133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ákvörðun bandarísku stórverslunarkeðjunnar Whole Foods Market um að hætta markaðssetningu á íslenskum vörum í búðum sínum vegna hvalveiða Íslendinga er afar dapurleg en þó fyrirsjáanleg eins og segir í leiðara Morgunblaðsins í morgun. Ummæli hæstv. sjávarútvegsráðherra í kjölfar þessara frétta vekja sannarlega áhyggjur. Hann situr við sinn keip, þrjóskan uppmáluð, og segir forsvarsmenn Whole Foods Market einfaldlega ekki sammála sér, segir sömuleiðis að hann líti ekki svo á að hér sé um breiðar mótmælaaðgerðir að ræða. Virðulegi forseti. Þetta er mikil óskhyggja í hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég tel hann í mikilli afneitun, að hann sé haldinn ranghugmyndum og að athafnir hans hafi skaðað markaðsstarf bæði ferðaþjónustu og landbúnaðar meira en góðu hófi gegnir.

Viðbrögð stjórnvalda við þessum fréttum þurfa að vera yfirvegaðri en þau sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur viðhaft. Ég hef fullan hug á að fá að heyra hvað aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn hafa um þessi viðbrögð hæstv. sjávarútvegsráðherra að segja, helst hefði ég viljað að hæstv. forsætisráðherra væri hér til svara og þá landbúnaðarráðherra. Markaðsvinna sú sem hefur átt sér stað undanfarinn áratug og jafnvel lengur hefur ekki verið hrist fram úr erminni. Í hana hafa verið lagðir gríðarlegir fjármunir og miklir kraftar duglegra einstaklinga sem hafa unnið verulega mikið starf og náð gríðarlega mikilvægum árangri. Sá árangur er nú í uppnámi til frambúðar nema íslensk stjórnvöld bregðist við af skynsemi.

Eina skynsemin er sú og eini möguleikinn sem þessi stjórnvöld hafa er að gefa út formlega yfirlýsingu um að þau hafi gert mistök þegar þau ákváðu að fara út í hvalveiðar í atvinnuskyni nú í haust. Þá yfirlýsingu þarf að afturkalla, það þarf að lýsa því yfir að hún hafi verið mistök til að við eigum von um að geta bætt úr þessum mikla yfirvofandi skaða.