133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[23:35]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú þannig að meiri hluti menntamálanefndar leggur í sjálfu sér ekki til að Ríkisútvarpinu ohf. verði bannað að afla sér tekna með kostun, þ.e. að kosta einstaka dagskrárliði með samningum þar um, heldur er gert ráð fyrir því í frumvarpinu og í breytingartillögum sem við leggjum til í meiri hluta menntamálanefndar, að kostunin gangi ekki lengra sem hlutfall af heildarauglýsingatekjum Ríkisútvarpsins en þær voru á árinu 2006.

En til þess að svara spurningu hv. þingmanns þá vil ég benda honum á nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. á þskj. 500, 56. mál, en þar segir, með leyfi forseta:

Meiri hlutinn vill beina því til menntamálaráðherra að mælast fyrir því, í þjónustusamningi milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf., til þess að þeim tekjum sem félagið aflar sér með þjónustusamningum, þetta á reyndar að vera kostunarsamningum, verði fremur varið til kostunar á dagskrárliðum sem varða íslenska tungu, sögu og menningararfleifð, en til kostunar á erlendu afþreyingarefni.

Þarna kemur sú stefnumörkun sem meiri hluti menntamálanefndar leggur til grundvallar varðandi þær kostunarreglur sem Ríkisútvarpið á að hafa til hliðsjónar og ætti að duga Ríkisútvarpinu til þess einmitt að kosta útsendingar frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og frá ýmsum öðrum atburðum sem hafa menningarlegt gildi fyrir íslensku þjóðina.