133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:24]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem aðeins upp til að lýsa afstöðu okkar í Frjálslynda flokknum, ég er fulltrúi flokksins í menntamálanefnd. Ég vil þó í upphafi máls míns geta þess að ég er illa haldinn af kvefi og hálfraddlaus og mun því ekki flytja langt mál í þessari umræðu heldur eiga frekar til góða ræðutíma þegar þetta mál kemur til 3. umr. í janúar.

Við í Frjálslynda flokknum höfum ávallt látið okkur mjög annt um Ríkisútvarpið og framtíð þess, við höfum svo sannarlega gert það. Við höfum lagt fram þingmál nokkrum sinnum varðandi Ríkisútvarpið og hvernig við skyldum haga stjórnun þess á nýjan hátt, ef svo má segja. Við höfum tekið þátt í ýmiss konar vinnu varðandi Ríkisútvarpið eða varðandi fjölmiðla og framtíð þeirra í fjölmiðlanefndinni svokölluðu. Við höfum að sjálfsögðu tekið þátt í öllum þeim umræðum sem farið hafa fram varðandi framtíð Ríkisútvarpsins í þessum sal og í störfum menntamálanefndar. Nú erum við að taka fyrir frumvarp um Ríkisútvarpið í þriðja sinn.

Það er margt við þetta frumvarp að athuga, þó að það hafi verið til umfjöllunar í þinginu meira og minna í ein þrjú ár. Ræðumenn stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa talað á undan mér hafa kannski sagt það mesta sem þarf að segja um málið. Ég er sjálfur samþykkur því nefndaráliti sem minni hluti menntamálanefndar hefur lagt fram og vildi fá að koma upp til að segja frá því.

Ein helsta ástæðan fyrir því að við leggjumst gegn frumvarpinu er einfaldlega sú að við óttumst mjög að það sem í raun og veru vaki fyrir stjórnvöldum sé einmitt að selja Ríkisútvarpið einhvern tíma í framtíðinni ef þeir stjórnarflokkar sem nú eru við völd fá ráðið, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn að því er virðist, þó að einhvern veginn hafi maður fengið það á tilfinninguna að Framsóknarflokkurinn sé farinn að bila í trúnni á það að breyta eigi Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Þrátt fyrir það, virðulegi forseti, grunar mann illilega að það sem vaki fyrir mönnum sé að selja þessa stofnun, það eigi að koma henni í hendur einkaaðila. Við í Frjálslynda flokknum teljum að slíkt yrði stórslys.

Við í Frjálslynda flokknum teljum ákaflega mikilvægt að fyrir hendi sé öflugt almannaútvarp og -sjónvarp á Íslandi, að slíkur fjölmiðill sé mjög mikilvægur til að tryggja eftir fremsta megni réttláta umfjöllun á málefnum líðandi stundar. Slíkur fjölmiðill skapar ákveðinn stöðugleika, slíkur fjölmiðill yrði ákveðið akkeri, ekki aðeins í fréttamiðlun heldur líka varðandi framleiðslu og sýningu efnis, bæði útvarpsefnis og sjónvarpsefnis. Þetta er trú mín, virðulegi forseti, og mér finnst að við ættum að halda fast í það til framtíðar að vera með öflugan almannafjölmiðil eins og Ríkisútvarpið, ríkissjónvarpið, fjölmiðil sem væri að einhverju leyti svipaður þeim sem eru í nágrannalöndunum, til að mynda í Bretlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Virðulegi forseti. Ég hef áður lýst því yfir að ég hafi miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins og hef farið yfir það hvernig hún hefur nánast verið brotin markvisst niður á undanförnum árum af þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd. Ríkisútvarpið hefur einfaldlega ekki notið almennilegra skilyrða, ríkisstofnun sem bjó við ágætan fjárhag fyrir ekkert mjög mörgum árum býr nú nánast við fjárhag sem er algjörlega óásættanlegur. Ég hefði talið mikilvægast eins og staðan er núna að rétta af bágan fjárhag Ríkisútvarpsins með innspýtingu úr ríkissjóði, sem ríkisstjórnin fullyrðir á hverju ári að rekinn sé með miklum tekjuafgangi. Það ættu því að vera til peningar fyrir því að rétta af fjárhag Ríkisútvarpsins.

Það er ekki að sjá að þingmenn geri sér almennilega grein fyrir því hver fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er, a.m.k. var í dag útbýtt fyrirspurn til menntamálaráðherra um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur í Vinstri grænum, þar sem hún spyr einmitt hæstv. menntamálaráðherra að því hver sé fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins miðað við 1. desember 2006. Þingmaðurinn óskar eftir því að fá upplýsingar um helstu stærðir í efnahags- og rekstrarreikningi, sundurliðun á skuldum og stöðuna gagnvart ríkissjóði. Einnig óskar þingmaðurinn eftir því að fá að vita hvernig sambærileg staða hafi verið í lok áranna 2004 og 2005.

Ég á frekar von á því, virðulegi forseti, að þessi staða hafi eitthvað versnað undanfarin tvö ár. En það verður fróðlegt að sjá svar við þessari fyrirspurn þegar það berst. Óskað er eftir skriflegu svari og við hljótum að gera ráð fyrir því, þingmenn á hinu háa Alþingi, að svar við fyrirspurninni liggi fyrir þegar þing kemur aftur saman að loknu jólahléi.

Virðulegi forseti. Það er margt annað sem ég gæti sett út á í þessu frumvarpi. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að þylja það allt saman upp. Ég vil hins vegar benda á frávísunartillögu í nefndaráliti minni hluta þar sem farið er yfir fjölmörg atriði til að rökstyðja tillögu minni hlutans um að þessu frumvarpi verði vísað frá. Ég ætla ekki að tefja þingfundinn með því að fara að lesa tillöguna upp, hátt og skýrt, enda finn ég að röddin er alveg við það að bresta. Ég læt því máli mínu lokið með þessum orðum, virðulegi forseti, en lýsi því enn og aftur yfir, eins og ég gerði í upphafi máls míns, að Frjálslyndi flokkurinn er samþykkur frávísunartillögu minni hluta menntamálanefndar varðandi þetta mál.