133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það sem er eftirtektarverðast við umræðu um háeffun Ríkisútvarpsins er sú staðreynd að Framsóknarflokkurinn lætur ekki sjá sig við umræðuna. Einn af fulltrúum hans flutti að vísu ræðu fyrr í dag en síðan höfum við hvorki séð haus né sporð á þeim ágætu þingmönnum Framsóknarflokksins sem þó hafa verið að myndast við að styðja þetta ólukkufrumvarp. Það er dálítið sérkennilegt vegna þess að á síðustu metrunum í meðferð málsins núna við 2. umr. hefur sá undarlegi hlutur gerst að hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa komið hér eins og umskiptingar í umræðuna og hafa gersamlega snúið við sínum fyrri efasemdum um málið. Það var Framsóknarflokkurinn sem upphaflega dró lappirnar, það var á þeim árum þegar sá ágæti flokkur hafði enn þá pólitískt ráð og rænu.

Það má líka benda á þá staðreynd að einstakir ungir, uppvaxandi forustumenn í Framsóknarflokknum hafa lýst miklum efasemdum um þetta mál allt saman. Ég rifja það upp að sigurvegari flokksins í Reykjavíkurborg, Björn Ingi Hrafnsson, sem sannarlega er leiðtogaefni hér í höfuðborginni að minnsta kosti, var nú ekkert að skafa utan af því þegar hann lýsti skoðunum sínum á málinu. Hann sagði það einfaldlega klárt og kvitt að hann væri á móti málinu, hann teldi að þetta væri skref að sölu sem hann væri á móti og — það sem væri hollt fyrir þá ungu þingmenn Framsóknarflokksins sem hér eru í salnum í dag — sagði hann líka að meiri hluti framsóknarmanna væri á móti málinu. Það kom mér ekki á óvart, frú forseti. Framsóknarflokkurinn hafði ákaflega heilbrigða afstöðu til þessa ólukkufrumvarps hæstv. menntamálaráðherra í upphafi. Hann tók skýra og eindregna afstöðu á flokksþingi sínu fyrir nokkrum árum. Hann lýsti því einfaldlega yfir að hann vildi ekki að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi og það fylgdi með í þeim kaupum að hann taldi að það væri hugsanlegt að það gæti leitt til sölu.

Þrátt fyrir þetta gerist það allt í einu á þessum síðustu metrum að þeir sem helst mæla með þessu máli, þeir sem standa fastast í ístaðinu, þeir sem styðja hæstv. menntamálaráðherra betur og dyggilegar en ungtyrkir frjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum eru hinir ungu þingmenn Framsóknarflokksins. Hvað er það sem veldur þeim umskiptum? Hvað er það sem veldur því allt í einu að hv. þm. Dagný Jónsdóttir heldur hér stólparæðu í dag þar sem hún lýsir eindreginni sannfæringu um að nauðsynlegt sé að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið? Það er alveg ljóst að þarna er hv. þingmaður að ganga gegn fyrri samþykktum flokksins, þarna er þingmaðurinn að ganga gegn því sem þeir sem starfa meðal grasrótarinnar segja að sé vilji meiri hlutans. Maður veltir því fyrir sér hvað valdi þessari linku og þeirri undanlátssemi gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Þetta er þeim mun merkara þar sem enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur komið í umræðuna með kraftmikla vörn fyrir frumvarp hæstv. menntamálaráðherra. Ástæðan er auðvitað sú að innan Sjálfstæðisflokksins er litið á þetta sem vandræðamál, innan Sjálfstæðisflokksins hafa menn ekki lengur neina trú á því. Sótt er að málinu bæði frá hægri og vinstri.

Ein af þeim sem hugsanlega munu setjast á Alþingi Íslendinga í vor að kosningum loknum er Sigríður Andersen, sem er í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, ung og vösk kona, hugsjónarík, sem ekki liggur á skoðunum sínum. Það vildi svo til að fyrir skömmu var ég í sjónvarpsþætti með þeirri konu og það hefði verið hollt fyrir hæstv. menntamálaráðherra ekki bara að horfa á þann þátt aftur og aftur heldur að fá útskrift á ummælum Sigríðar Andersen. Sigríður, sem er á hægri væng Sjálfstæðisflokksins, hefur verið í hópi þeirra sem telja sig ganga erinda frjálshyggjunnar. Hún lýsti því alveg skýrt og skorinort yfir að hún teldi að ekki ætti að fara þessa leið. Hún lýsti því líka yfir að hún teldi að eins og málum væri háttað með Ríkisútvarpið ætti það að vera ríkisstofnun með þingkjörna stjórn.

Unga liðið í Sjálfstæðisflokknum, sem enn hefur einhvern snefil af hugsjónum eftir, er að minnsta kosti hollt þeim, ræðst á þetta mál frá hægri. Menn eins og ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson höfum ráðist harkalega á það frá hinum vængnum vegna þess að við teljum að grundvallaratriðið í málinu sé að hér sé verið að stíga fyrsta skrefið að sölu. Hvernig má það þá vera að einu stuðningsmennirnir sem taka til máls á Alþingi Íslendinga til að styðja vesalings hæstv. menntamálaráðherra í málinu eru hinir ungu þingmenn Framsóknarflokksins? Það fólk sem með sönnu mætti segja að væri framtíð Framsóknarflokksins, fólk sem að mörgu leyti hefur staðið sig ákaflega vel í tiltölulega mikilli pólitískri bernsku á sínum fyrstu skrefum á ferli sem gæti orðið glæstur. Það eru þingmennirnir hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, Sæunn Stefánsdóttir, Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson sem allt í einu eru orðnir sterkustu málsvarar hæstv. menntamálaráðherra. Mér finnst að Framsóknarflokkurinn í fyrsta lagi skuldi Alþingi skýringu á þeim umskiptum sínum. Í öðru lagi skuldi þessir þingmenn líka flokki sínum og þeim sem hafa kosið þetta fólk til að sitja á Alþingi skýringu á þessum umskiptum.

Það væri líka frá fræðilegu sjónarmiði ákaflega gaman að fá einhverjar upplýsingar um hvað það er sem veldur því að þingmenn, ungir og vaskir, gersamlega hrynja svona frá hugsjónum sínum og taka allt í einu upp stuðning við mál sem enginn annar í flokki þeirra, utan fílabeinsturnsins í kringum forustuna, sér nokkuð við. Ég vísa enn og aftur til þeirra orða sem Björn Ingi Hrafnsson lét mörgum sinnum falla, að meiri hluti framsóknarmanna væri á móti málinu.

Mér er auðvitað kunnugt um að þegar forusta Framsóknarflokksins hefur á síðustu árum gengið svipugöng hæstv. menntamálaráðherra í málinu hefur hún hopað og tekið upp nýjar víglínur. Það er alveg rétt sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði í ræðu sinni í dag að á síðari stigum málsins reyndi Framsóknarflokkurinn að taka upp nýja stöðu til þess að verja undanhald sitt í málinu. Hv. þingmaður gat þess að í síðustu samþykkt málsins á flokksþingi hefði verið talað um að rekstrarformið skipti ekki máli.

Það er nú óvart það, frú forseti, sem skiptir máli. Ég hef mörgum sinnum sagt það í umræðum um þetta að mín eindregna andstaða gegn málinu stafar af því að ég tel að verið sé að feta sig inn á slóð einkavæðingar með Ríkisútvarpið. Við höfum séð að það sem hefur hreyft Sjálfstæðisflokkinn og það sem hefur verið eldsneytið í Sjálfstæðisflokknum síðasta einn og hálfan áratuginn er einkavæðing. Það er út af fyrir sig hugmyndafræði sem ber að virða og taka þátt í deilum um og hugsanlega í sumum tilvikum að samþykkja líka. Ég t.d. samþykkti einkavæðingu bankanna af því að ég taldi að það væri farsælt. En allt öðru máli gegnir um ríkisfyrirtæki eins og Ríkisútvarpið en banka.

Þegar ég hef sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með frumvarpinu, áður en það lak niður í núverandi stöðu, verið að hefja sína fyrstu göngu til að selja Ríkisútvarpið, þá hafði ég fyrir mér nokkrar staðreyndir sem rétt er að rifja upp. Löngu áður en hæstv. menntamálaráðherra steig sín fyrstu spor á Alþingi Íslendinga var Sjálfstæðisflokkurinn búinn að taka um það formlega ákvörðun að selja ætti hluta af Ríkisútvarpinu. Sjálfstæðisflokkurinn háði árið 1995 heila kosningabaráttu í tveimur málum. Annað málið var eldheitur stuðningur og málafylgja við að selja Rás 2. Þess vegna skýtur það ekki skökku við að lesa í frumvarpinu enn þá, eftir allar þær breytingar sem það hefur gengið í gegnum, að gert er ráð fyrir að Ríkisútvarpið skuli einungis hafa skyldu til þess að starfrækja eina hljóðvarpsrás. Með öðrum orðum, þar er opin heimild með samþykkt þessa frumvarps til að selja aðrar. Þar með gefst Sjálfstæðisflokknum tækifæri til að selja Rás 2. Fyrir liggja yfirlýsingar margra forustumanna Sjálfstæðisflokksins um að það væri heppilegt fyrsta skref. Sumir þeirra sitja alla jafna í þessum sölum. Í dag eru í röðum þingmanna sjálfstæðismanna sem sitja á Alþingi menn sem hafa sagt að selja ætti Rás 2. Ég tel að það sé algjörlega út í hött og ég tel að það endurspegli ákveðinn skort á skilningi á því hvernig íslensk menning hefur þróast og hvernig hún er samsett. Rás 2 hefur í senn verið vagga og fæðingarstaður þess sem við getum kallað nýgilda tónlist á Íslandi og það er ekki svo ógildur eða smár partur í íslenskri menningarframleiðslu á síðustu árum. Rás 2 hefur verið athvarf og skjól ungra tónlistarmanna sem síðan hafa fyrir hönd Íslands lagt heiminn að fótum sér. Ég þarf ekki að nefna mörg nöfn, ég nefni Sigur Rós og ég nefni Björk. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ég tel að það sé jafnfráleitt að selja Rás 2 eins og að leggja niður Rás 1. Ég tel að Rás 2 hafi sterku menningarhlutverki að gegna alveg eins og Rás 1. Þeir sem eru annarrar skoðunar og afgreiða Rás 2 sem einhverja fráleita og lítilsiglda popprás skilja ekki hvað íslensk menning er í dag. Þess vegna hef ég lagt þessar tvær rásir algjörlega að jöfnu.

Það hefur margsinnis komið fram í umræðunni að Ríkisútvarpinu hefur árum saman verið féstýrt, það hefur skort fjármagn til að geta rekið það sómasamlega. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi undir forustu margra menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, meira en í tvo áratugi með einu hléi, verið meðvituð stefna hjá Sjálfstæðisflokknum, a.m.k. síðan árið 1995, að þrengja að Ríkisútvarpinu, færa það síðan með einhverjum hætti fyrir hlutafélagsform til þess að geta byrjað í krafti fjárþrenginga að selja hluta af Ríkisútvarpinu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hefur verið í forsvari fyrir þeim sölumönnum útvarpsins sem hæst hafa galað í hópi sjálfstæðismanna, hefur einmitt tekið það sem dæmi. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur beinlínis sagt úr þeim stóli sem ég stend í núna að ein af lausnum á fjárhagsvanda Sjálfstæðisflokksins sé að selja Rás 2, hann hefur varpað því fram sem hugmyndum.

Hv. þingmenn Framsóknarflokksins virðast ekki gera sér grein fyrir að þetta skiptir máli. Nú er það svo að ég held að Sjálfstæðisflokkurinn, þó að ég beri fyrir honum mikla virðingu, sé ekki það afl sem sé í mikilli framrás og hann er ekki líklegur, eins og hann var upp úr miðbiki síðasta áratugar, til þess að geta við einhverjar tilteknar aðstæður sótt sér meiri hluta meðal kjósenda á Íslandi. Á hitt ber að líta að Sjálfstæðisflokkurinn er stór og öflugur flokkur, sagan sýnir það, og hann hefur stundum verið við það að geta seilst til slíkra áhrifa.

Ég varpa því fram til þeirra hv. þingmanna Framsóknarflokksins sem hér koma og æmta og skræmta daginn út og inn í umræðunni og segja að ekki eigi að selja þessa stofnun og engin hætta sé á því. Hvað ef flokkar sem hefðu það á stefnuskrá sinni, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, næðu meiri hluta? (Gripið fram í.) Þá geta þeir það eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir kallar fram í, þeim er auðveldað það með þessu. (Gripið fram í.) Þar að auki ætla ég að rifja upp röksemdir fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins sem einu sinni var pólitískur leiðtogi þeirra ungu þingmanna sem hér sitja og kalla fram í, Halldórs Ásgrímssonar.

Halldór Ásgrímsson hefur á ýmsum stöðum fært rök fyrir því hvaða kostir og gallar fylgja hinum ýmsu rekstrarformum á opinberum fyrirtækjum. Sá ágæti forustumaður Framsóknarflokksins lagði fram frumvarp, sem ég studdi, um hlutafélagavæðingu nokkurra ríkisstofnana sem steypt var saman í eina undir heitinu Matvælarannsóknir Íslands hf. Það varð hlutafélag og var annars eðlis en Ríkisútvarpið, hlutafélag sem sótti rekstrarfé sitt beinlínis á markað með ýmsu móti. Í frumvarpinu sem þáverandi forsætisráðherra flutti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar reifaði hann tvo möguleika á rekstrarformi. Annars vegar hlutafélag, hins vegar sjálfseignarstofnun. Hann taldi að sjálfseignarstofnunin kæmi fyllilega til greina en eins og segir í greinargerð með því frumvarpi valdi hann kost hlutafélagsins vegna þess að hann sagði að auðveldara væri að afla nýs hlutafjár á þann hátt. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin velur hlutafélagaformið, líka forusta Framsóknarflokksins af því að auðveldara er að afla nýs hlutafjár. Hvað þýðir það? Það er auðveldara að selja hluta úr stofnuninni til annarra aðila og fyrirtækja á markaði og afla þannig nýs hlutafjár. Ef það gildir, góðir hálsar, um Matvælarannsóknir hf., því skyldi það þá ekki gilda um Ríkisútvarpið í fjárþrengingum? Þetta eru þættir sem menn verða að hafa í huga og þess vegna var það rétt hjá Framsóknarflokknum þegar hann í upphafi lagðist gegn slíku rekstrarformi. Þess vegna er það rangt og beinlínis háskalegt fyrir þingmenn Framsóknarflokksins að falla frá sinni fyrri stefnu bara til þess að friðþægja gagnvart Sjálfstæðisflokknum.

Hvað er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert fyrir Framsóknarflokkinn sem verðskuldar það að hann hysji svona buxurnar upp um hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins? Hvað er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert fyrir Framsóknarflokkinn? Hann er búinn að eyðileggja Framsóknarflokkinn. Hann er búinn að berja hann í svaðið, hann er búinn að rífa og tæta af honum fylgið. Framsóknarflokkurinn sem var öflugur og sterkur miðjuflokkur er að verða að gjalti, hann er að hverfa, hann er rúinn fylgi, hann er rúinn trausti. Það er einmitt þessi undanlátssemi þingmanna Framsóknarflokksins við hinn stóra, freka, síngjarna Sjálfstæðisflokk sem er að fara svona með Framsóknarflokkinn. Það hlýtur að koma að því að hinn sameiginlegi lífsþróttur Framsóknarflokksins brjótist í gegnum þessi klakabönd og slíti þau af sér. Ég hélt alltaf að það yrðu hinir ungu og vösku þingmenn Framsóknarflokksins sem loksins sæktu sér nýjan neista til að kveikja ný bál til að glæða vöxt flokksins. En þá gerist þvert á móti hið öfuga, að það eru þingmennirnir ungu sem með þessum hætti taka undir með Sjálfstæðisflokknum og hæstv. ráðherra í þessu máli. Þeir eru á síðustu metrunum miklu dyggari stuðningsmenn frumvarps en hinir ungu þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hver er ástæðan fyrir því að ekkert heyrist í Sjálfstæðisflokknum í umræðunni? Sú ástæða er ákaflega einföld. Það ríkir útbreidd vantrú á þetta frumvarp innan Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn skilja hvorki upp né niður hvers vegna þetta er málið sem allt snýst um hjá ríkisstjórninni.

En af hverju snýst þá allt um þetta hjá ríkisstjórninni? Það er vegna þess að þetta er eina stóra málið sem hæstv. menntamálaráðherra getur hugsanlega náð í gegn. Hér hefur ekkert frumvarp komið fram hjá hæstv. ráðherra sem varðar verulega miklu, ef hægt er samkvæmt mælikvarða Sjálfstæðisflokksins að skilgreina það sem mál sem brýtur í blað, nema þetta. Það er að vísu orðið gerbreytt frá hinu upphaflega máli. En þetta er ein af þeim mælingum sem hæstv. ráðherra verður að ná. Þegar hæstv. ráðherra kom hér sem nýr ráðherra sagði hún að það væru þrjú mál sem hún ætlaði sér og sem hún yrði að ná í gegn. Skólagjöld, stytting framhaldsskólans og háeffun Ríkisútvarpsins. Ekkert af þessu er komið í gegn. Ég sýti það ekki. Hæstv. ráðherra getur auðvitað komið hér og sagt að sátt sé um hvernig á að fara með framhaldsskólann og hún ætli sér hugsanlega að gera eitthvað með skólagjöldin en þetta er einfaldlega mál sem er prófsteinn. Þannig er litið á það í Sjálfstæðisflokknum, þó að ég teldi að það væri ráðherranum og sjálfstæðismönnum fyrir bestu að láta þetta ólukkumál liggja. Það er orðið allt öðruvísi en það var í upphafi. Ungir sjálfstæðismenn, eins og t.d. frjálshyggjuvængurinn sem hv. formaður menntamálanefndar tilheyrir, eru þeirrar skoðunar í dag, eins og Sigríður Andersen sagði í sjónvarpsþættinum, að með breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu eru meira að segja rök þeirra fyrir því að klára málið horfin, sigin niður — alveg eins og hv. þingmaður er siginn niður í stólnum undan þessari ræðu, hv. formaður menntamálanefndar, vegna þess að hann er orðinn dauðþreyttur, uppgefinn og lúinn á þessu vegna þess að hann er hættur að skilja tilgang þessa leiðangurs. Það er einfaldlega þannig.

Hv. þingmaður er reyndar einn af þeim sem ég nota sem mælikvarða á hinn raunverulega tilgang með frumvarpinu. Það má um hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson segja að hann er allur þar sem hann er séður. Hann er heiðarlegur og ærlegur stjórnmálamaður og hann segir hlutina umbúðalaust. Hann hefur umbúðalaust sagt, jafnvel í umræðu um þetta mál sem hann stýrir þó förinni á í gegnum þingið, að hann vilji selja Ríkisútvarpið. Það liggur fyrir að formaður menntamálanefndar hefur ekki bara lýst þessu yfir heldur hefur hann, frú forseti, til að undirstrika þann tilgang sinn, lagt fram á þremur þingum mál sem beinlínis miðar að því að selja Ríkisútvarpið. Þarf þá eitthvað að ganga gruflandi að því hvað það er sem vakir fyrir Sjálfstæðisflokknum í málinu þó að þeim hafi tekist að blekkja vesalings Framsóknarflokkinn til fylgis við þessa vitleysu?

Óhjákvæmilegt er að það komi fram í umræðunni, frú forseti, sem ég tel að sé megintilgangurinn með frumvarpinu, þ.e. einkavæðing í framtíðinni, að þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt um það frumvarp að selja eigi Ríkisútvarpið, og þar á meðal hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Þeir tilheyra yngri hluta sjálfstæðismanna sem hefur verið mjög virkur. Einhver virkasta stjórnmálahreyfing á landinu er Samband ungra sjálfstæðismanna. Samband ungra sjálfstæðismanna hefur alltaf verið hinn pólitíski hugmyndamótor Sjálfstæðisflokksins. Ef við mundum stökkva yfir fláka í tímanum og lenda t.d. á árinu 1974–1975, gætum við skyndilega séð í bókaverslunum bókina Uppreisn frjálshyggjunnar. Þar var lögð fram hugmyndafræði sem þeir ungu forustumenn sem þá voru á dögum hrintu síðar að ýmsu leyti í framkvæmd þegar þeir voru ekki kornungir lengur heldur komnir til forustu í Sjálfstæðisflokknum, menn eins og Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Davíð Oddsson.

Með sama hætti er Samband ungra sjálfstæðismanna hinn hugmyndalegi mótor Sjálfstæðisflokksins í dag og þar hefur verið lögð hvað mest áhersla á að selja ríkisfyrirtæki, selja Ríkisútvarpið. Það er einfaldlega eðli stjórnmálanna að með tímanum ganga þeir fram til forustu sem byrja ungir. Það verður hlutskipti þeirra ungu manna ef guð og lukkan leiðir og þeir fá að njóta eðlilegs lífs og þroska munu þeir þegar fram líða stundir taka við forustu í sínum flokki. Þeir munu verða ráðherrar og þeir munu hafa töluvert meiri áhrif en þeir hafa í dag, þ.e. ef þeir komast í ríkisstjórn einhvern tíma síðar á öldinni, sem eru dvínandi líkur á en það er önnur saga. Þeir munu þá að sjálfsögðu hrinda í framkvæmd hugmyndum sínum. En ég sagði áðan að þetta eru menn sem ekki eru deigir í baráttu og hafa mikið úthald. Það er það úthald og sú seigja sem í þeim er sem ég óttast í þessu máli. Þeir munu sem sagt hugsanlega í krafti frumvarpsins ef að lögum verður neyta færisins til að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd því það er eðli stjórnmálamanna að vilja gera það ef þeir eru trúir sjálfum sér eins og þessir menn vissulega eru.

Ég reifaði það áðan fyrr í ræðu minni að ég tel að svolitlar breytingar verði hér strax á næsta ári. Nýtt fólk kemur inn í þingflokk sjálfstæðismanna og það er líklegt til þess að styðja þessar hugmyndir, eins og sú ágæta stjórnmálakona sem ég nefndi áðan. Ýmsir sem hafa verið andsnúnir þessu hverfa af vettvangi. Þannig breytast hlutföllin og þetta óttast ég, frú forseti. Ég óttast það að hinir ungu þingmenn Framsóknarflokksins hafi ekki skilið hvað þeir eru raunar að efna til mikils ófriðar bæði í þessu máli en ekki síður við sína sögu og kjósendur, en hugsanlega horfa þeir framan í veruleikann og sjá að engir kjósendur eru eftir og þar af leiðandi eru engir kjósendur til að styggja. Það má út af fyrir sig segja að það sé glöggt veruleikamat. Það væri náttúrlega hollt þeim hinum sömu þingmönnum að velta fyrir sér af hverju staðan er orðin svona. Ég get sagt það alveg ærlega að staðan er orðin svona skelfileg hjá Framsóknarflokknum vegna þess að hann hefur horfið frá hugsjónum sínum. Hann hefur með einhverjum hætti misst sambandið við grasrót sína, misst sambandið við næringuna sem vökvaði hana og það leiðir til þess að flokkurinn er núna ekki svipur hjá sjón og hugsanlegt að jafnvel í stórum kjördæmum muni hann engan fulltrúa hafa á Alþingi eftir næstu kosningar.

Frú forseti. Ég vil ekki sleppa hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni úr salnum. Ég sé að hann hefur gengið afsíðis. Ég sagði áðan að sá þingmaður væri vissulega trúr hugsjónum sínum en ég verð hins vegar að hryggja hann með því að ég er ekki ánægður með þau vinnubrögð sem hann hefur sýnt við rannsókn þessa máls í menntamálanefnd. Málið var tekið úr menntamálanefnd án þess að stjórnarandstaðan styddi það og hún greiddi atkvæði gegn því. Ég tel að það séu veigamiklir þættir í málinu sem eru fjarri því að vera fullrannsakaðir. Fram kom á síðustu stigum málsins í áliti sem barst frá Samkeppniseftirlitinu um miðbik síðasta mánaðar, þ.e. fyrir tiltölulega skömmu, að mjög líklegt væri að frumvarpið stríddi gegn anda samkeppnislaganna. Hvernig var það rannsakað? Þegar fram kemur álit frá einni af merkustu og öflugustu eftirlitsstofnunum Íslendinga, sem segir beinlínis að frumvarpið sé líklegt til að leiða til meiri háttar málareksturs og ófriðar og hugsanlega að baka íslenska ríkinu mikla skaðabótaskyldu, hvernig var málið þá rannsakað af hálfu menntamálanefndar? Rannsóknarskyldan sem hvílir á nefndinni þegar svona alvarlegar staðhæfingar koma fram hefði átt að krefjast þess af nefndinni að rækilega yrði grafist fyrir um hvað væri hæft í þessu. Gæti það verið, hefðu þingmenn í nefndinni átt að spyrja sig, að hérna væri verið að feta út á slóða sem mundi að lokum leiða til þess að íslenska ríkið lenti í málaferlum heima og erlendis og yrði hugsanlega að gjalda fyrir miklar bætur? Menn hefðu líka átt að spyrja sig hvort mögulegt væri að hugsanlega mundi þetta leiða til þess að breyta þyrfti um stöðu ríkisstofnunarinnar að þessum lögum samþykktum, hugsanlega að selja hluta af henni. Þetta mál og þær staðhæfingar voru ekkert rannsakaðar. Þegar ég segi ekkert, þá get ég þess að vísu að forstjóri Samkeppniseftirlitsins var kvaddur til fundar við nefndina og fékk þar lítið korter en málið var að öðru leyti ekkert rannsakað og því segi ég það, frú forseti: Stjórnarandstaðan, a.m.k. Samfylkingin, mun krefjast þess og ganga fast eftir þeirri kröfu að málið, þetta frumvarp, verði tekið aftur til menntamálanefndar og það verði rannsakað eins og hægt er hvað hæft er í því sem kemur fram í áliti Samkeppniseftirlitsins, því hér er um verulega alvarlega hluti að ræða. Það gengur ekki að til þess að þjóna undir einhvern hæstv. ráðherra sem þarf að fá dyntum sínum fullnægt fullnægi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, ekki þeirri rannsóknarskyldu sem á honum hvílir og sem hann á að uppfylla og sjá um að nefndin uppfylli.

Ég spurði hv. þingmann af því að ég hélt að hann hefði a.m.k. skoðað þetta sjálfur vel og hefði einhverja sannfæringu í málinu, hefði sannfæringu fyrir því að það kynni að verða rangt hjá Samkeppnisstofnun. Ég kom upp í andsvar við þann mann í dag og mér brá svolítið, forseti, því hv. þingmaður er yfirleitt keikur og brattur þegar hann gengur í stólinn til að svara a.m.k. svona þungum hlutum, hér er um sennilega veigamesta atriðið að ræða sem eftir lifir í umræðunni, en það var eitthvað annað. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hvarf næstum því á bak við ræðustólinn og gat engu svarað og það kom í ljós að hann hafði ekki einu sinni skoðað málið. Það eina sem (Gripið fram í: Kanntu annan betri?) hv. þingmaður sagði, frú forseti, var að hann hefði spurt Pál G. Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, hvort þetta væri hið versta mál og hann hefði sagt: Ja náttúrlega, ef frumvarpið yrði að lögum þá eru það sérlög og taka framar hinum. Það breytir engu um það að þarna er farið gegn þeim anda sem einkennir samkeppnislögin. Þar með er farið gegn þeim anda sem hefur verið þungamiðjan í málflutningi Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið með túlann fullan af frelsi og samkeppni frá því elstu menn muna. Það er ekki flóknara en það. En núna, til að þjóna dyntum ráðherrans, er öllu snúið við.

Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi forsætisráðherra, kallar þá hugmyndafræði sem þessir tvílembingar, hæstv. ráðherra og hv. formaður menntamálanefndar, eru að reka í gegnum þingið, öfugsnúna hugmyndafræði. Hann hefur fært sterk rök fyrir því að þarna sé um að ræða ákaflega sterk frávik frá þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt í málinu. Mér finnst það viðurhlutamikið að hvorki hæstv. ráðherra né hv. formaður menntamálanefndar skuli svo mikið sem gera tilraun til að skýra það hvað veldur því að horfið var frá þeirri hugmyndafræði sem lögð var fram af hálfu þáverandi forustu Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma þegar ég og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vorum með þeim í ríkisstjórn. Hvernig stendur á því að sú stefna sem var alveg skýr um hvernig ætti að einkavæða fyrirtæki gufar allt í einu upp? Og enginn skilur af hverju. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og gamall forsætisráðherra þarf að gefa frumvarpinu þá einkunn að þetta sé öfugsnúin hugmyndafræði. Hann hefur sagt það líka að hér sé með alvarlegum hætti verið að víkja frá öllum leikreglum sem hafa gilt varðandi stofnanir af þessu tagi. Enginn hefur skýrt það betur en hann að þær stofnanir sem eðlilegt er að reka sem hlutafélag eru þær sem hafa rekstrarfé sitt að mestu leyti af eigin tekjum. Það hefur margoft komið fram í umræðunni af hálfu hæstv. menntamálaráðherra að hún skilur þetta ekki og hún hefur ekki grafist fyrir um þetta mál. Hún hefur t.d. aftur og aftur komið í þennan ræðustól og sagt að það væri eðlilegt að fara með þessum hætti um Ríkisútvarpið af því að þannig hafi verið gert með Félagsbústaði hjá Reykjavíkurborg. Félagsbústaðir eru einmitt dæmi um opinber fyrirtæki sem rekur sig af sjálfsaflafé — samkvæmt þeim leikreglum sem voru lagðar af einkavini hennar og fyrrum leiðtoga lífs, Davíð Oddssyni, sem þá var forsætisráðherra, og pólitískum bernskufélögum hans eins og Friðriki Sophussyni og Þorsteini Pálssyni sjálfum — og eru dæmi um fyrirtæki sem er rökrétt að reka sem hlutafélag. En með sama hætti er það jafnrökrétt samkvæmt þeim forsendum sem forusta Sjálfstæðisflokksins lagði á sínum tíma að gera það ekki varðandi fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið.

Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að það sé algerlega nauðsynlegt við meðferð þessa máls milli 2. og 3. umr. að fara mjög rækilega yfir umsögn Samkeppniseftirlitsins. Þar er sagt alveg skýrum orðum að Samkeppniseftirlitið telji að það sé alveg ljóst að Ríkisútvarpið muni nýta ríkisaðstoð til að kaupa dagskrárefni og segir hér, með leyfi forseta:

„Af þessu leiðir óhjákvæmilega að umrædd samkeppnisstarfsemi RÚV á sviði auglýsinga verður niðurgreidd með þeirri ríkisaðstoð sem félagið mun njóta.“

Stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé samkeppnisleg mismunun.

Rétt er að staðfesta það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði í ræðu sinni í dag í andsvari við mig að komið hefði fram hjá forstjóra stofnunarinnar á fundi menntamálanefndar að stofnunin sjálf mundi ekki grípa til ráðstafana gagnvart hinu nýja hlutafélagi þó ekki yrði farið að annarri þeirra tveggja leiða sem stofnunin telur æskilega. En þegar það liggur hins vegar fyrir að Samkeppniseftirlitið telur að þessi háttur leiði til samkeppnislegrar mismununar þá er það beinlínis eins og rauð dula gagnvart þeim bolum sem eru í samkeppni við hið nýja hlutafélag og það er óhjákvæmilegt að á grundvelli yfirlýsingar þessarar merku eftirlitsstofnunar muni samkeppnisaðilarnir fara í mál hér heima, hugsanlega erlendis og það er því mjög líklegt eða það er a.m.k. hugsanlegt, við skulum orða það svo, frú forseti, til að hafa vaðið fyrir neðan okkur, það er hugsanlegt að með samþykkt þessa frumvarps sé Alþingi og hæstv. menntamálaráðherra að kalla yfir ríkið langvarandi málaferli heima og erlendis og hugsanlega baka ríkinu mikla skaðabótaskyldu. Og það er ekki hægt og það er ekki verjanlegt fyrir hið háa Alþingi að ganga frá þessu máli á þann hátt að menntamálanefnd hafi ekki rannsakað það. Ég segi, það eru vond vinnubrögð, það er til vansa fyrir nefndina og þá sem stýra henni og það er til vansa fyrir stjórnarmeirihlutann á Alþingi að hafa látið undir höfuð leggjast að rannsaka þetta alvarlega ámæli og umsögn Samkeppniseftirlitsins. Því segi ég það, frú forseti, að ég mun beita mér fyrir því að þetta verði rannsakað niður í kjölinn í menntamálanefnd millum umræðna.