133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég bara dreg það ekki í efa eitt einasta augnablik að Framsóknarflokkurinn vill koma upp stóru og öflugu almannaútvarpi. Hins vegar leyfi ég mér að halda því fram að það sé tóm vitleysa hjá hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur þegar hún segir að báðir stjórnarflokkarnir séu sammála um það. Það er hugsanlegt að það sé jafnvel væn sneið af Sjálfstæðisflokknum sem er sammála því. Hitt hef ég verið sannfærður um og rökstuddi í hluta ræðu minnar að það væri meðvituð stefna a.m.k. hjá hluta Sjálfstæðisflokksins að þrengja að Ríkisútvarpinu, skapa hjá því fjárhagsþrengingar til að búa til þá stöðu að menn neyddust til að hefja bútasölu á Ríkisútvarpinu eftir hlutafélagavæðinguna. Ég hef fyrir mér ekki ómerkari mann en talsmann Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum í þessum sölum, þ.e. hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann hefur bókstaflega talað með þeim hætti að ekki er hægt að draga aðra ályktun af því.

Ég ætla svo ekki að draga úr vonum hv. þingmanns um að Framsóknarflokkurinn finni sinn endurlausnara, hugsanlega í hv. þingmanni í fyllingu tímans, og lifi nýja upprisu. Sagan kennir að það eru mörg dæmi um slíkt. Oft er það svo að flokkar í krappri stöðu sækja sér lífsþrótt í ungt fólk, í endurnýjaðar hugsjónir og brjótast úr þeim klakaböndum sem hafa keyrt þá niður í frerann. Það er alveg hugsanlegt að það gerist.

Ég leyfi mér hins vegar að efast stórlega um að það sé rétt upphaf að upprisunni að ungir þingmenn eða þingmenn Framsóknarflokksins yfir höfuð haldi bara áfram að ganga svipugöngin á enda, haldi áfram að láta lemja sig með málum sem engin samstaða er um meðal grasrótar flokksins, hvort heldur það er Írak eða Ríkisútvarpið eða ýmis fjölskyldumál. Ég rifja það upp að þessi flokkur sem fór í kosningar með fjölskylduna í fyrirrúmi lét Sjálfstæðisflokkinn pína sig til þess að kroppa 10 milljarða af barnafólki með því að lækka barnabætur, þó að nú sé aðeins verið að reyna að rétta það af. (Forseti hringir.) Þetta er nú sagan, frú forseti.