannig að Ríkisútvarpið fái frið eftir allt of langan óvissutíma og það sé besta leiðin til að tryggja Ríkisútvarpið í almannaþjónustu. Sú leið sem hér er farin kallar á að stöðugur ófriður verði. Því miður blasir það við að ýmsir sem vilja selja Ríkisútvarpið vilja einmitt það ástand, vegna þess að þá er verið að skapa grundvöll fyrir því að mynda þá stöðu að sífellt fleiri segi: Það er tómt vesen með þetta Ríkisútvarp, það er bara í bullandi samkeppni og það auðvitað gengur ekki. Það er ekki hægt að vera með ríkisrekinn samkeppnisrekstur. Það er því ekkert annað að gera en að selja það eða halda áfram að veikja innviðina. Það yrði því gífurlegt mál að byggja það upp aftur.

Frú forseti. Ég sagði áðan í ræðu minni og það hefur komið fram að samkomulag er um að 2. umr. verði lokið fyrir jól en 3. umr. verði ekki fyrr en eftir jól. Ég endurtek þær óskir mínar að sá tími verði nýttur. Segja má að síðasti möguleikinn til að bjarga málinu sé eiginlega sá að gera samkomulag um ákveðnar breytingar á frumvarpinu. Meðal annars væri hugsanlegt að semja um að gildistíminn yrði eftir kosningar þannig að málið yrði bara afgreitt þar í raun og veru. Það er augljóst mál að afstaða stjórnarandstöðunnar er með þeim hætti og það er einnig augljóst mál að hluti af, ég vil segja, báðum stjórnarflokkunum hefur aðra skoðun á málinu en í frumvarpinu er. Það er því margt sem bendir til þess að að loknum næstu alþingiskosningum þurfi að taka málið upp að einhverju leyti og reyna að bæta úr þeim mistökum sem hér eru gerð.

Frú forseti. Ég vona að jólin, áramótin og dagarnir í janúar verði notaðir til þess að reyna að lagfæra það sem lagfæra þarf og eins og ég segi, það væri trúlega fljótvirkast og einfaldast að fara í gildistökuna, setja hana aftur fyrir kosningar svo að tími mundi vinnast til að fara betur yfir málið. Ekki væri óeðlilegt að eitt af fyrstu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar væri að skapa frið um Ríkisútvarpið og skapa því þann ramma sem það á skilið til framtíðar.