133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[23:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er ekki með á nefndarálitinu, hvorki með eða án fyrirvara. Við höfum haft mjög miklar efasemdir um að slíta á tengslin á milli Ríkisútvarpsins annars vegar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands hins vegar. Þessar stofnanir hafa verið nátengdar frá því að Sinfóníuhljómsveitinni var hleypt af stokkunum um miðja síðustu öld. Það var árið 1950 sem tónlistardeild Ríkisútvarpsins hafði forgöngu um stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þegar Sinfóníuhljómsveitin komst síðan í fjárhagslegt þrot rúmum tíu árum síðar, 1961, tók Ríkisútvarpið alfarið við rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Síðan gekk á ýmsu næstu 20 árin en 1982 voru sett lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands og gerður samningur um fjármögnun starfseminnar og kom það þá í hlut Ríkisútvarpsins að sjá henni fyrir fjórðungnum af rekstrarfé.

Þetta var ágætur og hagkvæmur samningur fyrir báða aðila. Eins og fram hefur komið við umræðuna hefur hljóðvarpið/útvarpið nýtt sér samninginn bærilega og hagnast vel á honum, að mínu mati. Ég lét alla vega sannfærast af ágætri grein eftir Jón Þórarinsson, fyrrum dagskrárstjóra hjá Ríkisútvarpinu, sem færði rök fyrir því að svo hafi verið. Annað gildir um sjónvarpið. Sjónvarpið hefur átt tilkall til mun meira efnis frá Sinfóníunni en nýtt hefur verið, þannig að það er vannýttur samningur að því leyti.

Við skulum ekki gleyma því að ef Ríkisútvarpið ætlar að sinna menningarlegum skyldum sínum á sviði tónlistar, kemur það til með að kosta umtalsvert fé. Það er staðreynd. Nú segir hv. formaður menntamálanefndar Alþingis að málefni Sinfóníunnar séu í bærilegum farvegi hvað þetta snertir og vísar þá til kostunar. Hann hefur engar efasemdir um að fyrirtæki séu tilbúin að láta fé renna til hennar. En útvarpsstjóri mun hafa upplýst á fundi menntamálanefndar Alþingis, það hefur komið fram hér við umræðuna, að þrátt fyrir ákvæði um að gerður skuli þjónustusamningur milli Ríkisútvarpsins annars vegar og Sinfóníunnar hins vegar, þá sé ekkert fé til ráðstöfunar til þessa. Þar kemur kostunarpeningurinn til sögunnar. Ég hef miklar efasemdir um kostun í Ríkisútvarpinu yfirleitt. Ég er fylgjandi auglýsingum, ég er fylgjandi því að Ríkisútvarpið sé fjármagnað að hluta með auglýsingafé. Ef það væri svipt auglýsingatekjum yrði það svipt þriðjungnum af rekstrarfé sínu. Ég held að það sé hreinlega ekki grundvöllur, pólitískur grundvöllur til þess að auka afnotagjöld eða fé frá almenningi til Ríkisútvarpsins sem þessu nemur. Þess vegna tel ég það byggt á raunsæi, vilji maður efla hag þessarar stofnunar, að viðhalda auglýsingum. Öðru máli gegnir um kostunarféð. Ég hefði gaman af að sjá úttekt á því hvað borgar sig fyrir Ríkisútvarpið í því efni, því að ég held að þetta séu afar ódýrar auglýsingar sem mætti hala inn með öðrum hætti.

Hæstv. forseti. Ég vildi einvörðungu gera grein fyrir afstöðu okkar. Við höfum verið talsmenn þess að Ríkisútvarpið njóti ákveðinna réttinda og ákveðinna sérréttinda í heimi fjölmiðlanna. Á móti axli þessi stofnun skyldur, hún axli þar á meðal menningarlegar skyldur og þá einnig gagnvart Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þess vegna höfum við haft uppi gagnrýni við að höggva á þessi tengsl sem gert er með þessu frumvarpi.