133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:13]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samfylkingin hefur alltaf sagt að það sé nauðsynlegt að breyta háttum Ríkisútvarpsins svo það verði sveigjanlegra og lipurra á markaði og geti hreyft sig hraðar. Við höfum hins vegar bent á að það sé til sérstakt rekstrarform sem hentar því ákaflega vel, þ.e. form sjálfseignarstofnunar.

Það er tekið sérstaklega fram í frumvarpinu, ef ég mætti rifja það upp fyrir hv. þingmann, að það rekstrarform hafi marga og flesta kosti hlutafélagaformsins. Það væri hins vegar ekki jafn reynt. En hins vegar væri það einkaréttarlegs eðlis og hefði þess vegna ýmsa kosti sem hæstv. ráðherra er að reyna að ná fram hérna.

En mér hefur fundist þetta frumvarp aðallega snúast um að gera útvarpsstjóra kleift að segja upp nokkrum starfsmönnum sem eru ráðherraskipaðir plús ákveðnar aðrar breytingar. Mér finnst að hér sé lagt í allt of mikinn leiðangur til þess.

Ég hefði miklu frekar talið að Framsóknarflokkurinn, trúr fyrri yfirlýsingum sínum, hefði átt að taka undir stefnu Samfylkingarinnar um að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarformi vegna þess að þá hefði verið hægt að ná sátt um málið. Þá hefði verið hægt að gera hinar nauðsynlegu breytingar til þess að gera stofnunina lipurri. Þá hefðum við að öllum líkindum verið búin að ganga frá því sem þurfti til að hefja það sem hv. þingmaður kallaði hér í ræðu sinni í dag endurreisn Ríkisútvarpsins, þó ég sé nú ekki sammála henni um að það sé sérstaklega stöðnuð stofnun eins og hún sagði hér í ræðustóli.

En það breytir ekki hinu, frú forseti, að maður hafði veika von um að Framsóknarflokkurinn væri að finna leifar af einhverju gömlu lífsmarki djúpt í iðrum sálar sinnar. Framsóknarflokkurinn kom og reyndi að gera yfirbót vegna Íraks, a.m.k. segir formaðurinn stundum, það fer eftir því hvar hann er staddur, að þar hafi verið gerð mistök. Af hverju kemur hv. þm. Dagný Jónsdóttir ekki og viðurkennir að þetta (Forseti hringir.) hafi líka verið mistök?