133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[23:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns þá skrifaði ég undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Það stafar m.a. af því að það er allsendis óljóst eftir að þessi skil hafa orðið milli RÚV og Sinfóníuhljómsveitarinnar hvort landsmönnum verði áfram gefinn kostur á því að njóta tónleika Sinfóníunnar í gegnum Ríkisútvarpið sem sama hætti og áður.

Á fund nefndarinnar kom Páll Magnússon útvarpsstjóri. Hjá honum kom alveg skýrt fram að eina leið Ríkisútvarpsins til þess að ná að hafa þetta samband óbreytt, væri ef fyrirtækinu auðnaðist að ná kostun svokallaðri á tónleika Sinfóníunnar.

Ríkisútvarpsstjóri greindi frá því aðspurður af okkur stjórnarandstæðingum að þetta væri nauðsynlegt því ella væri ekki til fjármagn í stofnuninni til þess að útvarpa tónleikunum.

Nú liggur það hins vegar fyrir að það á ekki að leyfa, samkvæmt frumvarpi sem hér var verið að ræða áðan, Ríkisútvarpinu að auka kostun sína á dagskrárefni. Það þýðir, frú forseti, að því er ég skildi ríkisútvarpsstjóra, að þá væri ekki unnt að fjármagna útsendingar frá tónleikunum.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur tekið þátt í því að breyta reglum um kostun sem leiða til þessa, með hvaða hætti ætlar hann og stjórnarmeirihlutinn að tryggja það að landsmenn njóti áfram stórkostlegrar þjónustu þessarar stórkostlegu hljómsveitar?