133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:04]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, við eigum ekki að gera lítið úr þessari ákvörðun fyrirtækisins Whole Foods, en við eigum heldur ekki að oftúlka áhrifin af því sem átti sér stað með þessari ákvörðun.

Í fyrsta lagi skulum við átta okkur á því að ákvörðun fyrirtækisins felur það í sér, eins og kemur fram í bréfinu til mín 22. nóvember sl., að fyrirtækið hyggist nú fjarlægja auglýsingaskilti og þess háttar sem sérstaklega vekur athygli á Íslandi og íslenskum vörum. Hins vegar er það tekið fram í bréfi forsvarsmanna fyrirtækisins til mín að þeir muni halda áfram að selja vörur frá íslenskum framleiðendum. Þeir hafa með öðrum orðum komist að því að það eru markaðslegar forsendur fyrir þá, það eru hagsmunir þeirra að halda áfram að selja íslenskar vörur, vegna þess að það er eftirspurn eftir þeim, áhugi hjá bandarískum neytendum á að kaupa íslenskar vörur.

Það er hins vegar athyglisvert að þetta gerist á sama tíma og til mín streyma fiskkaupendur víðs vegar að úr heiminum frá stórum fyrirtækjum — og hvað leggja þeir áherslu á? Þeir leggja áherslu á það að við reynum að undirstrika uppruna vörunnar betur en við höfum gert, uppruna íslenska fisksins. Þeir telja að það sé mikill styrkur að því, ekki bara fyrir íslenskan fisk, heldur fyrir þá sjálfa að það komi fram að varan sem þeir selja, íslenski fiskurinn, sé veidd á íslenskum miðum, unnin af íslenskum fyrirtækjum vegna þess að þeir telja að það sendi góð og jákvæð skilaboð út á markaðinn sem hefur álit á því sem við erum að gera í íslenskum sjávarútvegi. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þessu.

Við höfum reynslu frá árinu 2003 þegar við hófum hvalveiðar að nýju, þá í vísindaskyni. Þá spáðu margir heimsenda, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur gert allar götur síðan. Allt annað hefur komið á daginn, við höfum reynslu, ég sagði strax í upphafi, núna 17. október þegar ákvörðunin var tekin um að hefja atvinnuveiðarnar, að það yrðu neikvæð áhrif til skamms tíma. Ég held að reynslan sýni okkur að þessi áhrif muni hins vegar hverfa og til lengri tíma muni íslenska þjóðin ekki skaðast á þessu, heldur þvert á móti. (Forseti hringir.) Ella hefðum við ekki tekið þessa ákvörðun.